Íslensku tónlistarverðlaunin

Íslensku tónlistarverðlaunin

kt. 590297-2329

Bankanúmer: 515-26-721803

Rauðagerði 27, 105 Reykjavík

Framkvæmdastjórn

Framkvæmdastjórn Íslensku tónlistarverðlaunanna

Ný stjórn hefur tekið til starfa fyrir ÍSTÓN 2016, og er hún þriggja manna stjórn þar sem einn stjórnarmeðlimur er forsvarsmaður STEF, og tveir forsvarsmenn SFH. Mikael Lind er forsvarsmaður STEF og þau Margrét Eir Hönnudóttir og Jóhann Ágúst Jóhannsson eru forsvarsmenn SFH – Margrét Eir á vegum flytjenda og Jóhann Ágúst á vegum hljómplötuframleiðenda.

Saga

Sögu íslenskra tónlistarverðlauna má rekja aftur til ársins 1960 þegar Svavar Gests hélt úti poppsíðu í vikublaðinu Ásinn og tveimur árum síðar hjá Vikunni. Íslensk tónlistarverðlaun hafa þó verið slitrótt og ekki dró til tíðanda aftur fyrr en árið 1967 þegar Vikan endurvakti verðlaunin í samstarfi við tískuvöruverslunina Karnabæ. Árið 1969 var síðan ungur piltur úr Hafnarfirði, Björgvin Halldórsson, valin poppstjarna ársins og hljómsveit hans, Ævintýri, besta hljómsveitin. Eftir þessa sögulegu keppni í Laugardagshöll varð langt hlé þar til Dagblaðið stóð fyrir Stjörnumessunum í nokkur ár. Það var síðan árið 1993 að nokkrir félagar úr Rokkdeild FÍH með þá Stefán Hjörleifsson og Eið Arnarsson í fararbroddi endurvöktu Íslensku tónlistarverðlaunin í núverandi mynd. Það var meðvituð ákvörðun þeirra félaga að byrja smátt og öðrum þræði var litið á verðlaunahátíðina sem árshátíð tónlistarbransans. Tilnefnt var í fjórtán flokkum og hlaut hljómsveitin Todmobile flest verðlaun. Fyrsta árið voru veitt verðlaun í flokki popp- og rokktónlistar, ári síðar bættist jazz við og árið 1995 voru fyrst veitt verðlaun í flokki sígildrar og samtímatónlistar. Með árunum hafa síðan íslensku tónlistarverðlaunin stækkað og dafnað og njóta nú virðingar meðal almennings og tónlistarfólks. Undanfarin ár hefur hátíðin verið öll hin glæsilegasta og meðal annars verið send út í Sjónvarpinu með mikið áhorf. Afhending Íslensku tónlistarverðlaunanna 2005 var t.a.m. 8. vinsælasta sjónvarpsefnið í íslensku sjónvarpi í janúarmánuði 2006 samkvæmt skoðanakönnun Gallups. Síðan hefur útsending í sjónvarpi mælst með um eða yfir 50%. Árið 2002 tók Samtónn við stjórn verðlaunanna. Samtónn skipar þriggja manna stjórn verðlaunanna þmt framkvæmdastjóra. Framkvæmdastjóri Íslensku tónlistarverðlaunanna á árunum 2001- 2004 var Einar Bárðarsson og frá 2005 – 2006  Berglind María Tómasdóttir. Pétur Grétarsson var framkvæmdarstjóri verðlaunanna frá 2007 – 2010 og María Rut Reynisdóttir var framkvæmdastjóri árin 2011 og 2012 en frá því snemma árs 2014 hefur Eiður Arnarsson gegnt stöðu framkvæmdastjóra samhliða María Rut. Aðrir í stjórn eru Róbert Þórhallsson og Helgi Björnsson.

Markmið

Markmið Íslensku tónlistarverðlaunanna er að vera uppskeruhátíð íslenska tónlistargeirans þar sem það sem vel er gert er hafið til vegs og virðingar. Á sama tima eru Íslensku tónlistarverðlaunin kjörið tækifæri til að kynna íslenska tónlist fyrir landi og þjóð með það að markmiði að auka umtal og í kjölfarið sölu. Núverandi stjórn Íslensku tónlistarverðlaunanna hefur einnig sett sér það markmið að gera verðlaunin að alþjóðlega viðurkenndum verðlaunum t.d. með því að fá meira umtal um tilnefningar til verðlaunanna og vinningshafa í erlendum miðlum. Það á að vera eftirsóknarvert að fá Íslensku tónlistarverðlaunin og ættu erlendir aðilar að geta litið til verðlaunanna til að sjá það áhugaverðasta og besta í íslenskri tónlist hverju sinni.

Ístónninn

Verðlaunagripur Íslensku tónlistarverðlaunanna er Ístónninn sem veittur hefur verið við afhendingu Íslensku tónlistarverðlaunanna frá árinu 2001.

 

Um hönnuðinn

Inga Elín (f. 22. sept. 1957) hefur gegnt störfum í fulltrúaráði Sambands íslenskra myndlistarmanna og sat í stjórn félagsins á árunum 2000 – 2002. Hún stofnaði Gallerí Ingu Elínar í Reykjavík árið 1994 og starfrækti það í sjö ár. Listakonan Inga Elín hefur haldið allmargar einkasýningar bæði á Íslandi og í Bretlandi og tekið þátt í fjölda samsýninga á Norðurlöndum sem og á Íslandi. Hún hefur hannað og unnið ýmis verk fyrir kokkalandsliðið í fjöldamörg ár. Inga Elín var tilnefnd til Menningarverðlauna DV fyrir myndlist árið 1994 og sex árum áður hlaut hún Kunsthandværkerprisen af 1879 verðlaunin í Kaupmannahöfn. Árið 1997 var Inga Elín bæjarlistamaður Mosfellsbæjar. Helstu verksvið og verkefni Ingu Elínar eru hönnun, glerlist, postulín, steinsteypa, leirlist, glersteypa og skúlptúr.

Íslensku tónlistarverðlaunin eru haldin fyrir tilstuðlan hagsmunasamtaka tónlistarinnar undir merkjum Samtóns.

spons