Sérstök viðurkenning veitt vegna framlags til íslensks tónlistarlífs

By 16/03/2018Fréttir

 

Daníel Bjarnason fyrstur til að hljóta sérstaka viðurkenningu Samtóns og íslensku tónlistarverðlaunanna

Það var sannarlega kvöldið hans Daníels Bjarnasonar á Íslensku tónlistarverðlaununum en hann er fyrstur til að hljóta sérstaka viðurkenningu Samtóns og Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir störf sín og framlag til íslenskrar tónlistar, en að auki hlaut Daníel þrenn verðlaun sem hann hafði verið tilnefndur til.  

 

Daníel Bjarnason tónskáld og hljómsveitartjóri var sérlega afkastamikill á árinu 2017; Fyrsta ópera hans, Brothers, var frumsýnd í Danmörku; Fílharmóníusveit Los Angeles og fiðlusnillingurinn Pekka Kuusisto frumfluttu fiðlukonsert hans undir stjórn hins heimsþekkta hljómsveitarstjóra Gustavo Dudamels; kvikmyndatónlist Daníels hljómaði í kvikmyndinni Undir trénu, en hann hlaut nýverið Norrænu kvikmyndatónlistarverðlaunin fyrir þá vinnu. Þess utan var Daníel einnig staðarlistamaður Sinfóníuhljómsveitar Íslands auk þess að stjórna hljómsveitinni í fjölmörg skipti.

Í kjölfar samstarfs Daníels og Los Angeles-fílharmóníunnar var tónlistarhátíðin Reykjavík Festival haldin í Walt Disney Hall, tileinkuð Íslandi og íslenskri tónlist. Hátíðin stóð frá 1. apríl til 4. júní 2017 og var Daníel listrænn stjórnandi ásamt hljómsveitarstjóranum Esa-Pekka Salonen. Þar hljómuðu verk um fimmtíu íslenskra tónskálda, þar af voru um átján tónverk frumflutt. Ríflega sextíu flytjendur frá Íslandi bættust í hóp þarlendra tónlistarmanna en hátíðin reyndist einnig farvegur fyrir íslenska popptónlist og myndlist. Óhætt er að fullyrða að sjaldan eða aldrei hefur jafn viðamikil kynning átt sér stað á íslenskri tónlist, þá einkum sígildri og samtímatónlist.

Hugmyndin um Reykjavik Festival vakti athygli þeirra sem standa að Elbphilharmonie í Hamborg. Opnun tónlistarhússins í janúar 2017 var heimsviðburður í listaheiminum sem beðið hafði verið með eftirvæntingu en úr varð að á fyrstu starfsvikum hússins var haldin Íslandshátíð, Into Iceland. Hátíðin stóð í viku og voru þeir Daníel og Esa-Pekka meðal helstu driffjaðra.

Það er ómetanlegt þegar menningarstofnanir á borð við LA Phil. og Elbphilharmonie sjá mikilvægi og nýbreytni í því að halda íslenskri tónlist á lofti. Að sama skapi er ómetanlegt þegar listamenn sem njóta velgengni leggja sig fram við að leyfa öðrum listamönnum að njóta meðbyrsins.

Eins og fyrr segir þá átti Daníel Bjarnason sérlega afkastamikið ár í fyrra og var framlag hans til íslenskrar tónlistar og tónlistarlífs á árinu 2017 alveg ómetanleg og á sér vart hliðstæðu í íslenskri tónlistarsögu. Íslensku tónlistarverðlaunin vilja þess vegna færa honum bestu þakkir með sérstakri viðurkenningu og fær hann fyrstur tónlistarfólks sérstaka viðurkenningu Samtóns og Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir störf sín. Það var forseti Íslands herra Guðni Th. Jóhannesson sem veitti Daníel verðlaunin en auk þess að hljóta þau vann Daníel verðlaun fyrir plötu ársins í flokki sígildrar og samtímatónlistar fyrir plötuna Recurrence þar sem hann stjórnar Sinfóníuhljómsveit Íslands. Fyrsta ópera hans, Brothers, var valin tónverk ársins í flokki sígildrar og samtímatónlistar og að lokum var Undir trénu, tónlist Daníels við samnefnda kvikmynd valin plata ársins í flokki kvikmynda og leikhústónlistar.

Við óskum Daníel Bjarnasyni innilega til hamingju!

 

(Ljósmyndir tók Hörður Sveinsson fyrir Íslensku tónlistarverðlaunin)

Leave a Reply