All Posts By

Johann

Dómnefndir Íslensku tónlistarverðlaunanna

By | Fréttir | No Comments

Dómnefndir Íslensku tónlistarverðlaunanna 2018 voru skapaðar með eftirfarandi hætti.

Rokk og Popp

Erla Ragnarsdóttir – Formaður
Matthías Már Magnússon
Arnar Eggert Thoroddsen
Helga Þórey Jónsdóttir
Regína Ósk Óskarsdóttir
Hannes Friðbjarnarson
Ómar Úlfur Eyþórsson

Jass og Blús

Unnur Sara Eldjárn – Formaður
Matthías V. Baldursson
Ingvi Þór Kormáksson
Þóra Sif Svansdóttir
Skúli Þórðarson

Sígild og samtímatónlist

Helgi Jónsson – Formaður  
Grétar Einarsson
Valgerður Guðrún Halldórsdóttir
Tui Hirv
Sigurður Ingvi Snorrason
Ingveldur Ýr Jónsdóttir
Ingvar Jon Bates Gislason

Opin flokkur

Þráinn Baldvinsson
Formenn allra flokka eða stagengill

Sérstaka aðstoð og ráðleggingar veitti Þormar Melsted við greiningu og útskýringar við vali á Plötuumslagi ársins.

Íslensku tónlistarverðlaunin þakkar dómnefndum kærlega fyrir gott og óeigingjarnt starf.

Mammút – Kinder Versions (Plata ársins – Rokk)

By | Verðlaunahafar 2017 | No Comments

Mammút – Kinder Versions

Kinder Versions er fjórða breiðskífa Mammút og sú fyrsta sem sveitin gefur út í gegnum hina öflugu útgáfu Bella Union. Þetta er verk sem þarf að vinna fyrir, blær níunda áratugarins svífur yfir vötnum og undiraldan þung. Melódía og grúv er þó í umvörpum og Katrína Mogensen á sannkallaðan stjörnuleik í söng.

Snorri Helga – Margt býr í þokunni (Plata ársins – Þjóðlagatónlist)

By | Verðlaunahafar 2017 | No Comments

Snorri Helgason – Margt býr í þokunni

Margt býr í þokunni er afar vel heppnuð tilraun til að tengja saman nýja tíma og þjóðlagahefð okkar Íslendinga frá fornu fari. Sterkar lagasmíðar, vandaður flutningur og ekki skemmir fyrir hvernig þjóðsögurnar ganga í endurnýjun lífdaga. Afar vönduð plata þar sem nostrað er við hvert smáatriði.

Sérstök viðurkenning veitt vegna framlags til íslensks tónlistarlífs

By | Fréttir | No Comments

 

Daníel Bjarnason fyrstur til að hljóta sérstaka viðurkenningu Samtóns og íslensku tónlistarverðlaunanna

Það var sannarlega kvöldið hans Daníels Bjarnasonar á Íslensku tónlistarverðlaununum en hann er fyrstur til að hljóta sérstaka viðurkenningu Samtóns og Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir störf sín og framlag til íslenskrar tónlistar, en að auki hlaut Daníel þrenn verðlaun sem hann hafði verið tilnefndur til.  

 

Daníel Bjarnason tónskáld og hljómsveitartjóri var sérlega afkastamikill á árinu 2017; Fyrsta ópera hans, Brothers, var frumsýnd í Danmörku; Fílharmóníusveit Los Angeles og fiðlusnillingurinn Pekka Kuusisto frumfluttu fiðlukonsert hans undir stjórn hins heimsþekkta hljómsveitarstjóra Gustavo Dudamels; kvikmyndatónlist Daníels hljómaði í kvikmyndinni Undir trénu, en hann hlaut nýverið Norrænu kvikmyndatónlistarverðlaunin fyrir þá vinnu. Þess utan var Daníel einnig staðarlistamaður Sinfóníuhljómsveitar Íslands auk þess að stjórna hljómsveitinni í fjölmörg skipti.

Í kjölfar samstarfs Daníels og Los Angeles-fílharmóníunnar var tónlistarhátíðin Reykjavík Festival haldin í Walt Disney Hall, tileinkuð Íslandi og íslenskri tónlist. Hátíðin stóð frá 1. apríl til 4. júní 2017 og var Daníel listrænn stjórnandi ásamt hljómsveitarstjóranum Esa-Pekka Salonen. Þar hljómuðu verk um fimmtíu íslenskra tónskálda, þar af voru um átján tónverk frumflutt. Ríflega sextíu flytjendur frá Íslandi bættust í hóp þarlendra tónlistarmanna en hátíðin reyndist einnig farvegur fyrir íslenska popptónlist og myndlist. Óhætt er að fullyrða að sjaldan eða aldrei hefur jafn viðamikil kynning átt sér stað á íslenskri tónlist, þá einkum sígildri og samtímatónlist.

Hugmyndin um Reykjavik Festival vakti athygli þeirra sem standa að Elbphilharmonie í Hamborg. Opnun tónlistarhússins í janúar 2017 var heimsviðburður í listaheiminum sem beðið hafði verið með eftirvæntingu en úr varð að á fyrstu starfsvikum hússins var haldin Íslandshátíð, Into Iceland. Hátíðin stóð í viku og voru þeir Daníel og Esa-Pekka meðal helstu driffjaðra.

Það er ómetanlegt þegar menningarstofnanir á borð við LA Phil. og Elbphilharmonie sjá mikilvægi og nýbreytni í því að halda íslenskri tónlist á lofti. Að sama skapi er ómetanlegt þegar listamenn sem njóta velgengni leggja sig fram við að leyfa öðrum listamönnum að njóta meðbyrsins.

Eins og fyrr segir þá átti Daníel Bjarnason sérlega afkastamikið ár í fyrra og var framlag hans til íslenskrar tónlistar og tónlistarlífs á árinu 2017 alveg ómetanleg og á sér vart hliðstæðu í íslenskri tónlistarsögu. Íslensku tónlistarverðlaunin vilja þess vegna færa honum bestu þakkir með sérstakri viðurkenningu og fær hann fyrstur tónlistarfólks sérstaka viðurkenningu Samtóns og Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir störf sín. Það var forseti Íslands herra Guðni Th. Jóhannesson sem veitti Daníel verðlaunin en auk þess að hljóta þau vann Daníel verðlaun fyrir plötu ársins í flokki sígildrar og samtímatónlistar fyrir plötuna Recurrence þar sem hann stjórnar Sinfóníuhljómsveit Íslands. Fyrsta ópera hans, Brothers, var valin tónverk ársins í flokki sígildrar og samtímatónlistar og að lokum var Undir trénu, tónlist Daníels við samnefnda kvikmynd valin plata ársins í flokki kvikmynda og leikhústónlistar.

Við óskum Daníel Bjarnasyni innilega til hamingju!

 

(Ljósmyndir tók Hörður Sveinsson fyrir Íslensku tónlistarverðlaunin)

Stuðmenn fengu heiðursverðlaun Samtóns

By | Fréttir | No Comments

Stuðmenn heiðraðir

 

Að þessu sinni heiðrum við merka hljómsveit, sem tók fyrstu skrefin árið 1970 í nýstofnuðum menntaskóla í Hlíðunum. Fjórum árum seinna gerðu Lars Himmelbjerg og Leó Löve tvær smáskífur sem vöktu misjöfn viðbrögð, en mjór er mikils vísir.

Á þjóðhátíðardaginn 1975 kom tímamótaplatan Sumar á Sýrlandi og þar kvað við nýjan tón í íslensku rokki. Stuðmenn komu fram með grímur sumarið 1975, svo að enginn þekkti þá, sem var kannski óþarfi, því þeir voru tiltölulega óþekktir. Þegar platan Tívolí kom á markað sumarið 1976 vissu flestir landsmenn hvaða tónlistarmenn skipuðu þessa einstöku hljómsveit.

Stuðmenn tóku sér nokkurra ára hlé en komu aftur með hvelli árið 1981 þegar kvikmyndin Með allt á hreinu var frumsýnd. Stuðmenn og Grýlurnar hittu landsmenn í hjartastað og myndin sló öll fyrri aðsóknarmet. Margir kunna þessa mynd utanað og það er oft vitnað í hana.

Árið 1983 kom hin skrautlega bók Draumur okkar beggja sem fjallar um sögu Stuðmanna og inniheldur borðspil, sem fáir hafa spilað. Sumarið 1984 héldu Stuðmenn vel heppnaða útihátíð í Atlavík og buðu Bítlatrommaranum Ringo Starr og eiginkonu hans til landsins.

Stuðmenn gerðu kvikmyndina Hvítir mávar 1985 og ári seinna fóru þeir í hljómleikaferð um Kína undir nafninu Strax. Hljómsveitin gaf út lagið Moscow Moscow í tilefni af leiðtogafundi Reagans og Gorbatsjovs í Höfða og hélt ærlegt áramótateiti í beinni útsendingu í sjónvarpinu í árslok.

 

 

Stuðmenn hafa tekið breytingum í gegnum tíðina en ætíð haldið sérstöðu sinni. Þeir hafa gert fjölmargar hljómplötur, haldið ótalmörg böll og tónleika, staðið fyrir hæfileikakeppnum þar sem ungt listafólk hefur stigið sín fyrstu skref og meira að segja kom fram með Karlakórnum Fóstbræðrum.

Árið 2004 gerðu Stuðmenn myndina Í takt við tímann og spiluðu í Tívolí í Kaupmannahöfn. Þeir héldu tónleika í Royal Albert Hall í Lundúnum árið 2005, komu fram í Jazz Philharmonic Hall í Pétursborg 2006 og í Cirkus í Kaupmannahöfn 2007.

Stuðmenn hafa verið óþreytandi við að finna upp á ótrúlegustu hlutum og skapa eftirminnileg augnablik. Frumlegur klæðaburður hefur einkennt Stuðmenn í gegnum tíðina, litadýrðin er í fyrirrúmi og leikrænir tilburðir hafa jafnan verið í hávegum. Nýjasta útspil þeirra var Astraltertukubburinn, með nýrri tónlist sem þeir sendu frá sér fyrir síðustu jól.

Stuðmenn hafa veitt þjóðinni ómælda gleði með grípandi söngvum og textum á löngum ferli.

Meðlimir Stuðmanna, fyrr og síðar, hljómsveitar allra landsmanna, eru heiðursverðlaunahafar Íslensku tónlistarverðlaunanna.

– Textaágrip um Stuðmenn ritaði Jónatan Garðarsson

– Lilja Alfreðsdóttir, mennta og menningarmálaráðherra, afhenti Stuðmönnum heiðursverðlaun Samtóns við mikil fagnaðarlæti þeirra sem í salnum voru.

Stuðmenn áttu svo lokaorðið á Íslensku tónlistarverðlaununum og skemmtu sér og öðrum eins og þeim einum er lagið. Heiðursverðlaunin tileinkuðu Stuðmenn afar kærum heiðursmanni, samferðamanni og vini sem engum var líkur – Tómasi Magnúsi Tómassyni.

Það er Samtónn sem stendur að baki Íslensku tónlistarverðlaununum. Að baki Samtón standa FÍH, FHF, STEF, SFS, FTT og Tónskáldafélag Íslands, Tilgangur Samtóns er að vinna að sameiginlegum hagsmunum og styrkja stöðu höfunda, flytjenda, framleiðenda og annarra rétthafa að tónlist. Samtónn kemur fram sameiginlega fyrir hönd íslenskra rétthafa og tónlistarfólks.

 

 

 

(Ljósmyndir tók Hörður Sveinsson fyrir Íslensku tónlistarverðlaunin)

Verðlaunahafar Íslensku tónlistarverðlaunanna

By | Fréttir | No Comments

 

 

Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir tónlistarárið 2017 veitt í Hörpu

 

Það var sannarlega kvöldið hans Daníels Bjarnasonar á Íslensku tónlistarverðlaununum – hann er fyrstur til að hljóta sérstaka viðurkenningu Samtóns og Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir störf sín og framlag til íslenskrar tónlistar, en að auki hlaut Daníel þrenn verðlaun sem hann hafði verið tilnefndur til.

 

Daníel Bjarnason átti sérlega afkastamikið ár í fyrra og var framlag hans til tónlistarlífsins ómetanlegt og viðamikið. Hlýtur hann fyrstur tónlistarfólks sérstaka viðurkenningu Samtóns og Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir störf sín á sviði tónlistar þess vegna. Það var forseti Íslands herra Guðni Th. Jóhannesson sem veitti Daníel verðlaunin en auk þess að hljóta þau vann Daníel verðlaun fyrir plötu ársins í flokki sígildrar og samtímatónlistar fyrir plötuna Recurrence þar sem hann stjórnar Sinfóníuhljómsveit Íslands. Fyrsta ópera hans, Brothers, var valin tónverk ársins í flokki sígildrar og samtímatónlistar og að lokum var Undir trénu, tónlist Daníels við samnefnda kvikmynd valin plata ársins í flokki kvikmynda og leikhústónlistar.

Í flokki popp og rokktónlistar var það fyrst Nýdönsk og svo Mammút sem komu sáu og sigruðu. Nýdönsk hlaut fern verðlaun en Mammút þrenn – og spegluðu sveitirnar hvor aðra á skemmtilegan hátt. Platan Á plánetunni Jörð með Nýdönsk var valin poppplata ársins á meðan fjórða breiðskífa Mammút á ferli sveitarinnar, Kinder Versions, var valin rokkplata ársins. Rokklag ársins var valið Breathe into me með Mammút en lag Nýdanskrar, Stundum, var lag ársins í flokki popptónlistar. Daníel Ágúst Haraldsson var kosinn söngvari ársins en Katrína Mogensen var valin söngkona ársins í flokki popp- og rokktónlistar en bæði eru þau í fantaformi með sveitum sínum á breiðskífum síðasta árs. Fjórðu verðlaun Nýdanskrar hlutu þeir Björn Jörundur og Daníel Ágúst þegar þeir voru útnefndir textahöfundar ársins fyrir texta sína á plötunni Á plánetunni Jörð.

Plata ársins í Rapp og hip hop var platan Joey með Joey Christ en hann átti einnig lag ársins í flokki rapptónlistar þar sem lagið Joey Cypher stóð uppi sem sigurvegari en lagið flytur Joey Christ ásamt Herra Hnetusmjör, Birnir og Aron Can. Þetta er í annað sinn sem veitt eru verðlaun fyrir rapp og hiphop-tónlist á Íslensku tónlistarverðlaununum.

Figure frá Vök var valin plata ársins í raftónlist en sveitin var tilnefnd til fimm verðlauna. Raftónlistarlag ársins átti hins vegar Auður, en lag hans I‘d Love var einnig hlutskarpast í netkosningu hjá menningarmiðlinum Albumm.is þar sem kosið var um tónlistarmyndband ársins. Myndbandið við I‘d Love gerðu Auður og Ágúst Elí og þótti það skara framúr að mati lesenda Albumm.

Lagahöfundur ársins í flokki popp, rokk, raf- og rapptónlistar var að þessu sinni hljómsveitin Moses Hightower sem þræðir glæsilega einstigið á milli furðu- og alþýðleika á plötu sinni Fjallaloft. Tónlistin er aðgengileg á sinn einstaka hátt, framreidd af fyrsta flokks tónlistarmönnum sem eru óhræddir við fara sínar eigin leiðir í listsköpun sinni og leita ávallt nýrra leiða í tónsmíðum sínum.

JóiPé og Króli komu iðandi ferskir og sprækir inn á tónlistarsenuna á síðasta ári þegar þeir sprengdu vinsældarskalann með B.O.B.A. og heilluðu alla tónlistaraðdáendur upp úr skónum. Árið var þeirra og framkoma þeirra og fas lét engan ósnortinn og því kemur það ekki á óvart að þeir hafi fengið verðlaun sem tónlistarflytjandi ársins 2017.

Tónlistarviðburður ársins var af dýrari gerðinni en Íslensku tónlistarverðlaunin hlaut Gloomy Holiday í Hörpu sem var hluti af tónleikahátíð Sigur Rósar, Norður og Niður. Hugmyndin var tiltölulega einföld, að taka þekkt jólalög og setja þau í „Sigur Rósar“-legan búning, hægja á þeim og setja í þunglamalegri útsetningar. Skemmst er frá því að segja að hálf þjóðin fór á hliðina yfir tiltækinu og sitt sýndist hverjum. Tvímælalaust einir umtöluðustu og umdeildustu tónleikar seinni tíma.

Margt býr í þokunni, plata Snorra Helgasonar, hlaut tvenn verðlaun. Hún var valin Þjóðlagaplata ársins auk þess sem plötualbúmið þótti það besta að mati dómnefndar en það var Þrándur Þórarinsson sem myndskreytti en uppsetning og umbrot gerði Björn Þór Björnsson. Þetta er í fyrsta sinn sem verðlaun eru veitt fyrir þjóðlagatónlist og það sama gildir um lag ársins í opnum flokki en verðlaunin fengu félagarnir Egill Ólafsson og Sigurður Bjóla fyrir lagið Hósen Gósen af stórgóðri plötu Egils, Fjall.

Hinn fjölhæfi tónlistarmaður Valgeir Sigurðsson átti plötu ársins í opnum flokki þar sem hann býður hlustandanum upp á afar spennandi ferðalag á sinni nýju sólóplötu, Dissonance sem dómnefnd segir bæði heillandi og sterka i umsögn sinni.

Víkingur Heiðar Ólafsson hlaut tvenn verðlaun í flokki sígildrar og samtímatónlistar. Hann fékk verðlaun fyrir tónlistarviðburð ársins fyrir tónleika sína í Eldborg með verkum Philip Glass en auk þess var Víkingur valinn tónlistarflytjandi ársins. Söngvarar ársins í flokki sígildrar og samtímatónlistar voru þau Ólafur Kjartan Sigurðarson og Dísella Lárusdóttir. Ólafur Kjartan var verðlaunaður fyrir skarpa og kraftmikla túlkun á illmenninu Scarpia í Toscu en Dísella fyrir glæsilega einsöngstónleika á Reykholtshátíð þar sem efnisskráin spannaði hin gullnu ár ljóðatónlistar og var sett saman af miklu innsæi.

Hljómsveitin Annes átti plötu ársins, Frost, í flokki djass og blústónlistar en sveitin átti einnig tvær tilnefndar tónsmíðar í flokki tónverka ársins en það kom þó ekki í þeirra hlut að krækja í þau að þessu sinni. Tónverk ársins var valið Pétur og úlfurinn…en hvað varð um úlfinn? eftir Hauk Gröndal en um er að ræða fræðandi og skemmtilegt verk í flutningi Góa og Stórsveitar Reykjavíkur. Lagahöfundur ársins var valinn Sigurður Flosason fyrir tónlist sína á plötunni Green Moss Black Sand sem hefur vakið verðskuldaða athygli. Eyþór Gunnarsson hlaut verðlaun sem tónlistarflytjandi ársins í flokki djass og blús en hann hefur verið einn helsti píanó- og hljómborðsleikari íslenskrar hryntónlistar í tæpa fjóra áratugi.

Freyjujazz var valinn tónlistarviðburður ársins í flokki djass og blús en tónleikaröðin hóf göngu sína í Listasafni Íslands í byrjun árs 2017 og voru haldnir alls 26 tónleikar á árinu. Markmið Freyjujazz er að gera konur sýnilegri í djassi auk þess að skapa vettvang fyrir djasskonur að koma fram og þannig ýta undir aukið samstarf kynjanna.

Björtustu vonirnar

Bjartasta vonin í poppi, rokki, rappi og raf var tilnefnd af starfsfólki Rásar 2 eins og undanfarin ár. Kosning fór fram á vef Rásar 2. Það var hljómsveitin Between Mountains sem hlaut verðlaunin í ár en sveitina skipa tvær sextán og sautján ára stelpur frá Vestfjörðum – þær Katla Vigdís Vernharðsdóttir og Ásrós Helga Guðmundsdóttir. Between Mountains vakti m.a. áhuga Rolling Stone á Iceland Airwaves í haust sem sagði hljómsveitina eina af þeim áhugaverðustu á hátíðinni.

Bjartasta vonin í flokki djass og blús var valinn af dómnefnd og það er Baldvin Snær Hlynsson píanóleikari sem hlýtur heiðurinn í ár. Baldvin Snær Hlynsson varð tvítugur á árinu og fagnaði því meðal annars með því að gefa út aðra sólóskífu sína sem hann kallar Renewal. Þrátt fyrir ungan aldur er með sanni hægt að segja að Baldvin hefur nánast fullmótaðan stíl, sér í lagi þegar kemur að tónsmíðum. Hann hefur lag á að semja tónlist sem er í senn krefjandi og áferðarfalleg

Bjartasta vonin í sígildri og samtímatónlist er Barítónsöngvarinn Jóhann Kristinsson. Jóhann Kristinsson steig fram fullþroska listamaður á sínum fyrstu opinberu einsöngstónleikum ásamt píanóleikaranum Ammiels Bushakevitz á liðnu ári þar sem verk Robert Schumann og Gustav Mahler fylltu efnisskrána og óhætt er að segja að Jóhann hafi heillað áheyrendur upp úr skónum með sinni frábæru rödd og hreint magnaðri túlkun. Frábær frammistaða sem er vísir á enn frekari afrek á tónlistarsviðinu.

Heiðursverðlaun

Að þessu sinni var röðin komin að sjálfum Stuðmönnum að hljóta heiðursverðlaun Samtóns en mennta og menningarmálaráðherra Lilja Alfreðsdóttir veitti Stuðmönnum verðlaunin en þessi merka hljómsveit sem tók sín fyrstu skref árið 1970 í nýstofnuðum menntaskóla í Hlíðunum sló einnig botninn í útsendingu kvöldsins – lokuðu sjóinu eins og Stuðmönnum er einum lagið með pompi og prakt. Stuðmenn hafa veitt þjóðinni ómælda gleði með grípandi söngvum og textum á löngum ferli. Meðlimir Stuðmanna, fyrr og síðar, hljómsveitar allra landsmanna, eru sannir og verðskuldaðir heiðursverðlaunahafar Íslensku tónlistarverðlaunanna.

Fram komu

Dóri DNA var kynnir kvöldsins og skemmtiatriði á Íslensku tónlistarverðlaununum í ár voru fjölbreytt sem og endranær. Fram komu  á hátíðinni: Freyjudjass, Cell7, Birgir, JóiPé X Króli, Dísella Lárusdóttir og Bjarni Frímann, Snorri Helga, Vök og Stuðmenn.

– – –

Alls voru veitt 36 verðlaun en það er Samtónn sem stendur að baki Íslensku tónlistarverðlaununum. Að baki Samtón standa FÍH, FHF, STEF, SFS, FTT og Tónskáldafélag Íslands, Tilgangur Samtóns er að vinna að sameiginlegum hagsmunum og styrkja stöðu höfunda, flytjenda, framleiðenda og annarra rétthafa að tónlist. Samtónn kemur fram sameiginlega fyrir hönd íslenskra rétthafa og tónlistarfólks.

Stjórn Íslensku tónlistarverðlaunanna skipa Margrét Eir og Jóhann Ágúst Jóhannsson

– – –

Sérstakar þakkir frá Íslensku tónlistarverðlaunum fá:

Concept Events, Rúv, Harpa, Lúxor og allir þeir sem komu fram á hátíðinni og lögðu hönd á plóginn á einn eða annan hátt

– – –

Íslensku tónlistarverðlaunin  – Verðlaunahafar og flokkar

 

Opinn Flokkur / Þjóðlagatónlist / Kvikmynda- og leikhústónlist

Plata ársins – Þjóðlagatónlist
Snorri Helgason – Margt býr í þokunni

Plata ársins – Opinn flokkur
Valgeir Sigurðsson – Dissonance

Plata ársins í Kvikmynda- og leikhústónlist
Daníel Bjarnason – Undir trénu

Lag ársins/Tónverk ársins í Opnum flokki
Hósen Gósen eftir Egil Ólafsson og Sigurð Bjólu

Plötuumslag ársins
Margt býr í þokunni – Snorri Helgason – Hönnuðir umslags: Þrándur Þórarinsson myndskreytti en uppsetningu og umbrot gerði Björn Þór Björnsson

Djass og blús

Plata ársins
Annes – Frost

Tónverk ársins
Pétur og úlfurinn…en hvað varð um úlfinn? eftir Haukur Gröndal: Í flutningi Góa og Stórsveitar Reykjavíkur.

Lagahöfundur ársins
Sigurður Flosason

Tónlistarflytjandi
Eyþór Gunnarsson

Tónlistarviðburður ársins
Freyjujazz

Bjartasta vonin
Baldvin Snær Hlynsson

Sígild- og samtímatónlist

Plata ársins
Recurrence – Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Daníels Bjarnasonar.

Tónverk ársins
Brothers eftir Daníel Bjarnason

Söngvari ársins
Ólafur Kjartan Sigurðarson

Söngkona ársins
Dísella Lárusdóttir

Tónlistarflytjandi ársins
Víkingur Heiðar Ólafsson

Tónlistarviðburður ársins
Víkingur Heiðar Ólafsson fyrir tónleika í Eldborg með verkum Philip Glass

Bjartasta vonin
Jóhann Kristinsson 

Popp, Rokk, Raftónlist, Rapp og HipHop

Plata ársins í Rapp og hip hop
Joey Christ – Joey

Plata ársins í Rokk
Mammút – Kinder Versions

Plata ársins í Poppi
Nýdönsk – Á plánetunni jörð

Plata ársins í Raftónlist
Vök – Figure

Söngvari ársins
Daníel Ágúst Haraldsson

Söngkona ársins
Katrína Mogensen

Lag ársins í rokki
Breathe Into Me – Mammút

Lag ársins í poppi
Stundum – Nýdönsk

Lag ársins í rappi
Joey Cypher – Joey Christ (ft. Herra Hnetusmjör, Birnir, Aron Can)

Lag ársins í raftónlist
I´d Love – Auður

Lagahöfundur ársins
Moses Hightower

Textahöfundur ársins
Björn Jörundur/Daníel Ágúst

Tónlistarviðburðir ársins
Gloomy Holiday í Hörpu

Tónlistarflytjandi ársins
JóiPé og Króli

Bjartasta von Rásar 2
Between Mountains

Tónlistarmyndband ársins – Veitt í samstarfi við Albumm.is
Auður – I’d Love / Myndband: Auður og Ágúst Elí.

Heiðursverðlaun og sérstök verðlaun Samtóns og Íslensku tónlistarverðlaunanna

Heiðursverðlaun Samtóns
Stuðmenn

Sérstök viðurkenning Samtóns og Íslensku tónlistarverðlaunanna
Daníel Bjarnason

 

Tilnefningar ásamt rökstuðningi dómnefnda

By | Fréttir | No Comments

Tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2017 voru kynntar fyrir helgi að viðstöddu fjölmenni á Bryggjunni brugghúsi. Hér má finna lista með tilnefningum ársins ásamt rökstuðningi dómnefnda.

 

Djass og blús

 

PLATA ÁRSINS

Marína og Mikael – Beint heim

Einlæg og ljúf plata. Falleg og tær rödd Marínu fellur vel við litríkan meðleik Mikaels.

Sigurður Flosason – Green Moss Black Sand

Fjölbreyttar lagasmíðar sem mynda sterka heild.
Skemmtilegur söguþráður í gegnum alla plötuna sem er studdur af frábærum hljóðfæraleik.

Ólafur Jónsson – Tími til kominn

Ber nafn við hæfi. Frjálslegar og hefðbundnar lagasmíðar sem unun er að hlýða á.

Annes – Frost

Önnur plata jazzkvintettsins Annes er nýstárleg, skemmtileg skil milli fortíðar og nútíðar. Valinn maður í hverju rúmi og spennandi tónsmíðar.

Tómas Ragnar Einarsson – Innst inni

Hugljúfar tónsmíðar Tómasar njóta sín vel í næmum samleik þeirra Tómasar og Eyþórs.

 

TÓNVERK ÁRSINS

Trump – Guðmundur Pétursson

Eldfjörugt verk sem kemur sífellt á óvart í fjölbreytni sinni.

Pétur og úlfurinn…en hvað varð um úlfinn? – Haukur Gröndal

Fræðandi og stórskemmtilegt verk í flutningi Góa og Stórsveitar Reykjavíkur.

Þúst – Jóel Pálsson

Vel uppbyggð og seiðandi tónsmíð.

Serenading the moon – Sigurður Flosason

Frábært samspil einkennir þessa lagasmíð sem er léttleikandi með þungri undiröldu.

Tími til kominn – Ólafur Jónsson

Hefðbundinn jazzópus sem einkennist af spilagleði og góðri sveiflu.

 

LAGAHÖFUNDUR ÁRSINS – DJASS OG BLÚS

Tómas Ragnar Einarsson

Er eitt afkastamesta tónskáld í íslenskri jazzmúsík. Tónsmíðar Tómasar á plötunni „Innst inni” eru bæði hrífandi og draumkenndar.

Ólafur Jónsson

Með plötunni „Tími til kominn” stimplar Ólafur Jónsson sig inn sem lagahöfundur með glæsilegum tónsmíðum á sviði jazztónlistar.

Sigurður Flosason

Sýnir enn og aftur hæfileika sína sem jazztónskáld á nýjustu plötunni „Green Moss Black Sand”.

 

TÓNLISTARFLYTJANDI – DJASS OG BLÚS

Sunna Gunnlaugs

Píanistinn Sunna Gunnlaugs kom fram á tónleikum víða um heim á árinu 2017.
Sunna ýtti einnig úr vör tónleikaviðburðinum Freyjujazz og lék þar með þýska bassaleikaranum Eva Kruse, norska trompetleikaranum Hildegunn Øiseth, ungverska fiðlaranum Luca Kézdy, Rósu Guðrúnu Sveinsdóttur baritónsaxófónleikara, Ingrid Örk Kjartansdóttur söngkonu og flutti tónlist eftir Magnús Eiríksson ásamt Leifi Gunnarssyni.

Haukur Gröndal

Haukur Gröndal tónsmiður, hljóðfæraleikari og útsetjari hefur lyft grettistaki í kynningu á jazztónlist á árinu með útgáfu á tónlistarævintýrinu “Pétur og úlfurinn…..en hvað varð um úlfinn?” og öðrum verkefnum þar sem barnamenning er í fyrirrúmi.

Ólafur Jónsson

Ólafur Jónsson hefur starfað sem saxófónleikari í aldarfjórðung. Hann hefur starfað með Stórsveit Reykjavíkur frá árinu 1994 og jafnframt með mörgum af fremstu tónlistarmönnum landsins; Sinfóníuhljómsveit Íslands, á tónleikum og í upptökum, leikið í fjölda leiksýninga og inn á rúmlega 30 hljómdiska þar sem allskonar tónlist hefur skotið upp kollinum, djass, popp, rokk og klassík.

Eyþór Gunnarsson

Eyþór Gunnarsson hefur verið einn helsti píanó- og hljómborðsleikari í íslenskri hryntónlist í tæpa fjóra áratugi. Eyþór hefur leikið inn á ýmsar plötur á árinu (m.a. Annes, Egill Ólafsson, Ólafur Jónsson og Tómas R.) og staðið ásamt Mezzoforte félögum sínum fyrir áhrifamiklum tónleikum í Háskólabíói.

Sigurður Flosason

Sigurður Flosason hefur verið í forsvari fyrir íslenskan jazz áratugum saman.
Hann gaf út plötuna Green Moss Black Sand sem fengið hefur afburða dóma í erlendum miðlum. Stjórnaði Stórsveit Reykjavíkur á eftirminnilegum tónleikum s.s Ella Fitzgerald 100 ára og Gullöld sveiflunnar. Kom auk þess fram á ótal öðrum tónleikum.

 

TÓNLISTARVIÐBURÐUR ÁRSINS

Sumarjazztónleikaröð Jómfrúarinnar

Jómfrúin hefur í 22 ár staðið fyrir Jazztónleikaröð á sumri hverju sem alla tíð hefur verið ókeypis fyrir borgarbúa og landsmenn alla. Tónleikaröðin var fyrst skipulögð af Einari Scheving en mörg hin síðari ár af Sigurði Flosasyni. Þetta er orðinn fastur punktur í borgarsumrinu fyrir marga. Óþarfi er að nefna að flest allir bestu listamenn landsins hafa komið fram á Jómfrúartorginu og þegar vel viðrar er þetta algjör bongóveisla.

Tónleikaröð Stórsveitar Reykjavíkur

Stórsveit Reykjavíkur hefur alla tíð leitast við að hafa verkefnaval sitt fjölbreytt. Auk nýrrar tónlistar, bæði innlendrar og erlendrar, hefur hljómsveitin flutt sögulegar efnisskrár tengdar einstökum höfundum og hljómsveitum. Árið 2017 var engin undantekning, en haldnir voru átta metnaðarfullir og fjölbreyttir tónleikar.

Múlinn

Jazzklúbburinn Múlinn hefur um árabil verið mikilvægur vettvangur fyrir metnaðarfullar dagskrár íslenskra tónlistarmanna á rytmíska sviðinu. Klúbburinn er á sínu 20. starfsári og var starfsemi hans bæði kraftmikil og blómleg á árinu.

Jazz í hádeginu

Jazz í hádeginu er tónleikaröð sem Borgarbókasafnið hefur staðið fyrir síðan í september 2014. Tónleikaröðin hefur frá upphafi fengið góðar viðtökur og árið 2017 var metár þegar hverjir tónleikarnir á fætur öðrum voru haldnir fyrir troðfullu húsi áhorfenda í sölum sem tóku frá 50-100 manns. Markmið tónleikaraðarinnar Jazz í hádeginu er fyrst og fremst að færa jazzinn út í hverfi borgarinnar þannig að fólk geti notið hans í eigin nærumhverfi.

Freyjujazz

Tónleikaröðin Freyjujazz hóf göngu sína í Listasafni Íslands í byrjun árs 2017 og voru haldnir alls 26 tónleikar á árinu.
Markmið Freyjujazz er að gera konur sýnilegri í jazzi auk þess að skapa vettvang fyrir jazzkonur að koma fram og þannig ýta undir aukið samstarf kynjanna.

 

Opinn flokkur / Þjóðlagatónlist / Leikhús og kvikmyndatónlist

 

PLATA ÁRSINS – ÞJÓÐLAGATÓNLIST

Ösp Eldjárn – Tales from a poplar tree

Tales from a poplar tree er einstaklega vel heppnuð plata. Töfrandi rödd Aspar dregur hlustandann ítrekað að henni. Dramatískar og ljúfsárar melódíur fluttar af frábærum hljóðfæraleikurum fullkomna svo heildarhljóm plötunnar.

Snorri Helgason – Margt býr í þokunni

Margt býr í þokunni er afar vel heppnuð tilraun til að tengja saman nýja tíma og þjóðlagahefð okkar Íslendinga frá fornu fari. Sterkar lagasmíðar, vandaður flutningur og ekki skemmir fyrir hvernig þjóðsögurnar ganga í endurnýjun lífdaga. Afar vönduð plata þar sem nostrað er við hvert smáatriði.

Egill Ólafsson – Fjall

Egill sendir hér frá sér eitt sitt besta verk, Fjall. Hér mætast firnasterkar lagasmíðar og frábærir textar og höfundareinkenni Egils eru allt umlykjandi. Hér má greina minni Þursa og Spilverks á köflum. Söngur, hljóðfæraleikur og hljóðblöndun gerir þetta svo að því listaverki sem platan er.

 

PLATA ÁRSINS – LEIKHÚS OG KVIKMYNDATÓNLIST

Frank Hall – Ég man þig

Kvikmyndin Ég man þig vakti mikla athygli þegar hún var frumsýnd á liðnu ári og hlaut frábærar viðtökur. Þessi spennuþrungna saga hélt áhorfendum föngnum og skipaði tónlist og hljóðheimur Franks Hall þar veigamikið hlutverk. Tónlistin Franks rammar sérlega vel inn hið rafmagnaða andrúmsloft myndarinnar.

Ólafur Arnalds – Broadchurch Final Project

Breska glæpaserían Broadchurch hefur vakið athygli um allan heim og á tónlist Ólafs Arnalds ekki síst þátt í því. Tónlist Ólafs er frábærlega samin og fellur mjög vel að efninu og fangar stemmninguna hverju sinni afar vel.

Arnar Guðjónsson – L’homme Qui Voulait Plonger Sur MarsArnari Guðjónssyni tekst að skapa stemmningu sem fangar hlustandann og ferðast með hann um óravíddir alheimsins. Tónlistin stendur vel sem sjálfstætt verk og er dáleiðandi þar sem hún daðrar við stefnur og strauma í raftónlist síðustu áratuga.

Daníel Bjarnason – Undir trénu

Tónlist Daníels Bjarnasonar við myndina Undir trénu er órjúfanlegur hluti frábærrar kvikmyndar. Tónlistin spannar allt litróf þeirra sterku tilfinninga sem myndin hefur að geyma og eykur á upplifun áhorfenda auk þess sem hún stendur vel sem sjálfstætt tónverk.

 

PLATA ÁRSINS – OPINN FLOKKUR

Þorvaldur Þorsteinsson, Megas og Skúli Sverrisson  – Ósómaljóð

Enn heldur Megas áfram að krydda tónlistarlíf okkar Íslendinga. Að þessu sinni flytur hann Ósómaljóð og lög Þorvaldar Þorsteinssonar heitins skálds með liðsinni Skúla Sverrissonar bassaleikara. Hver perlan á fætur annari hljómar á Ósómaljóðum, flutningur ósæmilegrar sveitar Skúla er nánast óaðfinnanlegur og hljóðheimurinn nýtur sín til fulls. Sönn plata sem hittir í hjartastað.

Hafdís Bjarnadóttir – Já

Einstaklega frumleg og skemmtileg smíð þar sem ægir saman ólíkum þáttum sem mynda saman eina sterka heild. Leikgleðin sem einkennir allan hljóðfæraleik gerir plötuna svo að því fallega og einlæga verki sem hún er.

Epic Rain – Dream Sequences

Hljóðheimur Epic rain er vel unnin og melódíurnar hnitmiðaðar innan um vel ígrundaðan og vandaðan hip-hop hljóminn. Kraftmikil og skemmtileg plata.

Valgeir Sigurðsson – Dissonance

Hinn fjölhæfi tónlistarmaður Valgeir Sigurðsson býður upp á afar spennandi ferðalag á sinni nýju sólóplötu, Dissonance. Akústískum strengjahljóðfærum og raftónlist er blandað saman á afar heillandi hátt. Hér er unnið með stóra fleka en um leið nostrað við smáatriði í hvívetna. Heillandi og sterk plata.

Ásgeir Ásgeirsson – Two sides of Europe

Gítarleikarinn Ásgeir Ágeirsson sameinar hér tvo menningarheima á sinni nýju sólóplötu, íslenskan tónlistararf og tyrkneska tónlist. Ásgeiri tekst listilega að skapa tónlist sem bæði gleður og eykur á forvitni hlustandans og hvetur til frekari hlustunar á þessum ólíku tónlistarstefnum. Frábær plata.

 

LAG ÁRSINS/TÓNVERK ÁRSINS Í OPNUM FLOKKI

Ásgeir Ásgeirsson – Izlanda saz semais

Ásgeir og Yurdal Tokcan ná frábærlega saman í þessu frumsamda lagi en það situr vel innan um íslensku þjóðlögin á plötu Ásgeirs, eins og brú á milli ólíkra heima. Vandað tónverk hvar allur flutningur er til fyrirmyndar.

Hafdís Bjarnadóttir – Tunglsjúkar nætur

Í laginu Tunglsjúkar nætur blandar Hafdís saman upptöku með Hljómeyki og Einari Má að lesa ljóðið sem verkið byggir á. Útkoman er skemmtilegur bræðingur hljóðfæra, söngs og upplesturs.

Þorvaldur Þorsteinsson – Manni endist varla ævin

Einstakt ljóð Þorvaldar Þorsteinssonar heitins og lagasmíð nýtur sín vel hér í flutningi Megasar og útsetningu Skúla Sverrissonar og ósæmilegrar hljómsveitar. Undurfallegri tónsmíð eru hér gerð frábær skil.

Egill Ólafsson – Hósen gósen

Hósen gósen! Á sinni nýjustu sólóplötu, Fjall, stendur Egill Ólafsson á hæsta punkti og horfir yfir lendur Þursa og Spilverks. Gríðarsterkur upptaktur frábærrar plötu kyngi magnaðs söngvara og tónsmiðs.

Borgar Magnason – Epilogue

Epilouge eða eftirspil eftir tónskáldið og kontrabassaleikarann Borgar Magnason er hluti af tónlistinni við Faðirinn, leikrit Florians Zellers sem sett var á svið nú í haust. Kyrrlátt en þó drynjandi niðurlag sem er, eins og viðfangsefni leikritsins, í senn átakanlegt og fallegt.

 

Sígild- og samtímatónlist

 

PLATA ÁRSINS

Víkingur Ólafsson – Philip Glass: Piano Works

Piano Works er fyrsta platan sem Víkingur Heiðar Ólafsson tekur upp fyrir hinn virta útgáfurisa Deutsche Grammophon. Tónlistin er eftir Philip Glass og óhætt er að segja að Víkingur Heiðar geri tónlist Glass afburða skil. Frábær plata í alla staði.

Sinfóníuhljómsveit Íslands – Recurrence

Spennandi og gríðarlega vel unnin plata sem sýnir þverskurð af frábærlega vel skrifuðum hljómsveitarverkum nokkurra okkar fremstu samtímatónskálda. Afar mikilvæg útgáfa og þarft framtak hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Nordic Affect – Raindamage

Kammerhópurinn Nordic Affect hefur verið afkastamikill á liðnum árum. Nýjasti diskur þeirra, Raindamage hefur að geyma áhrifaríka raftónlist auk verka fyrir fiðlu, víólu, selló, raddir og sembal. Skýr og heilsteypt listræn sýn og listrænn eldmóður skilar sér í gerð þessa disks sem byggir á og bætir við fyrra samstarf Nordic Affect við tónskáldin. Sendir hlustandann í órætt ferðalag. Frábær vinna – unun að hlusta.

Kammerkór Suðurlands – Kom skapari

Mjög áhugaverður hljómdiskur með fjölbreyttum tónverkum sem voru samin sérstaklega fyrir kórinn. Hér er farin óhefðbundin leið í upptökum á íslenskri kórtónlist þar sem unnið er með stúdíóið og tæknilega möguleika þess sem viðbótarhljóðfæri. Sá hljómur sem sú vinna skapar, ásamt því að platan er afurð óvenjumikillar samvinnu kórs og kórstjóra við hin fjölmörgu tónskáld, gerir plötuna sérlega áhugaverða.

Páll Ragnar Pálsson – Nostalgia

Með þessum diski skipar Páll Ragnar Pálsson sér á afgerandi hátt meðal okkar fremstu tónskálda. Diskurinn gefur einstaka og glæsilega innsýn í hans persónulega stíl og kraftmikla hljóðheim þar sem bæði þrumuröddin og blómhvíslið eiga heima. Allur flutningur og upptaka er til fyrirmyndar.

 

TÓNVERK ÁRSINS

Brothers : ópera – Daníel Bjarnason

Óperan Brothers verður að teljast eitt mesta þrekvirki tónskáldsins til þessa. Áhrifarík saga og sterkar sögupersónur einkenna verkið, kór leikur mikilvægt hlutverk og tónmálið er dramatískt og hrífandi. Verkið er einstaklega vel skrifað fyrir bæði hljómsveit og söngvara. Óperan fékk einróma lof áhorfenda og gagnrýnenda eftir frumflutning verksins í Árósum síðastliðið sumar. Mögnuð frumraun tónskáldsins við óperutónsmíðar.

Fiðlukonsert – Daníel Bjarnason

Í ágúst síðastliðnum frumflutti fiðluleikarinn Pekka Kuusisto nýjan fiðlukonsert Daníels Bjarnasonar ásamt Fílharmóníusveit Los Angeles-borgar undir stjórn Gustavo Dudamel. Kjarnmikill, grípandi og einstaklega blæbrigðaríkur konsert. Gríðarlega fallega spunnin og kraftmikil tónsmíð þar sem einleikshljóðfærið og fiðluleikarinn njóta sín til hins ýtrasta.

Quake – Páll Ragnar Pálsson

Konsertinn er skrifaður fyrir hljómsveit og einleiksselló og var saminn fyrir tónlistarhátíðir í Walt Disney Hall í Los Angeles og Elbphilharmonie í Hamborg. Tónmálið er í senn þroskað og einlægt, en jafnframt ögrandi og kröfuhart; tónmál með glansandi yfirtóna í seiðmögnuðum bræðingi úr óravíddum jarðkringlunnar; hraun jafnt sem fínustu náttúrusteindir kristallast fyrir eyrum hlustanda líkt og í hamfaradraumi. Margrætt verk sem situr í manni löngu eftir að síðasti tónninn deyr út.

Echo Chamber – Haukur Tómasson

Víólukonsert Hauks Tómassonar var frumfluttur á Myrkum músikdögum 2017 af Þórunni Ósk Marínósdóttur og Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Petris Sakari. Í grípandi verkinu vinnur tónskáldið með ýmiss konar bergmálsrými í tónlist á einkar hugvitssamlegan hátt. Echo Chamber er stórbrotin og heillandi tónsmíð.

Moonbow – Gunnar Andreas Kristinsson

Kraftmikið og ágengt verk samið af mikilli kunnáttu og innlifun. Vel skrifaður og spennandi strengjakvartett – meðal þeirra eftirtektarverðustu sem komið hafa frá íslensku tónskáldi á seinni árum.

 

SÖNGVARI ÁRSINS

Ólafur Kjartan Sigurðarson : Fyrir hlutverk Scarpia í Toscu

Skörp og kraftmikil túlkun Ólafs Kjartans á illmenninu Scarpia fékk hárin til að rísa á áhorfendum. Hljómmikil rödd hans og blæbrigðaríkur leikur gerði hlutverkinu einstaklega góð skil.

Jóhann Kristinsson : Fyrir einsöngstónleika í Salnum, Schumann og Mahler

Hljómfögur rödd ásamt einstakri næmni í túlkun á ljóðum Schumanns og Mahlers fékk áheyrendur til að gleyma því að þeir væru staddir á fyrstu opinberu einsöngstónleikum Jóhanns. Frábær frammistaða sem er vísir á enn frekari afrek á tónlistarsviðinu.

Oddur Arnþór Jónsson : Fyrir einsöngstónleika í Salnum, Vetrarferðin

Baritónsöngvarinn Oddur Arnþór bauð áheyrendum upp á safaríka og blæbrigðaríka Vetrarferð. Fallegur flutningur og túlkun á þessum hornsteini ljóðatónlistarinnar.

Kristján Jóhannsson : Fyrir hlutverk Cavaradossis í Toscu

Kristján sem söng hlutverkið í 400. skipti, söng af listfengi, krafti og ósvikinni tilfinningu. Hápunktar söngsins voru í senn ofsafengnir og glæsilegir. Kristján lagði salinn að fótum sér í leik og söng.

 

SÖNGKONA ÁRSINS

Auður Gunnarsdóttir: Fyrir hlutverk sitt sem Elle í Mannsröddinni

Auður gerði hinu krefjandi hlutverki í þessari eins manns óperu Poulencs sérlega góð skil með sinni einstöku raddfegurð og myndaði spennandi andstæðu við sitt talandi sjálf. Afar eftirminnileg frammistaða.

Sigríður Ósk Kristjánsdóttir : Fyrir einsöngstónleika í tónleikaröðinni Kúnstpása

Sigríður Ósk bauð áheyrendum upp á fjölbreytta efnisskrá á Kúnstpásutónleikum Íslensku Óperunnar. Músíkölsk túlkun, tæknileg færni og einstök raddfegurð einkenndu þessa eftirminnilegu tónleika þar sem hæfileikar Sigríðar nutu sín til fulls.

Dísella Lárusdóttir : Fyrir einsöngstónleika á Reykholtshátíð

Efnisskrá einsöngstónleika Dísellu á Reykholtshátíð spannaði hin gullnu ár ljóðatónlistarinnar og var sett saman af miklu innsæi. Tónlistarflutningurinn einkenndist af einstakri blöndu af glæsileik og kátínu. Nákvæmur, unggæðingslegur raddhljómur Dísellu og fullkomin raddtækni, ásamt snilldarlegri nálgun í hendingar- og formmótun einkenndi flutninginn svo unun var á að hlýða.

Bylgja Dís Gunnarsdóttir : Fyrir einsöngstónleika í tónleikaröðinni Klassík í Vatnsmýrinni

Bylgja Dís frumflutti á Íslandi, ásamt Hrönn Þráinsdóttur píanóleikara, einn mest spennandi ljóðaflokk síðustu ára, Mr. Tambourine Man eftir bandaríska tónskáldið John Corigliano við texta Bob Dylans. Ljóðaflokkurinn gerir miklar kröfur til flytjenda og er óhætt að fullyrða að Bylgja Dís hafi staðið undir því og gott betur. Magnaður flutningur á sérlega eftirtektarverðum ljóðaflokki.

 

TÓNLISTARFLYTJANDI ÁRSINS

Víkingur Heiðar Ólafsson fyrir glæsilegt og yfirgripsmikið tónleikahald á árinu 2017

Víkingur Heiðar lék á fjölmörgum tónleikum víða um heim á liðnu ári og hlaut hvarvetna mikið lof gagnrýnenda. Hér heima eru tónleikar hans með verkum Philips Glass í Eldborg einkar eftirminnilegir sem og túlkun hans á c-moll konsert Mozarts með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Dima Slobodeniouk. Þá frumflutti Víkingur nýjan píanókonsert Hauks Tómassonar með NDR Elbfílharmóníunni í Hamborg og Los Angeles-fílharmóníunni undir stjórn Esa-Pekka Salonen. Hann kom einnig fram á tónlistarhátíðinni Reykjavík Midsummer Music sem fram fór í Hörpu í júní en Víkingur er þar listrænn stjórnandi.

Barokkbandið Brák fyrir tónlistarflutning á árinu 2017 en hljómsveitin hélt samtals sex tónleika á síðastliðnu ári.

Barokkbandið Brák var bæði iðið og einbeitt við köllun sína á árinu, að flytja áheyrendum fágæta barokktónlist í hágæða upprunaflutningi. Sveitin hélt alls sex tónleika í Reykjavík og Skálholti sem voru allir hljóðritaðir af Ríkisútvarpinu. Þrátt fyrir stuttan starfsaldur hefur þessi barokksveit náð aðdáunarverðum hæðum og sýnt kjark í verkefnavali, til að mynda á tónleikum sveitarinnar í Norðurljósasal Hörpu í desember þar sem allir Concerti Armonici eftir Unico Willem van Wassenaer voru fluttir á einum tónleikum.

Ægisif og Hafsteinn Þórólfsson einsöngvari fyrir flutning á Litúrgíu heilags John Chrisostom eftir Sergei Rakmaninov undir stjórn Hreiðars Inga Þorsteinssonar.

Söngsveitin Ægisif hefur vakið verðskuldaða athygli á stuttum ferli fyrir frábæran flutning á eftirtektarverðu efnisvali undir stjórn Hreiðars Inga Þorsteinssonar. Stjórnandinn vinnur með austur- evrópska fagurfræði og nálgun í kórsöng og vefur inn í kórhljóminn. Flutningurinn á verki Rakmaninovs ber þessu frábæran vitnisburð. Einsöngvari Hafsteinn Þórólfsson.

Bjarni Frímann Bjarnason fyrir hljómsveitarstjórn í uppfærslu Íslensku óperunnar á Toscu eftir Giacomo Puccini.

Bjarni Frímann þreytti frumraun sína hjá Íslensku óperunni þegar Tosca var sett á svið síðastliðið haust. Óhætt er að segja að Bjarni Frímann hafi, að öðrum ólöstuðum, verið stjarna þessarar sýningar. Hljómsveitin lék tónlist Puccinis frábærlega undir styrki hljómsveitarstjórn hins unga og hæfileikaríka hljómsveitarstjóra.

Stefán Ragnar Höskuldsson fyrir flautuleik í flautukonsert Iberts með Sinfóníuhljómsveit Íslands

Stefán Ragnar hefur fest sig í sessi sem einn allra fremsti þverflautuleikari heims á liðnum árum. Stefán, sem var nýlega ráðinn sólóflautuleikari Chicago-sinfóníunnar, lék konsert Iberts af aðdáunarverðu listfengi, þar sem tækni, tónn og næmi fyrir tónlistinni sameinuðust. Hreint út sagt frábær flutningur hjá afburða tónlistarmanni.

 

TÓNLISTARVIÐBURÐUR ÁRSINS

Víkingur spilar Philip Glass

útgáfutónleikar Einn eftirminnilegasti tónlistarviðburður ársins 2017 voru útgáfutónleikar Víkings Heiðars Ólafssonar í Eldborgarsal Hörpu þar sem hann lék etýður Philips Glass af því tilefni að tónskáldið stóð á sjötugu. Snilldartök Víkings á verkefninu og látlaust spjall hans um verkin skapaði magnaða stemningu sem seint gleymist.

Purcell í norrænu ljósi – Cantoque Ensemble, Camerata Öresund og Höör Barock, undir leiðsögn fiðluleikarans og barokksérfræðingsins Peter Spissky

Hinn nýstofnaði sönghópur Cantoque Ensemble bauð upp á barokkveislu ásamt Camerata Öresund og Höör Barock á Sumartónleikum í Skálholti. Sjaldheyrð tónlist eftir Henry Purcell var leikin af fádæma fagmennsku og leikgleði og voru viðtökurnar eftir því. Frábærir tónleikar sem líða áheyrendum seint úr minni.

LA / Reykjavík – Sinfóníutónleikar 5. október 2017

Á efnisskrá LA/Reykjavík, tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands, voru tvö stór hljómsveitarverk sem eiga rætur að rekja í fjölskrúðugt tónlistarlíf Los Angeles-borgar, enda báru tónleikarnir með sér tilvísun í tónlistarhátíðina Reykjavík Festival sem Fílharmóníusveit Los Angeles hélt þar í borg á síðasta ári. Fiðluleikarinn Leila Josefowicz lék Scheherezade 2 eftir John Adams af mikilli snilld og Hamrahlíðarkórarnir létu Sálmasinfóníu Stravinskís hljóma eins sakleysislega og tónskáldið hafði séð fyrir sér. Frábærir tónleikar í alla staði.

TOSCA

Uppfærsla Íslensku óperunnar á Toscu eftir Puccini var sérlega vel heppnuð. Frábær hljómsveit, einsöngvarar og kór runnu saman í afar sannfærandi heild. Sögusviðið var fært nær nútímanum sem gekk sérlega vel upp með búningum og leikmynd og sviðslausnir voru vel úthugsaðar. Ein sterkasta uppfærsla Íslensku óperunnar á síðustu árum.

Schumann & Mahler: Tíbrá Tónleikaröð – Ljóðatónleikar Jóhanns Kristinssonar og Ammiel Bushakevitz

Á þessum fyrstu opinberu einsöngstónleikum Jóhanns Kristinssonar flutti hann ljóð eftir Schumann og Mahler ásamt hinum margverðlaunaða píanóleikara Ammiel Bushakevitz. Blæbrigðarík túlkun beggja listamanna gerði þessa ljóðatónleika að einstakri upplifun þeirra sem á hlýddu.

 

Rokk, popp, raf, rapp og hip hop

 

PLATA ÁRSINS – RAPP OG HIP HOP

Aron Can – Í nótt

Platan Í nótt er önnur plata Arons Can á tveimur árum og tikkar í flestöll þau box sem hin „erfiða“ plata númer tvö á að gera. Utan að tónlistarlega er hún einkar farsæl. Textarnir eru lengri og flóknari en á frumburðinum, algjörar efasemdir í bland við ungæðislega ákveðni. Þversagnarkenndur hræringur og eitt af mörgu sem er heillandi við þennan hæfileikararíka pilt.

Alvia – Elegant Hoe

Draugalegt, dulmagnað flæði, letilegir taktar og nett sýrðar hljóðmottur undir. Alvia er engri lík þar sem hún rappar á kynþokkafullan, hvíslandi hátt, er ertandi og stríðandi en um leið gamansöm og flippuð. Einstök sýn listakonunnar vekur svo sannarlega eftirtekt.

Joey Christ – Joey

Joey Christ hafði lengi verið á kantinum í íslensku hipphoppi, stuðningsaðili sér frægari aðila en hér brýst hann fram einn og sviptir upp heljarinnar hipphoppveislu og fær góða og gegna vini til að hjálpa sér við fjörugt atið.

Hr. Hnetusmjör – KÓPBOI

Sonur Kópavogs hefur verið að byggja upp aðdáendahóp með kraftmiklum tónleikum og myndböndum og seint á síðasta ári gaf hann út plötu til að undirstinga þann árangur. Vaxandi stjarna sem er til alls líklegur á þessu ári.

Jói Pé og Króli – Gerviglingur

Þeir félagar ruddust óvænt inn á sviðið á þessu ári: Kornungir, sjarmerandi og helferskir. Tónlistin hérna er einlæg og ástríðufull, skemmtileg og ber með sér heilnæmt „Hei, gerum þetta bara!“ viðhorf. Gerviglingur er sönn og náttúruleg, plata sem er bara gerð einu sinni.

Cyber – Horror

Helsvalt og valdeflandi femínistarapp þar sem engin grið eru gefin frá fyrsta tóni. Heildaráran er skuggaleg og súrrealísk, lög eins og „Horfa“ líða um í valíumgufu og „Skríða“ býr yfir ógnvekjandi andrúmslofti. Íslenskt jaðar-hipphopp eins og það gerist best.

 

PLATA ÁRSINS – ROKK

LEGEND – Midnight Champion

Mögnuð, rafbundin rokkplata runnin undan ranni Halldóri og Krumma, sem stundum er kenndur við Mínus. Heilsteypt og einkar sannfærandi, unnin af tilfinnanlegri einlægni og innlifun. Epískt verk í raun, sem skírskotar í gotneska tónlist níunda áratugarins og iðnaðartónlist þess tíunda en framborin á séríslenskan máta engu að síður.

Sólstafir – Berdreyminn

Vörpulegt verk frá Sólstöfum. Sveitin heldur áfram að þróast á Berdreyminn, þessi fyrrum svartþungarokkssveit á erfitt með að standa kyrr og píanó, kórar og blíðar söngmelódíur styðja vel við einstaka sýn þessarar farsælu sveitar

HAM – Söngvar um helvíti mannanna

Söngvar um helvíti mannanna með HAM er straumlínulagaðra verk en síðasta hljóðversplata en viðheldur þeirri rokksköddun sem þessi besta hljómsveit í heimi er landskunn fyrir. Drungi og dulmögnun víkja fyrir hreinskiptni og hráleika.

Mammút – Kinder Versions

Kinder Versions er fjórða breiðskífa Mammút og sú fyrsta sem sveitin gefur út í gegnum hina öflugu útgáfu Bella Union. Þetta er verk sem þarf að vinna fyrir, blær níunda áratugarins svífur yfir vötnum og undiraldan þung. Melódía og grúv er þó í umvörpum og Katrína Mogensen á sannkallaðan stjörnuleik í söng.

ROFOROFO – ROFOROFO

Einn óvæntasti gleðigjafi síðasta árs. Plata þessi sleppur skemmtilega undan skilgreiningum, það blasir ekkert við. Ómar Guðjónsson skipar sveitina ásamt Tommy Baldu og er með rætur í djassi en plata þessi er góð birtingarmynd á því stílaflökti sem Ómar hefur alla tíð stundað.

 

PLATA ÁRSINS – POPP

Kiriyama Family – Waiting For…

Vandað og vel unnið popp. Þroskaðar lagasmíðar sem fluttar eru af mikilli fagmennsku þar sem gælt er við hljóðheim níunda áratugarins með góðum árangri. Söngkonan Hulda Kristín Kolbrúnardóttir er ein sú áhugaverðasta af yngri kynslóðinni.

JFDR – Brazil

Jófríður Ákadóttir er vel þekkt í íslensku tónlistarlífi fyrir störf sín með hljómsveitunum Samaris og Pascal Pinon. Brazil er fyrsta sólóverkefni Jófríðar en á plötunni er lágstemmd angurværð dregin fram með fáguðum lagasmíðum og útsetningum.

Björk – Utopia

Platan er hlý og hamingjurík en um leið meðvitað á jaðrinum, tónlistarlega. Hún deilir sama drama og var á síðasta verki um leið og hún stillir upp andstæðum, viðkvæmri fegurð og grimmilegum hroða. Það gerir engin tónlist eins og Björk Guðmundsdóttir.

Moses Hightower – Fjallaloft

Eitursvalt en um leið angurvært jazz-skotið popp með fönk hjartslætti. Moses-mönnum vex ásmegin með hverri plötu og virðast ávallt óhræddir við að fara í ýmsar áttir í sinni listsköpun. Raddsamsetningar Steingríms Teague og Andra Ólafssonar hljóma eins og einn og sami maðurinn. Tvíhöfða bræðingsbjörn sem dáleiðir hlustandann.

Högni – Two Trains

Tilkomumikil og djúp tónlist, með skírskotun í nútímatónlist og utangarðslistir. Með þessari fyrstu sólóplötu sinni stimplar Högni sig inn svo um munar og ekki tilviljun að verkið var tilnefnt til Norrænu tónlistarverðlaunanna.

Nýdönsk – Á plánetunni jörð.

Ein besta plata Nýdanskra í mörg ár. Frábærar popp lagasmíðar með textum Björns Jörundar sem lyfta andanum sem aldrei fyrr. Nýdönsk sanna það að þeir eru óumdeilanlegt náttúruafl í íslensku poppi.

 

PLATA ÁRSINS – RAFTÓNLIST

Vök – Figure

Hljómsveitin Vök finnur fótum sínum glæsilega forráð á þessari feykisvölu en umfram allt fumlausu plötu. Heilsteypt og einkar sannfærandi verk þar sem auðugum hljóðheimi raftónlistarinnar er stefnt saman við aðgengilegar laglínur og góðar lagasmíðar.

Auður – Alone

Dúnmjúk sálartónlist af nýja skólanum þar sem löngunarfullum, ástríkum textum er fundinn farvegur í tilraunakenndum samruna rytma og raftónlistar. Platan rúllar í þægilegum innilokunarkenndarham og Auður vinnur afskaplega vel með þagnir og stemningu. Innblásinn flutningur gerir Alone að einkar stæðilegu verki.

Kiasmos – Blurred

Þeir félagar Ólafur Arnalds og Janus Rasmussen hafa stýrt Kiasmos-fleyi sínu af mikilli farsæld undanfarin ár og vakið eftirtekt bæði hér heima og erlendis. Á plötunni Blurred hnykkja þeir enn frekar á mætti sínum og megin en á ferðinni er hljómrík og einkar svöl raftónlist

 

SÖNGVARI ÁRSINS – VERÐLAUN ÞVERT Á FLOKKA

Daníel Ágúst

Daníel hefur verið ein flottasta rödd Íslands í áratugi. Hann sýnir það og sannar að hann er í toppformi og hefur sjaldan hljómað betur. Röddin fyllir vel út í rýmið og hann með sínum afslappaða hljómi lætur mann trúa því sem hann segir á nýjustu plötu Nýdanskra.

Krummi Björgvinsson

Krummi kemur sterkur til leiks á plötu LEGEND og sýnir enn og aftur að hann er hörku rokksöngvari. Platan er heilsteypt og sannfærandi og á Krummi mjög stóran þátt í því að skapa stemmninguna á plötunni með röddinni og öllum hennar blæbrigðum.

Steingrímur Teague

Steingrímur hefur skemmtilegan sjarma og fallegan hljóm í röddinni. Einstök rödd sem nýtur sín vel í þessari kraftmiklu hljómsveit, Moses Hightower. Heyrist um leið hver syngur sem er draumur hvers söngvara. Flottur fílingur sem smitar útfrá sér

Kristinn Óli (Króli)

Kristinn Óli ásamt félaga sínum JóaPé komu eins og stormsveipur í íslenskt tónlistarlíf með einu vinsælasta lagi ársins B.O.B.A. Þarna kemur Króli skemmtilega fram sem rappari, söngvari, laga og textasmiður. Ferskur andblær í rappið og einlægnin skín í gegn og unun á að hlýða

Auður

Með sinni silkimjúku rödd og flottum R’n’B hljómi kemur Auður með ferskan blæ í íslenska tónlist. Góð túlkun á ástríðufullum textum. Flott og eftirtektarverð rödd sem gaman verður að fylgjast með þroskast og dafna.

 

SÖNGKONA ÁRSINS – VERÐLAUN ÞVERT Á FLOKKA

Katrína Mogensen

Ein áhugaverðasta íslenska söngkona landsins undanfarin ár. Með hverju árinu í starfi sínu með hljómsveitinni Mammút hefur Katrína styrkt stöðu sína sem einn af kyndilberum íslenskra söngkvenna af yngri kynslóðinni.

Dísa

Dísa Jakobs sjarmeraði landsmenn upp úr skónum á árinu og nú sem söngkona hinna síungu Stuðmanna. Dísa hefur í senn svo undurblíða rödd og þétta að hrein unun er að hlýða á. Söngkona sem fær hjörtun til að slá örar.

Margrét Rán

Margrét Rán sýnir hér enn og aftur hversu eitursvöl hún er í hlutverki söngkonu og lagahöfundar. Hljómur raddarinnar er afar heillandi, fínlegur og dreyminn jafnt á upptökum og í lifandi flutningi um heim allan með hljómsveitinni Vök

Svala

Svala Björgvins gekk í endurnýjun lífdaga meðal Íslendinga á liðnu ári. Engin efaðist um hæfileikana en ekki allir sem áttuðu sig á þeim. Hennar fagmannlegu vinnubrögð og frammistaða á árinu setja hana á stall með okkar bestu söngkonum.

Una Stef

Frábær söngkona og lagahöfundur sem loksins er að brjótast út í íslensku tónlistarlífi svo um munar. Röddin seiðandi og sálarfull. Hæfileikar hennar eru slíkir að það kæmi engum á óvart að hún kæmist út fyrir litla Ísland með sína tónlist og flutning.

 

LAG ÁRSINS – ROKK

Þú lýgur – HAM

Það er ótrúlegt að hljómsveit sem lögð var í dvala í áratugi snúi aftur betri en aldrei fyrr. HAM áttu ótrúlega spretti á plötunni Svik, Harmur og dauði og enn og aftur toppa þeir sig á söngvar um helvíti mannanna. Epísk lög og magnaðir textar hafa löngum einkennt HAM og það heyrist vel í Þú lýgur.

Midnight Champion LEGEND

Titilag nýjustu plötu LEGEND sem að fylgir eftir Fearless frá árinu 2012. Hljóðheimurinn er sem fyrr dimmur og rafrænn og greinilegt að Legend hafa náð gríðargóðum tökum á forminu. Lagið er seiðandi, rúllar áfram og eykur kraftinn þegar á líður. Söngur Krumma Björgvinssonar ber Midnight Champion uppí hæstu hæðir.

Breathe Into Me – Mammút

Fyrsta smáskífan af plötunni Kinder Versions sló í gegn öldum ljósvakans. Lag og plata gerð til að auka hróður Mammút utan landssteinana. Þetta er töff, töff er gott.

Take Me Back – Roforofo

Óvæntasta ánægja ársins var samnefnd plata Roforofo. Þeir Ómar Guðjónsson og Tommy Baldu galdra þar fram seyð sem erfitt er að pinna niður, er þetta rokk eða er þetta rokkaður djass? Skiptir ekki máli, tónlistin er góð, og aldrei eins og í þessu skothelda lagi.

Alpha Dog – Pink Street Boys

Rokk þarf ekki að vera flókið, það vita æringjarnir í Pink Street Boys. Hér er draugur MC5 og Stooges endurvakinn á áhrifaríkan hátt, þetta er drullugt, hrátt og sveitt – einfalt og hittir alla rokkara beint í hjartastað.

Bergmál – Dimma

Vinsælasta útvarpslag plötunnar Eldrauna og afar vinsælt tónleikalag. Dimma á hug og hjörtu aðdáenda sinna og hafa með miklum dugnaði orðið ein allra vinsælasta rokksveit landsins

 

LAG ÁRSINS – POPP

Stundum – Nýdönsk

Sjúklega svalt lag og svo flókið í sínum einfaldleika. Rödd Daníels, textinn og frábær strengjaútsetning gera þetta lag eitt af þeim bestu sem Nýdönsk hefur sent frá sér.

Blow My Mind – Védís

Dillandi og vel útfærð laglína í bland við sérlega vel heppnaða útsetningu gerir Blow Your Mind að einu af þessum lögum sem festast við hugann og skilgreina tímabil. Védís er hér í toppformi, rödd hennar og túlkun hafa aldrei verið betri.

Hvað með það – Daði Freyr & Gagnamagnið

Daði Freyr söng sig inn í hug og hjörtu Íslendinga í Söngvakeppni sjónvarpsstöðvanna á síðasta ári með laginu Hvað með það. Lagið er sérlega vel samið popplag með skemmtilegum grípandi laglínum sem auðvelt er að syngja með. Útsetning er til fyrirmyndar.

Fjallaloft- Moses Hightower

Moses Hightower í sínu besta formi. Útsetningin sérlega skemmtileg og áhugaverð. Lagið er eins og tónverk, leikur sér að því að skipta um takt og stemmingu og ekki skemmir frumlegur textinn.

Hringdu í mig – Friðrik Dór

Friðrik Dór er ein af stórstjörnum íslenskrar popptónlistar og hefur einstakt lag á að fanga hug og hjörtu hlustenda. ‘Hringdu í mig’ var mest spilaða lag Rásar 2 á síðasta ári og er grípandi smellur sem svíkur engan.

The One- Una Stef

Flottur taktur, hljómagangur, brass, seiðandi og sálarfull rödd Unu ásamt töff bakröddum gera lagið The One áhugavert. Kynþokkinn drýpur af þessu öllu og verður til flott grúv sem fékk heilmikla spilun á síðasta ári. Allt gengur upp.

 

LAG ÁRSINS – RAPP OG HIP HOP

City Lights – Cell 7

Lagið City Lights er listilega vel samið, taktfast með frábærum melódíuköflum. Cell7 sýnir hér enn og aftur að hún er ein af færustu röppurum landsins.

B.O.B.A – JóiPé & Króli

Það eru fá íslensk lög sem geta státað sig af einni milljón áhorfa á YouTube en það gerir B.O.B.A með þeim JóaPé & Króla. Frábærar laglínur og orkumikill flutningur gerðu lagið eitt af þeim vinsælustu á síðasta ári og skaut tveimur unglingum samstundis upp á stjörnuhimininn.

Annan – Alvia

Tónlist Alviu Islandiu slær nýjan tón í íslensku rappi. Tilraunakenndur hljóðheimur hennar byggður á endurómun og bergmálum liggur undir einstökum rappstíl og seyðandi ákalli Alviu í Annan.

Joey Cypher – Joey Christ (ft. Herra Hnetusmjör, Birnir, Aron Can)

Joey Cypher fékk kannski ekki jafn mikla spilun í útvarpi og önnur þekkt rapplög en það var engu að síður eitt af því allra vinsælasta á síðasta ári og státar af flutningi frá mörgum af helstu rappstjörnum Íslands.

Fullir vasar – Aron Can

Aron Can heldur sínu striki og kemur fram með þetta sterka lag sem hefur mikið verið spilað og sungið um allt. Viðlagið límist á heilann og sterkur takturinn ásamt textanum situr eftir hjá hlustandanum um ókomna tíð.

Já ég veit – Birnir (ásamt Herra Hnetusmjör)

Hressandi samspil Birnis og Hr.Hnetusmjörs sem standa á bak við fullt af flottum lögum s.l árs. Þetta er uppfullt af ungri og ósnortinni lífsgleði, með skemmtilegum texta og góðu flæði.

 

LAG ÁRSINS – RAFTÓNLIST

BTO – Vök

Hljómsveitin Vök hefur vaxið gríðarlega síðan að sveitin sigraði Músíktilraunir 2014. Á árinu kom út fyrsta stóra platan, Figure, sem að sýnir þessa þróun vel. Lagið BTO er rafpopp í hæsta gæðaflokki og eitt af þeim lögum sem verður betra þegar Vök flytur það á sviði.

I ́d Love – Auður

Fyrirhafnarlaus samruni raf- og sálartónlistar er eitt helsta einkenni Auðs sem lagasmiðs. Hann nýtir hljóðheim raftónlistarinnar til þess að draga fram taktfastan þunga sálartónlistarinnar og er lagið I’d Love einstaklega vel heppnað.

X – Hatari

Hljómsveitin Hatari hefur vakið gríðarlega athygli á árinu fyrir svalar lagasmíðar, vandaða ímyndarvinnu og frábæra tónleika. Samblanda af rokki og raftónlist með ótrúlega grípandi texta “ Það kostar milljarð að fá krabbamein og líftóruna að losna við það”.

 

LAGAHÖFUNDUR ÁRSINS – VEITT ÞVERT Á FLOKKA

Moses Hightower

Vinsældir Moses Hightower eiga ekki að koma á óvart. Tónlistin er aðgengileg án þess að vera ódýr, það er djúpt á þessu og lögin eru framreidd af fyrsta flokks tónlistarmönnum. Það sem gefur þessu öllu aukna vigt er að lagasmíðalega þræða Moses-liðar glæsilega einstigið á milli furðu- og áhlýðilegheita.

Snorri Helgason

Snorri hefur alltaf verið lunkinn lagahöfundur. Formið sem að hann er að vinna með á „Margt býr í þokunni“ fer honum gríðarlega vel og greinilegt að mikil vinna hefur verið lög í bæði lög og texta sem passa gríðarlega vel saman og hvert lag í raun eins og örsaga.

Björk

Eftir að hafa lagt hjarta sitt á borð fyrir alla á hinni mögnuðu Vulnicura lagði Björk sig eftir nokkuð opnari og bjartari tónaheim á Utopia . Skringilegheitin voru engu að síður til staðar áfram. Utopia er ótrúlegt ferðalag og Björk er nú sem fyrr okkar fremsti og frumlegasti tónlistarmaður.

Nýdönsk

Hljómsveitin Nýdönsk er á stalli með helstu þjóðargersemum. Á nýjustu plötu sinni tók hún nokkuð djarfan vinkil á lagasmíðarnar. Í stað snaggaralegra, grípandi popplaga er lagt upp með strengi hlöðnum smíðum (sem Haraldur Vignir Sveinbjörnsson vélar um) og flæðið er lárétt, lög streyma áfram í hægð og með epísku öldufalli.

Mammút

Mammút vöktu mikla athygli á sínum tíma þegar að sveitin sigraði Músíktilraunir árið 2004. Sveitin hefur síðan gefið út fjórar plötur sem eru heilsteypt verk og þróun sveitarinnar er mikil. Á Kinder Versions eru Mammút að horfa út fyrir landssteinana og það fer þeim vel

 

TEXTAHÖFUNDUR ÁRSINS – VEITT ÞVERT Á FLOKKA

Björn Jörundur/Daníel Ágúst

Textar Nýdanskra hafa í nær þrjá áratugi verið á öðrum stað en aðrir popptextar á Íslandi. Leikur þeirra að orðum og hugtökum er alltaf skemmtilegur og um leið áhugaverður. Hvort sem ort er um ástina, dauðann eða félagslíf plantna.

Jói Pé og Króli

„Ég veit ég er búinn að fokk‘upp/Þú hringir ekki lengur.“ Einn af kostum yfirstandandi rappbylgju er að þar fær rödd unga fólksins að heyrast og við fáum reynslusögur úr heimi sem er oftast hulin þeim sem eldri eru. Jói Pé og Króli eru í forvígi þessa, einlægir og skemmtilegir textar á skapandi íslensku.

Snorri Helgason

Textar Snorra Helgasonar eru hugljúfir og fallegir um leið og þeir eru kómískir og skemmtilegir. Það er eiginleiki sem ekki öllum er gefinn. Minnir oft á texta hljómsveitar allra landsmanna á fyrstu árum þeirra. Snorri fer þó sínar eigin leiðir og er einn af betri textahöfundum þjóðarinnar.

Alvia Islandia

Það er engin eins og Alvia Rán, sem stendur á bakvið Alviu Islandiu. Textarnir eru súrrelískir og skemmtilegir, brugðið er á leik með bæði íslensku og ensku og það tælt, ögrað og hneykslað. En svo gerist hún einlæg, eins og í þessari snilldarlínu: „Ég gyðja eins og Bassett / en flækt eins og cassette.“

Katrína Mogensen

Textar Katrínu Mogensen – söngkonu Mammút – sem prýða nýjustu plötu sveitarinnar, Kinder Versions, eru einstaklega áhrifaríkir og einlægir. Ástin og endalausar flækjur hennar er borin á borð kinnroðalaust og söngurinn styður rækilega við sterkt innihaldið.

 

TÓNLISTARVIÐBURÐIR ÁRSINS

Gloomy Holiday Sigur Rósar í Hörpu

Hugmyndin var tiltölulega einföld, að taka þekkt jólalög og setja þau í „Sigur Rósar“-legan búning, hægja á þeim og setja í þunglamalegri útsetningar. Tónleikarnir fóru fram á Norður og niður hátíð Sigur Rósar en voru og sendir beint út á RÚV. Skemmst frá að segja fór þjóðin, eða sá hluti hennar sem er hvað virkastur á Fésbókinni, á hliðina og sitt sýndist hverjum. Hnakkrifist var um ágæti framtaksins og niðurstaðan einir umtöluðustu og umdeildustu tónleikar seinni tíma.

Sigur Rós á Norður og Niður

Gulldrengirnir í Sigur Rós héldu ferna tónleika á Norður og niður hátíð sinni og sönnuðu enn og aftur af hverju hún er jafn dáð og dýrkuð og raun er. Ekki nóg með að Guð gráti gulltárum yfir lagasmíðunum heldur er sveitin orðin afskaplega vel smurð tónleikavél; ofsalega þétt og hljómmikil.

Jülevenner Emmsjé Gauti og félagar í Gamla Bíó

Í helberu sprelli ákvað Emmsjé Gauti að taka þátt í vaxandi jólatónleikamenningu Íslands og sló hugmynd hans í gegn. Fjölda tónleika var bætt við þá upprunalegu og Gauta tókst að setja á svið skemmtilega tónleika sem tóku sig ekki of alvarlega – og var það reyndar galdurinn að þeim.

Páll Óskar í Laugardalshöllinni

Páll Óskar setti upp RISA-tónleika í Laugardalshöll þar sem engu var til sparað í orðsins fyllstu merkingu en um var að ræða stærsta tónleikaverkefni sem Páll Óskar hefur ráðist í á sínum langa og gifturíka ferli. Glimmer-dúðuð Höllin víbraði bókstaflega af þeirri mögnuðu lífs- og sálargleði sem þessi einstaki listamaður er kunnur fyrir.

Ásgeir Trausti í hægvarpi Rúv

Ein sérstakasta tónlistaruppákoma ársins var þegar Ásgeir Trausti tók tónlist upp í 24 tíma hægvarpi og setti hana beint á vínyl fyrir tilstuðlan vínylskurðarvélar og hver vínylplata algjörlega einstakur gripur. Frumsamin lög sem tökulög voru á efnisskránni en upptökur fóru fram í Hljóðrita. Naskur vottur til yfirstandandi vínylendurreisnar og sönnun á því að Ásgeir er ekki allur þar sem hann er séður.

 

TÓNLISTARFLYTJANDI ÁRSINS

Jói Pé og Króli

Þeir félagar, Jói Pé og Króli, komu eins og stormsveipur inn í íslenskt tónlistarlandslag á síðasta ári og náðu að samþætta rappaðdáendur og þá sem eru alls ekki inn í þeim heimi. Árið var þeirra og ungæðislegur sjarminn lét engan ósnortinn.

Mammút

Eftir að hafa verið starfandi í meira en áratug setti Mammút mark sitt á erlenda grundu svo eftir var tekið á síðasta ári. Plata þeirra Kinder Versions er þeirra besta verk til þessa og erlendir tónlistaraðdáendur sem og innlendir fengu að njóta sveitar sem er nú á hátindi ferils síns.

HATARI

Það þarf að hrista reglulega upp í hlutunum og það gerði sveitin HATARI svo um munaði á árinu. Strangpólitísk og ögrandi sveit, þar sem stungið var á kýlum hægri vinstri. Metnaðarfull tónleikaframkoma hennar var svo punkturinn yfir i-ið.

Svala

Söngkonan Svala Björgvinsdóttir sigraði hug og hjörtu landsmanna að nýju á liðnu ári. Hennar fagmannlega framkoma í tengslum við Söngvakeppni sjónvarpsins kom mörgum sem þekktu ekki nægilega til hennar á óvart. Svala tók svo Tónaflóð Rásar 2 á Menningarnótt í sínar hendur og var framkoma hennar umtöluð. Svala gaf öllum þeim sem efuðust um hana, trú að nýju.

Bubbi

Í 38 ár hefur Bubbi verið iðnasti tónlistarmaður landsins, það dylst engum. Á liðnu ári gerði Bubbi mikið af því að koma fram og má segja að hann hafi farið aftur í ræturnar. Með reglulegum uppákomum á öldurhúsum í Reykjavík eða kirkjum landsins hefur Bubbi messað yfir söfnuði sínum meira en oft áður. Bubbi er einn af þeim sem er alltaf góður á tónleikum. Meira að segja þegar hann er ekki upp á sitt besta.

HAM

HAM hefur í mörg ár verið talin ein allra besta tónleikasveit íslenskrar rokk sögu. Það breyttist ekki á síðasta ári. HAM kom fram á hinum ýmsu hátíðum og tónleikum og má segja að hljómsveitin hafi sjaldan eða aldrei verið jafn þétt og þung í dramatísku og dökku rokki sínu. Ef það er hægt.

 

PLÖTUUMSLAG ÁRSINS

Pink street Boys – Smells like boys

Áhrifamikið plötuumslag sem minnir um margt á plötuumslög þungarokkssveita frá níunda áratugnum. Sannkallað listaverk þar sem bleikur litur og teikningar dansa í takt við kraftmikið rokkið.

Snorri Helgason – Margt býr í þokunni

Plötuumslagið er fallegt, heilsteypt og hnitmiðað. Hönnun, útlit og frágangur er samofið tónlistinni og skapar þannig hinn fullkomna heildarsvip.

Fufanu – Sports

Afar forvitnilegt plötuumslag. Augljós vísun í ógleymanlegt myndband Fufanus en einnig í æskuna og hið íslenska sumar. Plötuumslag sem einfaldlega sogar mann að sér.

Vök – Regime

Stílhreint og fágað plötuumslag. Fellur vel að tíðarandanum og hljóðheim hljómsveitarinnar með fallegum litum og skemmtilegri grafík.

Björk – Útópía

Frumlegt, heiðarlegt og djarft. Sannkölluð veisla fyrir augað, töfrandi og fangar vel draumaheim plötunnar. Umslag í anda Bjarkar og myndar samfellu í höfundarverki hennar.

Continuum – Traumwerk

Einstaklega fallegt og faglega unnið plötuumslag sem fangar augað. Forsíðan er í raun listaverk út af fyrir sig, þar sem útskorin forsíða og bakgrunnur undir henni mynda naumur, forvera nútíma nótnaskriftar.

 

TÓNLISTARMYNDBAND ÁRSINS 2017
ALBUMM.IS & ÍSLENSKU TÓNLISTARVERÐLAUNIN

Blissful – Make It Better

Leikstjóri: Einar Egils.

https://www.youtube.com/watch?v=AmwROOL2JiA&feature=youtu.be 

Virkilega vel hugsað myndband sem fangar 90´s danstónlistar (rave) menninguna á íslandi. Lúkkar mjög vel og skemmtilegt fyrir augað!

 

Rj skógar – Trophy Kid

Leikstjóri:  RJ Skógar.

https://www.youtube.com/watch?v=WcFrHr8_DVc

Einstaklega vel gert og teiknað. Mjög skemmtilegur söguþráður sem margir eflaust kannast við. Það er greinilegt að mikill tími fór í myndbandið en hver rammi er hugsaður til hins ýtrasta.

 

Úlfur úlfur – Bróðir

Leikstjóri: Magnús Leifsson.

https://www.youtube.com/watch?v=DagGsFPmDBA

Hver rammi er þaulhugsaður og eru litirnir í myndbandinu einstaklega smekklegir. Bleiki reykurinn setur svo punktinn yfir i-ið!

 

sóley – Úa

Leikstjóri: Máni M. Sigfússon.

https://vimeo.com/218768977

Fallegt myndband með fílíng frá hreyfimyndatímanum nema í nútímalegri búning. Hvert skot dregur mann inn í ótrúlega þægilegan hugarheim.

 

Högni – Komdu með

Leikstjóri: Máni M. Sigfússon og Högni.

https://vimeo.com/241911387

Skemmtileg skipting á lýsingunni sem gefur sögunni skil á því sem er að gerast. Eins og ævintýri í draumaheimi.

 

Auður – I‘d Love

Leikstjóri: Auður og Ágúst Elí.

https://www.youtube.com/watch?v=z-1kjs8wzws&feature=youtu.be

Hugmyndin er virkilega flott og vel hugsuð út fyrir kassann! Auður er virkilega flottur í myndbandinu og smellpassar þetta allt saman. Hvernig er þetta gert?

 

Vök – BTO

Leikstjóri: Magnus Andersen.

https://www.youtube.com/watch?v=xJJSu1zN2kA&feature=youtu.be

Myndbandið nær að fanga áhorfandann, er sjónrænt og fallegt og djarfur takturinn er spunninn fagmannlega inn í myndbandið. Dáleiðandi.

 

Ólafur Arnalds – 0952

Leikstjóri: Eilifur Örn.

https://www.youtube.com/watch?v=kcwMbtwh4pY

Hér má sjá lífið fangað þar sem myndavélin fylgir fjölskyldu við matarborðið. Samvera, hlýja og söknuður, hið mannlega ástand í takt við tímann og það sem hann ber í skauti sér. Allt fléttast þetta fullkomlega saman við stórbrotna tónlist Ólafs Arnalds.

 

Alexander Jarl – Hvort annað

Leikstóri: Hawk Björgvinsson.

https://www.youtube.com/watch?v=yiJLKXCzW_M

Virkilega fagamannlegt og vel úr garði gert myndband. Töff saga sögð sem er í fullkomnum takti við tónlistina og daðurslegan og svalan textann.

 

Fufanu – White Pebbles

Leikstjóri: Snorri Bros.

https://www.youtube.com/watch?v=2fKdp2fb2DE

Myndbandið er afar flott og passar svo sannarlega vel við lag og texta. Áferð og spennandi umgjörð er skemmtileg og nær vel töffara andrúmsloftinu sem umlykur lagið og hljómsveitina.

 

Íslensku tónlistarverðlaunin verða veitt í Hörpu 14. mars næstkomandi og verða sýnd í beinni útsendingu á Rúv.

Fylgist með á Twitter og Facebook.

​Opnað fyrir skráningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna og ný heimasíða

By | Fréttir, news | No Comments

Framkvæmdastjórn Íslensku tónlistarverðlaunanna vill vekja athygli á því að 1. desember er opnað fyrir umsóknir til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2017.

Öllu íslensku tónlistarfólki, öllum tónskáldum, útgefendum og öðrum hagsmunaaðilum sem gefið hafa út nýja íslenska tónlist, haldið tónleika eða sent frá sér ný lög, tónverk eða myndbönd er frjálst að senda inn tilnefningar í viðeigandi flokka sem eru þrír: 1. Klassík og samtímatónlist. 2. Djass og blús. 3. Popp, rokk, rapp, raftónlist, kvikmynda- og leikhústónlist, sem og önnur tónlist.

Í fyrra var verðlaunum fjölgað þegar bætt var við rappi, hip hop, raftónlist, kvikmynda- og leikhústónlist og gaf það góða raun. Þessir verðlaunaflokkar, ásamt þjóðlagatónlist, eru þó háðir þeim afmörkunum að nægilega margar frambærilegar tilnefningar berist í þessa tilteknu flokka.

Opið verður fyrir tilnefningar til 15. janúar 2018.

Til að skrá verk skal fylgja þessum hlekk en hér er um að ræða innsendingarsíðu Íslensku tónlistarverðlaunanna: https://istonumsokn.firebaseapp.com

  • Veitt eru verðlaun fyrir tímabilið 1. Janúar til 31. Desember 2017
  • Skilafrestur á innsendingum rennur úr á miðnætti 15. Janúar 2018
  • Tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna verða kynntar um miðjan febrúar 2018
  • Verðlaunahátíðin fer fram í Hörpu þann 14.mars 2018
  • Verðlaun verða veitt í alls 30 flokkum

Ný og endurbætt heimasíða Íslensku tónlistarverðlaunanna opnaði einnig í dag en hér er að finna allar helstu upplýsingar um verðlaunin, reglur, samstarfsaðila, sögu hátíðarinnar og lista yfir verðlaunahafa fyrri ára og þá sem hlotið hafa tilnefningar. Það eru þeir Þormóður Dagson, Kristinn Evertsson og Steve Anatai sem eiga veg og vanda að glæsilegu útliti og hönnun nýju síðunnar.

Nánari upplýsingar um skráningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2017

Senda má inn tilnefningar vegna verka sem gefin eru út og frumflutt á árinu. Tónlist má skila á rafrænu formi en jafnframt er eindregið mælst til þess að senda inn geisladiska eða plötur ef kostur er á slíku. Tekið verður við eintökum á skrifstofu STEFs sem nú er tímabundið að Ármúla 7.

Í ár verða veitt verðlaun í 30 flokkum að viðbættum Heiðursverðlaunum Íslensku tónlistarverðlaunanna. Reglur og leiðbeiningar Íslensku tónlistarverðlaunanna er að finna á heimsíðu verðlaunanna. Spurningum og fyrirspurnum varðandi gjaldgengi og fyrirkomulag skal beint til stjórnar í gegnum netfangið iston@iston.is.

Íslensku tónlistarverðlaunin verða veitt í Hörpu miðvikudaginn 14. mars 2018 en tilnefningar verða kynntar um miðjan febrúar.

Stjórn Ístón skipa Margrét Eir Hönnudóttir og Jóhann Ágúst Jóhannsson.

Íslensku tónlistarverðlaunin eru haldin fyrir tilstuðlan hagsmunafélaga tónlistarinnar, STEFs og SFH, undir merkjum Samtóns.

Fylgist líka með okkur á Facebook og Twitter. Ef spurningar vakna má senda póst á iston@iston.is.