Reglur og útskýringar á flokkum

INNSENDINGARGJALD
Innsendingargjald á hverja tilnefningu er kr. 5000 og skal greiðast inn á reikning Samtóns 301-26-4188, kt. 440203-4180. Sendi sami aðilinn inn fleiri en eina tilnefningu, greiðir hann þó aldrei hærra gjald en kr. 15.000. Tilnefning er ekki tekin gild, fyrr en greiðsla hefur borist.
Skráning tilnefninga mun fer fram á vefsíðu www.iston.is frá og með 1. desember 2016 til og með 12. janúar 2017.
Eingöngu er tekið við rafrænum eintökum af tilnefndum verkum. Dómnefndir munu hlusta á öll innsend verk.
Nánari upplýsingar verða innan skamms settar inn á vefsíðuna www.iston.is

Flokkar háðir frumflutningi og/eða útgáfu

Grunnreglur

Gjaldgengir eru þeir höfundar og/eða flytjendur sem eru íslenskir ríkisborgarar eða hafa verið með lögheimili á Íslandi í a.m.k. eitt ár.
Ef um fleiri höfunda og/eða flytjendur eru að ræða (t.d. í hljómsveit) eiga a.m.k. 50% þeirra að uppfylla skilyrðið um ríkisborgararétt og/eða lögheimili á Íslandi.
Verk eru gjaldgeng séu þau frumflutt eða frumútgefin á Íslandi á tímabilinu 1 jan. til 31 des. 2016.

Lag/Tónverk ársins

Gjaldgeng eru þau verk eftir íslenska höfunda eða höfunda sem búa og starfa á Íslandi sem frumflutt/eða frumútgefin voru á Íslandi á tímabilinu og lögð eru fram til dómnefndar af útgefanda. Útgefanda er í sjálfs vald sett hvort hann kýs að miða við frumflutning eða frumútgáfu verks en óheimilt er að leggja verk fram aftur ef það hefur áður verið lagt fram á öðru undangengnu tímabili. Komi upp sú staða að verk hafi verið frumútgefið á einu ári en notið vinsælda eða vakið athygli á tímabilinu sem ÍTV miðar við hverju sinni er heimilt að leggja það fram sem verk ársins. Skal dómnefnd þá túlka aðstæður þröngt, meta gjaldgengi verksins og rökstyðja niðurstöðu komi til tilnefningar, þó gildir sú takmörkun sem áður er getið um framlögn verks á öðru undangengnu tímabili. Útgefanda er einungis heimilt að leggja hvert verk fram í einum tilnefningaflokki. Til að mynda einungis í Lag ársins (popp) og þá ekki í Lag ársins (rokk) eða í Tónverk ársins (Djass/Blús). Tilnefna skal verk en höfundur/ar skal veita verðlaunum viðtöku.

Hljómplata ársins

Gjaldgengar eru þær hljómplötur íslenskra flytjenda eða flytjenda sem búa og starfa á Íslandi sem lagðar eru fram til dómnefndar og voru frumútgefnar á tímabilinu. Gjaldgengi hljómplötu er óháð því hvort hún innihaldi frumflutning verka eða áður útgefin verk en skilyrði er að amk 80% hljóðritanna á hljómplötunni hafi ekki verið gefin út áður, á öðru tímabili. Útgefanda er einungis heimilt að leggja hverja hljómplötu fram í einum tilnefningaflokki. Til að mynda einungis í Hljómplata ársins (popp) og þá ekki í Hljómplata ársins (rokk) eða í Opnum flokki. Aðalflytjandi hljómplötunnar skal veita verðlaunum viðtöku.

Opinn flokkur er ætlaður útgáfu sem ekki fellur beint undir aðra flokka, ss. barnaefni, kántrý, þjóðlagatónlist, heimstónlist, slökunartónlist, leikhústónlist, raftónlist og annarskonar jaðartónlist.

Textahöfundur ársins

Gjaldgengir eru allir textahöfundar sem vöktu athygli á árinu fyrir frumflutning og/eða frumútgáfu verks eða verka á íslensku. Tilnefna skal fyrir áberandi framlag við ákveðið verkefni, svo sem fyrir texta á ákveðinni hljómplötu eða lifandi flutning.

Upptökustjóri ársins

Gjaldgengir eru allir íslenskir upptökustjórar eða upptökustjórar sem búa og starfa á Íslandi sem vöktu athygli á árinu fyrir frumútgefið verk. Tilnefna skal fyrir áberandi framlag við ákveðið verkefni. Upptökustjóri skal veita verðlaunum viðtöku.

Flokkar óháðir útgáfu

Söngvari / söngkona ársins

Gjaldgengir eru allir íslenskir söngvarar og söngkonur og allir söngvarar og söngkonur sem búa og starfa á Íslandi og sem vöktu athygli á á tímabilinu, óháð útgáfu. Söngvari/söngkona skal veita verðlaunum viðtöku.

Tónlistarflytjandi ársins

Gjaldgengir eru allir íslenskir flytjendur eða flytjendur sem búa og starfa á Íslandi sem vöktu athygli á tímabilinu, óháð útgáfu. Tekið skal sérstakt tillit til starfsemi flytjanda á sviði lifandi flutnings. Flytjandi skal veita verðlaunum viðtöku.

Tónlistarviðburður ársins

Gjaldgengir eru allir tónlistarviðburðir sem fram fóru á Íslandi á tímabilinu og þóttu skara fram úr hvað metnað, skipulagningu og framkvæmd varðar. Skipuleggjandi viðburðarins skal veita verðlaununum viðtöku.

Aðrir flokkar

Bjartasta vonin

Gjaldgengir eru allir íslenskir “nýliðar” eða “nýliðar” sem búa og starfa á Íslandi sem vöktu athygli á tímabilinu, óháð útgáfu. Sérstökum aðila verður falið að tilnefna í þessum flokki og skal skilgreining á nýliða vera í höndum hans sem skal þó geta rökstutt val sitt með sterkum hætti og ber honum að túlka hugtakið þröngt. Heimilt er að tilnefna hvort sem er flytjanda eða höfund. Óheimilt er að tilnefna aðila í þennan flokk sem áður hefur hlotið tilnefningu til ÍTV, gefið hefur út hljómplötu sem aðalflytjandi eða vakið hefur verulega athygli á einhverju tímabili sem er undangengið tímabili ÍTV hverju sinni. Tilnefndur aðili skal veita verðlaunum viðtöku.

Rás eitt og Rás tvö eru sérstakir samstarfsaðilar að verðlaununum Bjartasta vonin. Samstarfið felst m.a. í dagskrárgerð og kosningu á vef RÚV.

Plata ársins valin af styrkhafa

Gjaldgengar eru frumraunir íslenskra flytjenda eða flytjenda sem búa og starfa á Íslandi og eru undir 25 ára aldri. Aðalflytjandi hljómplötunnar skal veita verðlaununum viðtöku.

Heiðursverðlaun Íslenku tónlistarverðlaunanna, valið er í höndum stjórnar Samtóns

Stjórn Samtóns velur ár hvert þann aðila sem heiðra skal sérstaklega fyrir framlag sitt til íslenskrar tónlistar.

Þátttökuskilyrði

Skoðaðu þátttökuskilyrði.

Meira

Flokkar

Skoðaðu flokka sem sótt er um.

Meira

Dómnefndir

Skoðaðu dómnefndir í ár.

Meira