Þátttökuskilyrði

Íslensku tónlistarverðlaunin eru opin öllum íslenskum útgáfum/verkum sem hafa komið út á Íslandi á tímabilinu 1. janúar til 31. desember 2016.

Til að útgáfa teljist íslensk verður aðalflytjandi eða aðalhöfundur að búa og starfa á Íslandi eða vera íslenskur.

Tekið er við tilnefningum til og með 15. janúar 2017.
Tilnefningar verða kynntar um miðjan febrúar.
Verðlaunahátíðin mun fara fram þann 2. mars 2017.
Verðlaun verða veitt í allt að 29 flokkum að meðtöldum heiðursverðlaunum.

Þátttaka

Útgefandi/ábyrgðarmaður verður að skrá verk til þátttöku og sjá til þess að aðgangur að verkinu sé veittur.

Innsendingargjald fyrir hverja tilnefningu er kr. 5000. Sendi sami umsjónaraðili/listamaður inn fleiri en eina tilnefningu fyrir einn og sama titilinn eða listamanninn greiðir hann þó aldrei hærra gjald en kr. 15.000. Innsendingargjald þarf að greiða í umsóknarferlinu (undir Skráning: Skrá verk) til að geta klárað umsóknina.

Útgefandi/ábyrgðarmaður velur þann undirflokk sem hann telur rétt að tilnefna hljómplötuna/verkið í. Dómnefnd er heimilt að leggja til breytingu á flokkun hljómplötu/verks en þarf samþykki útgefanda fyrir slíkri breytingu.

Skrá verk

Réttur ÍTV

Við skráningu til þátttöku veitir útgefandi/ábyrgðarmaður ÍTV leyfi til þess að nota allt að 30 sekúndna bút úr innsendu verki við markaðssetningu og kynningu á ÍTV. Þegar um kynningu á endanlegum tilnefningum og verðlaunahöfum er að ræða má nota lög/verk í heild sinni. Þátttakandi er ábyrgur fyrir því að öll leyfi séu fyrir hendi.

Dómnefndir

Aðaldómnefndir ÍTV 2016 verða þrjár talsins, ein fyrir hvern grunnhóp tónlistarstefna:

  • Popp, Rokk og önnur tónlist
  • Djass, Blús
  • Sígild- og samtímatónlist

Önnur tónlist er með þrjá flokka: rapp & hip hop, raftónlist og þjóðlagatónlist. Í ár er kosið um plötu ársins í þessum flokkum ef umsóknir eru nógu margar og frambærilegar. ÍTV hefur líka þann kost að stofna flokkinn Opinn flokkur ef margar umsóknir berast sem falla ekki beint undir aðra flokka.

Dómnefndir eru skipaðar af framkvæmdastjórn ÍTV. Hver aðaldómnefnd er skipuð fimm aðilum og er reynt eftir bestu geta að gæta jafnræðis hvað aldur, kyn, störf og annað varðar. Í ár var opið umsóknarferli um setu í dómnefndum og þær skipaðar í kjölfarið.

Dómnefndir í Sígildri og samtímatónlist og Poppi, rokki og annarri tónlist eru skipaðar sjö aðilum en dómnefnd í Djass og blús er skipuð fimm aðilum.
Dómnefndir eru skipaðar fagfólki úr íslensku tónlistar- og menningarlífi og reynt er eftir bestu getu að gæta jafnræðis hvað aldur, kyn, störf og annað varðar við val á fólki í fagnefndir.