Tilnefningar 2016

PLATA ÁRSINS – ROKK

Kaleo – A/B

Einstaklega grípandi melodískt rokk þar sem allt smellur saman; þétt spilamennska, góðar laga- og textasmíðar og einstakur söngur.

Mugison – Enjoy!

Maður gengur að gæðunum vísum hjá Mugison. Aldrei lognmolla hjá þessum öfluga tónlistarmanni.  Skemmtileg plata.

Elíza Newman – Straumhvörf

Einkar fjölbreyttar og áhugaverðar lagasmíðar. Fersk og frumleg plata þar sem karakter Elízu skín í gegn.

Ceasetone – Two strangers

Einkar melódískar lagasmíðar, undir allskonar áhrifum.  Fjölbreytt og skemmtilegt rokk.

Skálmöld – Vögguvísur Yggdrasils

Góðir, þéttir og krefjandi.  Frábær plata frá frábærri hljómsveit.


PLATA ÁRSINS – POPP

Júníus Meyvant – Floating harmonies

Júníus Meyvant kom eins og ferskur stormsveipur inn í íslenska tónlistarsenu með framúrskarandi lagasmíðum sem náð hafa mikilli útbreiðslu og spilun.  Klassapopp.

Sin Fang – Spaceland

Hljóðheimur nýjastu plötu Sindra Más sækir meira til raftónlistar en fyrri plötur hans, en sem fyrr ferst honum verkið ákaflega vel úr hendi.

Retro Stefson – Scandinavian Pain

Þú gengur að gæðunum vísum hjá Retro Stefson – skemmtileg og upplífgandi að vanda – stutt en snörp plata.

Starwalker – Starwalker

Samverkamenn til margra ára, Barði í Bang Gang og Jean-Benoît Dunckel í Air, koma hér með sína fyrstu plötu í fullri lengd sem stendur svo sannarlega undir væntingum.

Snorri Helgason – Vittu til

Fjórða breiðskífa Snorra, en sú fyrsta á íslensku, sem kannski fyrir vikið kallast skemmtilega á við eldri klassískar poppplötur Íslandssögunnar.

 

PLATA ÁRSINS – RAFTÓNLIST

Samaris – Black Light

Samaris hefur aldrei hljómað jafn rafbundin og á nýjustu plötu sinni, Black Lights. Sungið er á ensku og alltumlykjandi flæðið er dularfullt, þar sem seyðandi rödd Jófríðar Ákadóttur er í forgrunni.

Ambátt – Flugufen

Flugufen er ómþýður staður. Lagt er upp með stemningu, alltumlykjandi, og platan rennur af hægð og með öryggi. Evrópsk sveimdjassstemning keyrð inn í ókennilega og alíslenska rafblöndu.

Futuregrapher – Hrafnagil

Futuregrapher hefur um langa hríð verið kyndilberi íslenskrar sveimtónlistar og hnykkir hann á þeirri stöðu með þessu formfallega og örugga verki.

 

PLATA ÁRSINS – RAPP OG HIP HOP

Reykjavíkurdætur – RVK DTR

Þessi öflugi hópur kemur fullskapaður inn í íslensku rappsenuna með þessa kröftugu og fjölbreyttu plötu.

Emmsjé Gauti – Vagg og Velta

Emmsjé Gauti gaf ekki út eina, heldur tvær breiðskífur, á síðasta ári. Fjöldi vinsælla laga og mörg samvinnuverkefni undirstrika sterka stöðu Gauta í íslensku rappi.

Aron Can – Þekkir Stráginn

Frábær frumraun Arons Can, sem þrátt fyrir ungan aldur hefur stimplað sig inn bæði sem öflugur lagahöfundur og flytjandi.

 

LAG ÁRSINS – ROKK

Elíza Newman – Kollhnís

Krafturinn keyrir áfram þessa frábæru lagasmíð Elízu. Grípandi og óbeislað kvennarokk af bestu gerð.

Kaleo – No Good

Enn einn rokkslagarinn á heimsmælikvarða frá hljómsveitinni Kaleo; hrátt og ólgandi lag sem fær hárin til að rísa.

Valdimar – Slétt og fellt

Lagið Slétt og fellt með hljómsveitinni Valdimar sameinar sterka ádeilu, góða lagasmíð og óaðfinnanlegan flutning að vanda.

Fufanu – Sports

Fufanu mættu sterkir til leiks með eitt af bestu lögum ársins 2015. Hér endurtaka þeir leikinn með gríðarsterkt lag sem nær að vera frumlegt um leið og það kallast á við tónlistarsöguna.

Soffía Björg – I lie

Soffía Björg steig fram í sviðsljósið á síðasta ári sem lagahöfundur, söngkona og hljóðfæraleikari og er lagið I lie gott dæmi um hæfileika hennar.

 

LAG ÁRSINS – POPP

Sin Fang – Candyland (feat. Jónsi)

Einkar heillandi poppsmíð; söngvæn og grípandi og öðruvísi en allt annað og Jónsi úr Sigur Rós kemur einkar sterkur inn í viðlaginu.

Snorri Helgason – Einsemd

Snorri er alltaf einlægur í flutningi sínum og lagasmíðum. Þetta lag er einkar heillandi og gott dæmi um hvernig Snorri hefur verið að þróa sinn stíl á undanförnum plötum.

Friðrik Dór – Fröken Reykjavík

Friðrik Dór býður ungfrú Reykjavík velkomna í nútímann. Nýr vinkill á þessari gömlu dægurperlu og hún er glædd einstakri rómantík og nánd. Flott lag hjá Frikka.

Hildur – I’ll walk with you

Grípandi poppmelódía frá Hildi Kristínu sem stimplar sig rækilega inn með þessu lagi. Það er örðugt að hrista þennan vel heppnaða slagara úr hausnum.

Glowie – No Lie

Glowie syngur eins og engill og StopWaitGo strákarnir vita upp á hár hvernig best er að knýja fram það besta í þessari framtíðarstjörnu.

 

LAG ÁRSINS – RAPP OG HIP HOP

Aron Can – Enginn Mórall

Gulldrengurinn Aron Can er klárlega með eitt af lögum ársins.  Ungur og efnilegur, rödd þess sem koma skal.

Emmsjé Gauti – Reykjavík

Frábærlega vel heppnaður óður til höfuðborgarinnar, bæði ást til hennar sem og pirringur eru tónsett á áhrifaríkan hátt.

Emmsjé Gauti – Silfurskotta

Emmsjé Gauti og Aron Can leiða hér hesta sína saman og útkoman er gulls ígildi.

XXX Rottweiler – Negla

Rottweiler sýna hér og sanna að þeir hafa engu gleymt.  Algjör “Negla”.

Alvia Islandia – Bubblegum bitch

Sykurhúðað tyggjórapp í boði Alviu.  Hún er töffarinn í þessum bransa og gefur hér ekkert eftir.

 

SÖNGKONA ÁRSINS

Samaris – Jófríður Ákadóttir

Draumkenndur og seiðandi söngur Jófríðar töfrar þig inn í annan veruleika. Feimni í bland við kvenleika einkennir framkomu og stíllinn er náttúrulegur.

Bambaló (Kristjana Stefáns) – Kristjana Stefánsdóttir

Bambaló er listamannsnafn Kristjönu Stefánsdóttur og söngurinn hér er einstaklega einlægur og næmur. Vel heppnuð frumraun.

Amabadama – Salka Sól Eyfeld

Flæðið í takt við reggíómana hentar rödd Sölku Sólar einstaklega vel. Kraftmikil og hispurslaus heillar hún alla.

Glowie – Sara Pétursdóttir – Glowie

Glowie er búin að sanna sig sem ein helsta poppsöngkona landsins.  Hún hefur einstaka rödd og flotta framkomu.

Tómas R. Einarsson – Sigríður Thorlacius

Mögnuð rödd Sigríðar fellur einstaklega vel að hinum suðræna hrynheimi Tómasar. Sigríður er einfaldlega engri lík.

 

SÖNGVARI ÁRSINS

Friðrik Dór – Friðrik Dór Jónsson

Friðrik Dór er sjarmör út í gegn og söngröddin er því marki brennd, hún lokkar og laðar að og hann nýtir sér hátt raddsviðið til hins ýtrasta. Fagmaður fram í fingurgóma.

Emmsjé Gauti – Gauti Þeyr Másson

Grunntónninn í rappstíl Gauta er mýkt og melódía, Drake-legar tilfinningarannsóknir eru vel á valdi hans og skilar hann þeim til hlustandans með seyðandi en um leið öruggu flæði.

Kaleo – Jökull Júlíusson

Jökull hefur vakið athygli fyrir frábæra rödd sem einkennir lög Kaleo. Blúsuð, kraftmikil og svo hrá að hún nístir inn að beini. Söngur Jökuls fangar svo sannarlega athyglina.

Júníus Meyvant – Unnar Gísli Sigurmundsson

Júníus Meyvant flytur lög sín á ylhýran og þekkilegan hátt, röddin umlykur hlustandann og sendir hann beint inn í drauma- og ævintýralönd.

Valdimar – Valdimar Guðmundsson

Flauelsmjúka röddin úr Reykjanesbænum hefur hrifið fólk með sér alveg frá því hún fór að heyrast opinberlega. Eiginlega orðin klassík.

 

TEXTAHÖFUNDUR ÁRSINS

Úlfur Úlfur – Arnar Freyr Frostason

Flugbeittir textar þar sem hversdagslegir hlutir eru slegnir gullljóma rapplífsins. Samfélags- og sjálfsgagnrýni, ástin og harmur verða ljóslifandi fyrir augum hlustandans og með góðu valdi á nútímaíslensku hleypir Arnar hlustendum inn í nýjan ljóðrænan heim íslensks rapps. Eitt helsta ljóðskáld okkar tíma.

Emmsjé Gauti – Gauti Þeyr Mássons

Spaugsamar en um leið sannferðugar lýsingar á ungmennalífi Reykjavíkurborgar. Einstaklega orðheppinn Gauti.

Tómas R. Einarsson – Kristín Svava Tómasdóttir

Glúrnir, grallaralegir og meinhæðnir textar sem lýsa íslenskri þjóðarsál vel. Smellpassar við suðræna bongósveiflu.

Skálmöld – Snæbjörn Ragnarsson

Textarnir eru upp á tíu bragfræðilega en um leið skemmtilegir, kersknir og ævintýralegir. Sjaldan hefur rím rokkað jafn mikið og hér.

Mugison – Örn Elías Guðmundsson

Örn Elías Guðmundsson gerir upp ýmislegt úr fortíðinni í ansi nærgöngulum textum á Enjoy. Um leið horfir hann brattur í spegilinn og sættist við manninn sem hann hefur að geyma.

 

LAGAHÖFUNDUR ÁRSINS

Emmsjé Gauti – Gauti Þeyr Másson

Emmsjé Gauti sýndi fram á glúrna fjölhæfni í lagasmíðum, er rólegur og æstur á víxl og ansi séður í að draga til sín frambærilega samstarfsaðila.

Kaleo – Jökull Júlíusson

Lög Kaleo þræða glæsilega einstigi rokks og blús, stóreflissmíðar í raun og ekki að undra að Ameríkumarkaður hefur tekið piltunum fagnandi.

Snorri Helgason – Snorri Helgason

Lagasmíðar Snorra Helgasonar hafa þróast úr fremur einföldu þjóðlagapoppi yfir í mikilúðlega tónlist hvar höfundareinkenni hans eru orðin einkar sterk.

Glowie – Stop Wait Go

Stop Wait Go teymið leggur Glowie til nútímalegt og grípandi popp sem hæfir þessari vaxandi stjörnu fullkomlega.

Júníus Meyvant – Unnar Gísli Sigurmundsson

Lög Júníusar fljóta áfram á fallegan, höfugan hátt og brass og annað skraut lyftir þessum eyrnanuddandi smíðum á annað stig.

 

TÓNLEIKAR ÁRSINS

Jólatónleikar Baggalúts

Jólatónleikar Baggalúts eru orðinn fastur liður hjá þorra landsmanna á aðventunni en Baggalútur hélt heila 17 tónleika í desember fyrir stappfullu húsi í Háskólabíói og var öllu tjaldað til.

Retro Stefson – Lokatónleikar Retro Stefson – Síðasti Sjens

Retro Stefson hætti störfum á síðasta ári og það var við hæfi að sveitin gerði það á sviði enda sviðsframkoma Retro Stefson löngum verið sverð og skjöldur sveitarinnar. Lokatónleikar Retro Stefson munu vafalaust standa uppúr þegar litið er til baka á poppsögu 21. aldarinnar á Íslandi sem endalok merks tímabils í þeirri sögu.

Mugison – Mugison í Hörpu

Mugison er löngu búinn að sanna sig sem einn allra besti sviðsmaður okkar Íslendinga. Á tvennum tónleikum í Hörpu í desember stóð hann fyrir eftirminnilegri sýnikennslu i þeim fræðunum.

Skálmöld – Skálmöld—Berskjaldaðir

Skálmöld hleypti aðdáendum bakvið tjöldin á tvennum tónleikum í Háskólabíói og Hofi. Tónleikarnir voru í bland viðtöl, sögur og tónlist þar sem farið var yfir feril sveitarinnar á hispurslausan hátt í hátt í fjóra klukkutíma og var ekkert ekkert dregið undan.

Emmsjé Gauti – Útgáfutónleikar Vagg og Velta

Emmsjé Gauti fagnaði útgáfu Vagg og veltu með því að breyta Nasa í hringleikahús og hannaði hann 360 gráðu svið á miðju gólfinu.  Áhorfendur voru á einu máli að þetta væru flottustu tónleikar sem þeir hefðu séð á Íslandi og greinilega mikil vinna lögð í að ná fram þessari einstöku upplifun.

 

FLYTJANDI ÁRSINS

Emmsjé Gauti – Emmsjé Gauti

Óhætt er segja að Emmsjé Gauti hafi „átt“ árið í fyrra; gaf út tvær plötur, var áberandi á tónleikum og í fjölmiðlum, vann eftirtektarverð myndbönd, gaf út tölvuleik og kynnti auk þess eigin fatalínu! Gauti stendur nú fremstur í stafni í hinni yfirgangandi rappbylgju og leysir öll sín mál með stæl.

Kaleo – Kaleo

Mosfellska rokksveitin Kaleo gerði vel í því að vinna að framgangi sínum á erlendri grundu, einkum þá vestan hafs á síðasta ári. Annarri plötu sveitarinnar var vel tekið, hún eignaði sér pláss í sjónvarpsþáttum í draumaverksmiðjunni og ungir meðlimirnir hafa vaxið upp í að vera þétt tónleikaband sem er til alls líklegt.

Mugison – Mugison

Mugison sneri aftur eftir alllanga bið með nýja plötu í farteskinu þar sem hann rýndi í ýmis hjartans mál. Sumarið sem leið hélt hann hljómleika fyrir erlenda gesti í Reykjavíkinni og einnig fengu landar hans að njóta þeirra krafta, en á sviði er þessi sonur Íslands svo gott sem ósnertanlegur.

Retro Stefson – Retro Stefson

Dómnefndinni er þungt um hjarta í raun að rita þessi orð, en Retro Stefson lagði formlega upp laupanna í fyrra. Einstök sveit með glæstan feril að baki, hljómplötur þeirra lifa og lokatónleikar þeirra eru þegar komnir í sögubækurnar.

Reykjavíkurdætur – Reykjavíkurdætur

Reykjavíkurdætur voru áberandi á síðasta ári, umdeildar sem fyrr, sem sýnir hversu mikilvægt afl þær hafa verið í íslensku tónlistarlífi, þar sem spurningum um kyn, vald og stöðu tónlistarbransans hefur verið þeytt upp í loftið. Fyrirmyndarsveit sem krefst þess að konur megi og geti skarað eld að eigin köku án þess að biðja nokkurn mann um leyfi.

 

TILNEFNINGAR RÁSAR 2 SEM BJARTASTA VONIN

Aron Can

Soffía Björg

Auður

RuGL

Hildur

PLATA ÁRSINS

Arve Henriksen, Hilmar Jensson, Skúli Sverrisson – Saumur

Heildstætt og frumlegt tónverk með hlýjum og mildum hljóðheimi sem dregur hlustandann innávið á áður ókönnuð svæði.

Stína Ágústsdóttir – Jazz á Íslensku

Glæsilegt framtak og mikilvæg viðbót við jazzflóru Íslands. Hnyttnir og skemmtilegir textar sem komið er vel til skila. Söngurinn er einlægur og glettinn á köflum.

Þorgrímur Jónsson Quintet – Constant Movement

Frumraun Þorgríms hefur að geyma fjölbreyttar lagasmíðar sem fara með mann í ferðalag aftur um nokkra áratugi.

Einkenni plötunnar er hlýr og umliggjandi hljómur. Fjölbreytt lög sem raðast saman í eina sterka heild.

 

TÓNVERK ÁRSINS

ADHD – Magnús Trygvason Elíasson

Skemmtilega útfært þrástef sem gengur í gegnum lagið. Hver einstaklingur leggur sitt fram og skapar heildrænan stíl.

Sunna Gunnlaugsdóttir og  Maarten Ornstein – Unspoken

Falleg og tregablandin laglína sem þau Maarten og Sunna vinna vel úr og tekst að flytja hlustandann yfir á æðra tilverustig.

The Pogo Problem – Difference of Opinion

Einlægt, áreinslulaust og heldur hlustandanum frá fyrstu nótu. Góður samhljómur þar sem enginn skyggir á neinn.

 

LAGAHÖFUNDUR ÁRSINS

ADHD

Hér skín í gegn styrkur ADHD sem kemur bersýnilega í ljós á þeirra nýjustu plötu. Stór hljóðheimur þar sem einstaka raddir hvers og eins fá að njóta sin.

Sunna Gunnlaugs, Maarten Ornstein

Magnað flæði, frábært samspil og vel útfærð lög. Einfalt og grípandi sem flytur mann í draumaheima við fyrstu hlustun.

Þorgrímur Jónsson Quintet

Skemmtilega fjölbreyttar tónsmiðar sem vekja upp þáþrá til gullaldar Blue Note útgáfunnar eða til að taka skyndiákvörðun um að kaupa sér flugmiða til Berlínar; þar hlýtur að vera stemming.  

 

TÓNLISTARFLYTJANDI ÁRSINS

ADHD

Ólíkir einstaklingar með persónulegan stíll ná að leiða saman krafta sína og skapa ferska og kraftmikla upplifun.

Arve Henriksen, Hilmar Jensson, Skúli Sverrisson – Saumur

Einstaklega áhugavert tríó þar sem ólíkir einstaklingar leiða saman kunnáttu sína og ástríðu fyrir verkefninu. Samleikur þeirra ber þess merki og er útkoman göldrum líkust.

Stórsveit RVK

Einstaklega metnaðarfull og fjölbreytt verkefni á árinu.

Stórsveitin hefur verið öflug í að fá til liðs við sig innlend sem erlend tónskáld og hefur haldið uppi reglulegu og öflugu tónleikastarfi.

PLATA ÁRSINS

Guðrún Óskarsdóttir – In Paradisum

In Paradisum er fyrsta sólóplata semballeikarans Guðrúnar Óskarsdóttur, en hún hefur lengi verið meðal fremstu semballeikara hér á landi. Tónverk disksins eru öll samin handa Guðrúnu og eitt verkanna er eftir hana sjálfa. Hér renna margir þræðir saman í frábæra heild, prýðis tónsmíðar eru frábærlega fluttar og upptakan kristaltær. Öll ytri umgjörð er til fyrirmyndar og niðurstaðan er persónulegt listaverk sem allir sem að verki komu geta verið stoltir af.

Bryndís Halla Gylfadóttir – J.S. Bach, Sex svítur fyrir selló

Á þessum diski tekst Bryndís Halla Gylfadóttir með eftirminnilegum hætti á við sellósvítur Bachs. Bryndís hefur um árabil sett svip sinn á íslenskt tónlistarlíf og er túlkun hennar á meistaraverkum Bachs uppskera fullþroskaðs listamanns.

Schola Cantorum – Meditatio

Stórglæsilegur hljómdiskur Schola cantorum, Meditatio, trónir sem krúna á tuttugu ára starfstíð eins helsta kammerkórs landsins. Metnaður og heildarhugsun skín gegnum verkefnaval sem og uppröðun, og stórbrotin hljómgæði færa hljómdiskinn í hásæti út fyrir landsteina á meðal þess besta sem gerist.

Elfa Rún Kristinsdóttir – J.S.  Bach, Partítur fyrir einleiksfiðlu

Elfa Rún Kristinsdóttir tekst á við einhverja helstu mælistiku fiðlutónbókmenntanna, Partítur J.S. Bach, á nýjasta diski sínum. Óhætt er að fullyrða að útkoman standist allan samanburð og vel það. Elfa leikur þessi ódauðlegu meistaraverk Bachs af miklu listfengi og þroska. Enn ein rósin í hnappagat þessarar frábæru listakonu.

Jón Nordal – Choralis, Sinfóníuhljómsveit Ísland

Jón Nordal er eitt merkasta tónskáld Íslendinga fyrr og síðar. Á diskinum Choralis gefur að heyra fimm hljómsveitarverk Jóns frá 16 ára tímabili á síðari hluta 20. aldar og gefur verkefnavalið góða innsýn inn í tónsköpun hans fyrir sinfóníuhljómsveit.

 

TÓNVERK ÁRSINS

Hugi Guðmundsson – Hamlet in Absentia

Það er ekki í hverjum degi sem íslenskar óperur líta dagsins ljós þó svo að rofað hafi til í þeim efnum að undanförnu. Óperan Hamlet in Absentia eftir Huga Guðmundsson, sem frumflutt var í Krónborgarhöll á Sjálandi, sögusviði Hamlets, er frábær og mikilvæg viðbót við þá flóru. Verkið er afar sannfærandi tón- og sviðslistarleg heild þar sem stíleinkennum nútíma- og barokkóperu er listilega blandað saman.

Áskell Másson – Gullský

Tónverkið Gullský, einleiksverk fyrir þverflautu og hljómsveit, er tileinkað Melkorku Ólafsdóttur flautuleikara sem frumflutti verkið ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands. Grunnhugmynd verksins byggir á hugmynd tónskáldsins um „náttúrutóna“, „hina sérstæðu birtu og fyrirbæri himinsins“ eins og tónskáldið segir í efnisskrá tónleikanna. Verkið einkennist af fínlegum og kyrrum – margbrotnum – náttúrublæ sem ber með sér visst æðruleysi. Dulmögnuð og seiðandi náttúrustemmning dregin fram af blæbrigðaríkum hendingamótunum einleikara og hljómsveitar.

Haukur Tómasson – From Darkness Woven

Innblástur sköpunar getur komið víða að. Eitt okkar helsta tónskáld, Haukur Tómasson, mun hafa velt fyrir sér hverskonar tónlist vefstólar myndu gefa frá sér væru þeir hljóðfæri. Í verki sínu, From Darkness Woven, býr Haukur til þéttan, og á köflum myrkan, vef fyrir sinfóníuhljómsveit. Strengir og ásláttarhljóðfærin þétta vefinn, spunninn og ofinn, sem er dúlúðlegur og heillandi.

María Huld Markan Sigfúsdóttir – Aequora

María Huld Markan Sigfúsdóttir hefur á undanförnum árum verið með eftirtektarverðari tónskáldum yngri kynslóðarinnar. Að þessu sinni hlýtur hún tilnefningu fyrir verk sitt  Aequora, í því sýnir María Huld þroska í meðhöndlun á hljómsveitinni og sterka tilfinningu fyrir formi í sérlega innblásnu tónverki.

Anna Þorvaldsdóttir – Ad Genua

Anna Þorvaldsdóttir hefur komið víða við á undanförnum árum og verk hennar hafa verið flutt víða um heim og hvarvetna heillað áheyrendur. Í verkinu Ad Genua notast Anna við þann efnivið sem hún hefur þróað í hljóðfæratónlist sinni í heimi raddtónlistar. Útkoman er heillandi og fersk nálgun á andlega nútímatónlist.

 

SÖNGVARI ÁRSINS

Elmar Gilbertsson – fyrir hlutverk Lensky í Évgeni Onegin eftir Pyotr Ilyich Tchaikovsky í uppfærslu Íslensku Óperunnar

Elmar Gilbertsson hefur á síðustu árum sannað sig sem einn af fremstu tenórsöngvurum okkar. Í hlutverki Lenskis söng hann sig enn og aftur inn í hjörtu áhorfenda. Raddfegurð og góð skil á hinum rússneska stíl einkenndu flutning hans.

Kristinn Sigmundsson – fyrir söng sinn á tónleikunum Söngvar förusveinsins á Reykjavik Midsummer Music

Á lokatónleikum tónlistarhátíðarinnar Reykjavík Midsummer Music söng Kristinn Sigmundsson þýsk ljóð við meðleik valinkunnra tónlistarmanna, m.a. In der Fremde eftir Robert Schumann, Feuerreiter eftir Hugo Wolf og ljóðaflokk Gustav Mahler, Lieder einer fahrender Gesellen í útsetningu Arnold Schoenberg. Eldborg í Hörpu verður seint talin til auðveldustu ljóða- eða kammertónlistarsala en söngur Kristins kom jafnvel fínlegustu blæbrigðum tónlistar og ljóða til skila og sýndi vel þann yfirburða ljóðasöngvara sem þar er á ferð.

Oddur Arnþór Jónsson – fyrir titilhlutverkið í uppfærslu Íslensku óperunnar á Don Giovanni eftir W. A. Mozart.

Oddur Arnþór Jónsson hefur sýnt og sannað að hann veldur stórum óperuhlutverkum á eftirminnilegan hátt. Oddur fór á kostum í leik og söng sem Don Giovanni. Rödd hans féll einstaklega vel að hlutverkinu. Öryggi, fágun og sannfærandi leikur einkenndu flutning hans.

 

SÖNGKONA ÁRSINS

Þóra Einarsdóttir – fyrir hlutverk sitt sem Tatyana í Évgeni Onegin eftir Pyotr Ilyich Tchaikovsky í uppfærslu Íslensku Óperunnar

Þóra Einarsdóttir sýndi og sannaði að hún er ein fremsta sópransöngkona okkar í dag. Þóra var einstaklega trúverðug sem hin saklausa en líka harmi þrungna unga rússneska kona. Mikið litróf raddarinnar og hrífandi leikur einkenndu flutning hennar og sérlega góð skil á rússneskri tungu. Þetta var sannur leik- og söngsigur fyrir Þóru Einarsdóttur.

Hallveig Rúnarsdóttir – Fyrir flutning í 3. sinfóníu Henryk Góreckis ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Tõnu Kaljuste

Hallveig Rúnarsdóttir er ein af okkar allra bestu söngkonum og spannar efnisskrá hennar fjölbreytt litróf tónverka. Söngur Hallveigar og túlkun í 3. sinfóníu Góreckis var afar heillandi. Vel mótaðar laglínur og meistaraleg samvinna við hljómsveitina lagði sitt af mörkum til að skapa ógleymanlega stund fyrir þá sem á hlýddu.

Sigríður Ósk Kristjánsdóttir – fyrir flutning á kantötunni Lucrezia eftir G.F. Handel, ásamt barokkhljómsveitinni Symphonia Angelica á Listahátíð í Reykjavík

Sigríður Ósk kristjánsdóttir hefur sýnt mikla hæfileika á mörgum sviðum sem söngkona. Í flutningi hennar á Lucreziu komu fram einstaklega góð tök á barokkstíl. Hreinleiki og raddfegurð, en jafnframt kraftur einkenndu flutning hennar.

 

TÓNLISTARFLYTJANDI ÁRSINS

Edda Erlendsdóttir – fyrir einleikstónleika á Myrkum músikdögum 2016

Edda Erlendsdóttir bauð upp á sérlega áhugaverða efnisskrá á einleikstónleikum á Myrkum músíkdögum 2016: spunakennt tónverk eftir Tom Manoury, Majka, fyrir píanó og rauntímavinnslu gegnum tölvu, Prelude Plainte Calme eftir Olivier Messiaen og 12 etýður Debussy ásamt sjaldheyrðum prelúdíum eftir Henri Dutilleux.  Vel sóttir tónleikarnir voru haldnir í Norðurljósum en frábær píanóleikur Eddu færði afar persónulega efnisskrá nær áhorfendum þannig að áheyranda leið nánast eins og um einkatónleika væri að ræða.

Guðný Einarsdóttir – fyrir einleikstónleika á Myrkum Músikdögum þar sem leikin voru öll orgelverk Jóns Nordal

Guðný Einarsdóttir orgelleikari steig með áberandi hætti fram á árinu á tónleikum í Dómkirkjunni þar sem öll fimm orgelverk Jóns Nordal voru flutt til heiðurs tónskáldinu á níræðisafmæli hans. Guðný flutti verk tónskáldsins af listfengi og næmni og voru tónleikarnir einstakur viðburður.

Melkorka Ólafsdóttir – Fyrir flutning á Gullskýi, flautukonserti Áskels Mássonar

Flautuleikarinn Melkorka Ólafsdóttir er í fremstu röð tónlistarmanna af yngri kynslóðinni. Henni var falið einleikshlutverkið við frumflutning á verki Áskels Mássonar, Gullský. Í kyngimögnuðum meðförum Melkorku fékk þetta dulúðlega og innblásna tónverk listræna vængi og sveif um hlustir þeirra er á hlýddu, eins og gullský.

Nordic Affect – Warm life at the foot of the iceberg, tónleikar á NMD 2016

Nordic Affect bauð upp á framúrskarandi tónleika á Norrænum músíkdögum 2016 þar sem flutt voru verk eftir Önnu Þorvaldsdóttur, Mirjam Tally, Hildi Guðnadóttur, Georg Kára Hilmarsson, Höllu Steinunni Stefánsdóttur og Úlf Hansson. Hefðbundið tónleikaform var brotið upp, bæði með uppröðun í Norðurljósasalnum og dagskrárröðun tónverkanna, jafnvel þátttöku áheyrenda. Hnökra- og, að því er virtist, áreynslulaus tónlistarflutningur, umhverfi og nálgun skapaði einstaka nánd við áheyrendur sem gleymist seint þeim sem tónleikana sóttu.

Schola Cantorum

Tuttugasta starfsár Schola Cantorum var afar öflugt. Efnisskrá kórsins var metnaðarfull og fól m.a. í sér frumflutning á Requiem eftir Sigurð Sævarsson og Fyrir ljósi myrkrið flýr eftir Huga Guðmundsson auk Sálumessu eftir Kjell Mörk Karlsen. Kórinn lauk starfsárinu með flutningi Jólaóratoríu J.S. Bach ásamt Alþjóðlegu barokksveitinni í Hallgrímskirkju. Einsöngvarar komu úr röðum kórmeðlima og auðheyrt að í kórnum er valinn maður í hverju rúmi. Á skírdagskvöld flutti kórinn endurreisnartónlist m.a. Miserere eftir Allegri. Sá flutningur ásamt tónlistarflutningi kórsins á útgáfutónleikum disksins Meditatio sýndi gæðasöng kórsins í réttu ljósi – söng sem einkennist af einstaklega fallegri tónmyndun og samhæfingu.

 

TÓNLISTARVIÐBURÐUR ÁRSINS

Évgeni Onegin – eftir Pyotr Ilyich Tchaikovsky í uppfærslu Íslensku Óperunnar

Íslenska óperan flutti Évgeni Onegin í annað sinn og verður sýningin að teljast stórviðburður í sögu Íslensku óperunnar. Flutningur söngvara, kórs og hljómsveitar í styrkri leik- og hljómsveitarstjórn var af hæstu gæðum og gerði sýninguna að einni af bestu uppfærslum ÍÓ í Hörpu.  Flutningurinn á frummálinu, rússnesku, ljáði tónmáli Tschaikovskys sannan lit.  Sýningin einkenndist af fegurð og fágun bæði sjón- og hljóðrænt og var einstök upplifun.

UR_ – ópera eftir Önnu Þorvaldsdóttur í uppfærslu á Listahátíð Reykjavíkur

Kammerópera Önnu Þorvaldsdóttur, UR_, var flutt á Listahátíð í Reykjavík 2016 í fyrsta sinn á Íslandi, en óperan var frumflutt í Þýskalandi haustið 2015. Óperan er óræð og óhefðbundin og gerir miklar kröfur til áheyrenda. Uppfærslur á íslenskum óperum eru afar sjaldgæfar og var uppfærsla UR_ því sannarlega ögrandi hvalreki í íslensku tónlistarlífi.

Arvo Pärt og Hamrahlíðarkórarnir  – Sinfóníuhljómsveit Íslands

Tónlist Arvo Pärts og Hamrahlíðarkórarnir undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur hafa í huga margra sterka tengingu, allt frá því að Hamrahlíðarkórarnir og Kammersveit Reykjavíkur fluttu Te Deum í febrúar 1998, að tónskáldinu viðstöddu.

Á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í mars 2016 flutti hljómsveitin ásamt Hallveigu Rúnarsdóttur og Hamrahlíðarkórunum tónlist Arvo Pärts og Henryks Góreckis með djúpum skilningi á stíl og innihaldi, undir styrkri stjórn hljómsveitarstjórans Tõnu Kaljuste. Magnaður flutningur sem einkenndist af kyrrð, dulúð og trega.

Orgelverk Jóns Nordal – í flutningi Guðnýjar Einarsdóttur á tónleikum á Myrkum Músikdögum

Á tónleikunum voru öll orgelverk Jóns Nordal, fimm talsins, flutt til heiðurs tónskáldinu í tilefni af níræðisafmæli þess. Tónleikarnir voru haldnir í Dómkirkjunni en verkin tengjast kirkjunni öll á einn eða annan hátt ásamt því að spanna fimmtíu og sex ár af ferli tónskáldsins frá 1945 til 2001. Jón Nordal hefur samið fjölmörg hljómsveitarverk, kór- og kammertónlist en aðeins fáein einleiksverk og telja orgelverkin meirihluta þeirra. Tónleikarnir, með heildarflutningi orgelverka Jóns Nordals var einstakur viðburður sem sker sig úr hérlendri tónleikaflóru.

Upphafstónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands – Lugansky og Tortelier

Sinfóníuhljómsveit Íslands gaf upptaktinn að metnaðarfullu starfsári með glæsilegum tónleikum í Eldborg undir stjórn nýs aðalhljómsveitarstjóra og glæsilegs einleikara. Nikolai Lugansky fór á kostum í 3. píanókonserti Rachmaninovs og Yan Pascal Tortelier og Sinfóníuhljómsveitin gerðu balletttónlist Ravels um Dafnis og Klóa að ógleymanlegum tónlistarviðburði.

PLATA ÁRSINS – LEIKHÚS- OG KVIKMYNDATÓNLIST

Kristjána Stefáns og Bergur Þór Ingólfsson – Blái hnötturinn

Leikverkið Blái hnötturinn, sem hefur hrifið kynslóðir á öllum aldri, byggir á samnefndri bók Andra Snæs. Stórgóð og fjölbreytt tónlist Kristjönu Stefánsdóttur rammar inn þessa fallegu leiksýningu.

Jóhann Jóhannson – Arrival

Jóhann Jóhannsson hefur á undanförnum árum markað sér sess meðal fremstu tónsmiða kvikmyndatónlistar í heiminum í dag. Hér beitir Jóhann frumlegri nálgun á framandi viðfangsefni og notar mannsröddina sem eitt helsta hljóðfæri verksins. Einkar áhugaverður tónheimur þar sem mynd og tónmál renna saman í einstaka heild.

Úlfur Eldjárn – InnSæi: The sea within

Tónlist Úlfs Eldjárns við kvikmyndina InnSæi er einkar vel heppnuð. Sterkur þráður liggur í gegnum verkið og seyðandi laglínur kveikja strax sterka tilfinningu fyrir nærandi stemningu í anda núvitundar. Tónmál sem svo sannarlega styður við magnað myndmál um eitt af brýnustu viðfangsefnum samtímans.

 

PLATA ÁRSINS – OPINN FLOKKUR

My Bubba – Big Bad Good

Þær stöllur seyða fram látlausa og einlæga þjóðlagatónlist sem býr um leið yfir ókennilegum galdri sem erfitt er að útskýra. Raddirnar eru hrífandi og tilfinningahlaðnir textarnir vekja upp hughrif þeirra sem hlusta án þess þó að örli á væmni. Heiðarlegt, stöndugt og fallegt verk.

Gyða Valtýsdóttir – Epicycle

Á plötunni Epcycle býður sellóleikarinn og fjöllistakonan Gyða Valtýsdóttir upp í kyngimagnaða og persónulega reisu um akra tónlistarsögunnar. Allt frá hinni forn-Grísku grafskrift Seikilosar og fram 20. öldina. Gyða er þó fararstjórinn í þessari ferð og setur sannarlega sinn stimpil á þau verk sem hún flytur á þessari mögnuðu plötu.

Tómas R Einarsson – Bongo

Bassaleikarinn og tónskáldið Tómas R. Einarsson er vel heima þegar tónlist suður-Ameríku, einkum Kúbu, er annars vegar. Á þessum nýjasta diski sínum, Bongó, fær Tómas einvalalið hljóðfæraleikara til liðs við sig og færir suðrænan hrynhita inn í íslenskan veruleika þar sem frábærir textar ramma inn íslenska þjóðarsál.

Amiina – Fantómas

Ískyggilegum efnivið eru gerð glæst skil á þessu mjög svo heildstæða verki. Leiðarstefið er knýjandi og setur hlustandann á bríkina fremur en að róa hann niður. Stemmurnar byggjast venjulega upp hægt en sígandi, og það er eitthvað voðalegt í gangi undir niðri. Fullkomið undirspil við draugasögulestur á síðkvöldi.

Tómas Jónsson – Tómas Jónsson

Píanó- og hljómborðsleikarinn Tómas Jónsson er án efa einn af efnilegri tónlistarmönnum yngri kynslóðarinnar. Hann hefur komið víða við og leyst ólík verkefni af slíkri fagmennsku að eftir hefur verið tekið. Á sinni fyrstu sólóplötu býður Tómas áheyrendum upp í ferðalag sem allt frá fyrsta tóni er í senn forvitnilegt og nærandi. Hjóðheimur og nálgun koma á óvart, en niðurstaðan er heillandi og fersk.

Arnar Guðjónsson – Grey mist of Wuhan

Grey mist of Wuhan er óvanalegt verk þar sem kínverska borgin Wuhan er tónsett með verklagi kvikmyndatónskálds. Arnar fangar kaldhamraða fegurð þessarar svæsnu iðnaðarborgar af miklu listfengi, drungalegir hljóðgervlar og fjarlægar kórraddir sameinast í hægri, naumhyggjulegri framvindu sem er í senn melankólísk og upplyftandi.

 

TÓNLISTARHÁTÍÐ ÁRSINS

Eistnaflug

Aðstandendur Eistnaflugs hafa byggt upp alþjóðlega þungarokkshátíð austur á fjörðum af óvenju miklum myndarbrag. Gleði og samfélagsleg ábyrgð er leiðarstef og hátíðin er orðin þekkt – bæði hérlendis sem erlendis – fyrir góðan og gefandi anda sem svífur yfir vötnum alla hátíðisdagana. Við bætist að viðburðir eru í hæsta gæðaflokki!

Mengi

Tónlistin, líkt og aðrar listgreinar, þarfnast þess að grasrótin sé nærandi og öflug. Til þess að svo megi verða þarf að vera til frjór jarðvegur. Mengi við Óðinsgötu hefur gegnt gríðarmikilvægu hlutverki sem sá gjöfuli jarðvegur sem grasrótin þarf til að þróast og þroskast. Mengi hefur markað sér stöðu í íslensku listalífi sem heimili frjórrar sköpunar í víðum skilningi.

Iceland Airwaves

Hátíðin Iceland Ariwaves gegnir í raun tvíþættu hlutverki. Hún er bæði kröftug uppskeruhátíð íslenska dægurtónlistarbransans en um leið mikilvægasti vettvangur fyrir nýja og frjóa sköpun í tónlist til þess að ná eyrum og augum erlendra aðila. Framkvæmdateymi Iceland Airwaves samþættir vel í sinni listrænu stefnumótun bæði hlutverkin; að þjóna nú-inu og sá fræjum til framtíðar.

Cycle

Listahátíðin Cycle er ferskur andblær inn í hátíðarflóru landsins. Cycle er hugsuð sem vettvangur fyrir samtal á milli samtímatónlistar og samtímamyndlistar og er óhætt að segja að snertifletirnir séu í senn margir og spennandi milli þessara listgreina.

Óperudagar í Kópavogi

Á Óperudögum í Kópavogi er óperuformið nálgast á frumlegan og nýstárlegan hátt. Efnisskráin spannaði allt frá árdögum óperuformsins með Monteverdi og til glænýrrar óperu um fótbolta! Spennandi, frjó og frumleg hátíð og mikil fagmennska í flutningi.

 

MYNDBAND ÁRSINS

Kaleo – Save Yourself / Myndband: Eyk Studio.

Myndband Kaleo við lagið Save Yourself nær vel að fanga fegurð Fjallsárlóns og ljóst er að hljómsveitin nýtur sín fullkomlega við flutning sinn standandi á ísjaka úti í miðju lóni. Tregafullt lagið fellur vel að myndmálinu sem gæti vart verið þjóðlegra en um leið er öll umgjörð sannfærandi og svöl.

Emmsjé Gauti – Reykjavík / Myndband: Freyr Árnason

Það er ekki líklegt að Emmsjé Gauti og félagar hans séu loftræddir því myndbandið við Reykjavík er fimleg flugferð um þök þekktra bygginga í Reykjavík.  Virkilega vel uppbyggt myndband sem er hvort um sig spennandi og vel útfært ferðalag um Reykjavík þvera og endilanga við eitt af lögum ársins.

Friðrik Dór – Dönsum / Myndband: Jakob Gabríel Þórhallsson.

Með ótrúlegri hæfni og frumleika nær Jakob Gabríel að gera litríka veislu fyrir augað sem hæfir taktföstum smelli Friðriks Dór fullkomlega. Dönsum (eins og hálfvitar) er myndband sem hittir í mark og er gott dæmi um góða hugmynd sem gengur upp.  

Sigur Rós – Óveður / Myndband: Jonas Åkerlund.

Hljómsveitin Sigur Rós hefur oft áður sent frá sér stórbrotin myndbönd á litríkum ferli sínum. Óveður fer tvímælalaust í flokk með eftirminnilegri og áhrifameiri verka þeirra og er það ekki síst fyrir frábæra túlkun og dans Ernu Ómarsdóttur sem fer á algjörum kostum.

Axel Flóvent – Your Ghost / Myndband: Niels Bourgonje.

Your Ghost er afar fallegt og áhrifaríkt myndband við ljúfsárt lag Axel Flóvent. Myndbandið nær að fanga áhorfandann þar sem það kallast á við gamla tíma, náttúrufegurð og sveitarómantík en um leið vekja upp hlýjar tilfinningar.

Júníus Meyvant – Neon Experience / Myndband: Hannes Þór Arason.

Júníus Meyvant svífur hér um á hjólabrettinu sínu og fer með áhorfandann í skemmtilegt ferðalag um Heimaey í fallega innrömmuðu myndbandi sem smellpassar við hrynfagurt lagið Neon Experience þar sem skilaboðin eru einfaldlega þau að horfa björtum augum á lífið því á morgun er nýr dagur með ný ævintýri.

One Week Wonder – Mars / Myndband: Baldvin Albertsson.

Sögur af geimferðum eru ekki algengar í íslenskum tónlistarmyndböndum en í laginu Mars er farið alla leið með söguna um einmana bókasafnsvörð sem dreymir um dularfullar stjörnur í órafjarlægð og ferðlög um himingeiminn. Frumlegt og fagmannlega unnið myndband sem nær að segja góða sögu á áhrifaríkan hátt.  

Samaris – wanted 2 say / Myndband: Þóra Himarsdóttir.

Myndbandið við Wanted 2 Say nær að fanga áhorfandann frá fyrstu mínútu. Sá dularfulli og djarfi taktur sem umlykur lagið er spunninn faglega inn í myndbandið með frábærum dansrútínum sem og æsispennandi söguþræði þar sem dökkrauður máninn ærir og dregur á tálar.

Sin Fang (Feat Jónsi) – Candyland / Myndband: Ingibjörg Birgisdóttir.

Myndbandið við lagið Candyland frá Sin Fang er listalega úr garði gert. Draumkenndur sýndarveruleiki og ævintýralendur myndbandsins eru jafnsætar og kandífloss um leið og þær eru eins og viðsjárvert Húbbabúbba-tyggjó sem engin leið er að losna við. Stórbrotið ævintýri og myndbandagerð á háu plani.

GKR – Meira / Myndband: GKR.

Lagið Meira frá GKR er algjör negla og myndbandið passar svo sannarlega vel við lag og texta. Krafturinn er keyrður í botn og GKR geislar af sjálfsöryggi. Hér er ekki verið að slaka á því nóg er aldrei nóg og það fer ekki á milli mála þegar á er horft.

 

PLÖTUUMSLAG ÁRSINS

Júníus Meyvant – Floating harmonies / Hönnun: Unnar Gísli Sigurmundsson

Fallegt plötualbúm, stílhreint og fágað. Fellur vel að ljóðrænum tónsmíðum hljómdisksins. Floating Harmonies – hittir beint í mark!

GKR - GKR EP / Hönnun: Sigurður Ýmir og Thorir Celin

Nálgun á umslagi sem er í senn einstaklega frumleg, hnittin og skemmtileg. Skemmtileg vísun í eitt laga plötunnar. Ómótstæðilegt umslag.

Sin Fang - Spaceland / Hönnun: Ingibjörg Birgisdóttir

Snilldarhönnun sem kallast skemmtilega á við fyrri verk Sin Fang um leið og það undirstingur á vissan hátt innihaldið.

Retro Stefson – Scandinavian pain / Hönnun: Ragnar Kjartansson

Ískrandi kímnigáfa sem hittir beint í hjartastað. Norræn pína í neonraunheimi.

Gyða Valtýsdóttir – Epicycle / Hönnun: Gyða Valtýsdóttir og Goddur

Sami listræni metnaðurinn einkennir plötuumslagið Epicycle og sjálfa plötuna. Glæsilegt í alla staði.