Plata ársins – Rokk

Kaleo – A/B

Einstaklega grípandi melodískt rokk þar sem allt smellur saman; þétt spilamennska, góðar laga- og textasmíðar og einstakur söngur.

Plata ársins – Popp

Júníus Meyvant – Floating harmonies

Júníus Meyvant kom eins og ferskur stormsveipur inn í íslenska tónlistarsenu með framúrskarandi lagasmíðum sem náð hafa mikilli útbreiðslu og spilun.  Klassapopp.

Plata ársins – Raftónlist

Samaris – Black Lights

Samaris hefur aldrei hljómað jafn rafbundin og á nýjustu plötu sinni, Black Lights. Sungið er á ensku og alltumlykjandi flæðið er dularfullt, þar sem seyðandi rödd Jófríðar Ákadóttur er í forgrunni.

Plata ársins – Rapp og hip hop

Emmsjé Gauti – Vagg & velta

Emmsjé Gauti gaf ekki út eina, heldur tvær breiðskífur, á síðasta ári. Fjöldi vinsælla laga og mörg samvinnuverkefni undirstrika sterka stöðu Gauta í íslensku rappi.

Lag ársins – Rokk

Valdimar – Slétt og fellt

Lagið Slétt og fellt með hljómsveitinni Valdimar sameinar sterka ádeilu, góða lagasmíð og óaðfinnanlegan flutning að vanda.

Lag ársins – Popp

Hildur – I’LL WALK WITH YOU

Grípandi poppmelódía frá Hildi Kristínu sem stimplar sig rækilega inn með þessu lagi. Það er örðugt að hrista þennan vel heppnaða slagara úr hausnum.

Lag ársins – Rapp og hip hop

Emmsjé Gauti – Silfurskotta

Emmsjé Gauti og Aron Can leiða hér hesta sína saman og útkoman er gulls ígildi.

Söngkona ársins

Samaris – Jófríður Ákadóttir

Draumkenndur og seiðandi söngur Jófríðar töfrar þig inn í annan veruleika. Feimni í bland við kvenleika einkennir framkomu og stíllinn er náttúrulegur.

Söngvari ársins

Kaleo – Jökull Júlíusson

Jökull hefur vakið athygli fyrir frábæra rödd sem einkennir lög Kaleo. Blúsuð, kraftmikil og svo hrá að hún nístir inn að beini. Söngur Jökuls fangar svo sannarlega athyglina.

Textahöfundur ársins

Emmsjé Gauti – Gauti Þeyr Másson

Spaugsamar en um leið sannferðugar lýsingar á ungmennalífi Reykjavíkurborgar. Einstaklega orðheppinn Gauti.

Lagahöfundur ársins

Emmsjé Gauti – Gauti Þeyr Másson

Emmsjé Gauti sýndi fram á glúrna fjölhæfni í lagasmíðum, er rólegur og æstur á víxl og ansi séður í að draga til sín frambærilega samstarfsaðila.

Tónlistarviðburður ársins

Jólatónleikar Baggalúts

Jólatónleikar Baggalúts eru orðinn fastur liður hjá þorra landsmanna á aðventunni en Baggalútur hélt heila 17 tónleika í desember fyrir stappfullu húsi í Háskólabíói og var öllu tjaldað til.

Tónlistarflytjandi ársins

Emmsjé Gauti

Óhætt er segja að Emmsjé Gauti hafi „átt“ árið í fyrra; gaf út tvær plötur, var áberandi á tónleikum og í fjölmiðlum, vann eftirtektarverð myndbönd, gaf út tölvuleik og kynnti auk þess eigin fatalínu! Gauti stendur nú fremstur í stafni í hinni yfirgangandi rappbylgju og leysir öll sín mál með stæl.

Tónlistarmyndband ársins

One Week Wonder – Mars - Leikstjórn: Baldvin Albertsson

Plata ársins

Þorgrímur Jónsson Quintet – Constant Movement

Frumraun Þorgríms hefur að geyma fjölbreyttar lagasmíðar sem fara með mann í ferðalag aftur um nokkra áratugi.

Einkenni plötunnar er hlýr og umliggjandi hljómur. Fjölbreytt lög sem raðast saman í eina sterka heild.

Tónverk ársins

ADHD – Magnús Trygvason Elíasson

Skemmtilega útfært þrástef sem gengur í gegnum lagið. Hver einstaklingur leggur sitt fram og skapar heildrænan stíl.

Lagahöfundur ársins

Þorgrímur Jónsson Quintet – Þorgrímur Jónsson

Skemmtilega fjölbreyttar tónsmíðar sem vekja upp þáþrá til gullaldar Blue Note útgáfunnar eða til að taka skyndiákvörðun um að kaupa sér flugmiða til Berlínar; þar hlýtur að vera stemning.

Tónlistarflytjandi

Stórsveit Reykjavíkur

Einstaklega metnaðarfull og fjölbreytt verkefni á árinu. Stórsveitin hefur verið öflug í að fá til liðs við sig innlend sem erlend tónskáld og hefur haldið uppi reglulegu og öflugu tónleikastarfi.

Bjartasta vonin

Sara Blandon

Sara Blandon býr yfir magnaðri sviðsframkomu og hefur ótrúlegt vald á röddinni. Hún kemur söngtextum vel til skila með sinni einlægu túlkun þar sem húmorinn er aldrei langt undan.

Plata ársins

Guðrún Óskarsdóttir – In Paradisum

In Paradisum er fyrsta sólóplata semballeikarans Guðrúnar Óskarsdóttur, en hún hefur lengi verið meðal fremstu semballeikara hér á landi. Tónverk disksins eru öll samin handa Guðrúnu og eitt verkanna er eftir hana sjálfa. Hér renna margir þræðir saman í frábæra heild, prýðis tónsmíðar eru frábærlega fluttar og upptakan kristaltær. Öll ytri umgjörð er til fyrirmyndar og niðurstaðan er persónulegt listaverk sem allir sem að verki komu geta verið stoltir af.

Tónverk ársins

Hugi Guðmundsson – Hamlet in Absentia

Það er ekki í hverjum degi sem íslenskar óperur líta dagsins ljós þó svo að rofað hafi til í þeim efnum að undanförnu. Óperan Hamlet in Absentia eftir Huga Guðmundsson, sem frumflutt var í Krónborgarhöll á Sjálandi, sögusviði Hamlets, er frábær og mikilvæg viðbót við þá flóru. Verkið er afar sannfærandi tón- og sviðslistarleg heild þar sem stíleinkennum nútíma- og barokkóperu er listilega blandað saman.

Söngvari ársins

Elmar Gilbertsson – fyrir hlutverk Lensky í Évgeni Onegin eftir Pyotr Ilyich Tchaikovsky í uppfærslu Íslensku Óperunnar

Elmar Gilbertsson hefur á síðustu árum sannað sig sem einn af fremstu tenórsöngvurum okkar. Í hlutverki Lenskis söng hann sig enn og aftur inn í hjörtu áhorfenda. Raddfegurð og góð skil á hinum rússneska stíl einkenndu flutning hans.

Söngkona ársins

Þóra Einarsdóttir – fyrir hlutverk sitt sem Tatyana í í Évgeni Onegin eftir Pyotr Ilyich Tchaikovsky í uppfærslu Íslensku Óperunnar

Þóra Einarsdóttir sýndi og sannaði að hún er ein fremsta sópransöngkona okkar í dag. Þóra var einstaklega trúverðug sem hin saklausa en líka harmi þrungna unga rússneska kona. Mikið litróf raddarinnar og hrífandi leikur einkenndu flutning hennar og sérlega góð skil á rússneskri tungu. Þetta var sannur leik- og söngsigur fyrir Þóru Einarsdóttur.

Tónlistarflytjandi ársins

Schola Cantorum

Tuttugasta starfsár Schola Cantorum var afar öflugt. Efnisskrá kórsins var metnaðarfull og fól m.a. í sér frumflutning á Requiem eftir Sigurð Sævarsson og Fyrir ljósi myrkrið flýr eftir Huga Guðmundsson auk Sálumessu eftir Kjell Mörk Karlsen. Kórinn lauk starfsárinu með flutningi Jólaóratoríu J.S. Bach ásamt Alþjóðlegu barokksveitinni í Hallgrímskirkju. Einsöngvarar komu úr röðum kórmeðlima og auðheyrt að í kórnum er valinn maður í hverju rúmi. Á skírdagskvöld flutti kórinn endurreisnartónlist m.a. Miserere eftir Allegri. Sá flutningur ásamt tónlistarflutningi kórsins á útgáfutónleikum disksins Meditatio sýndi gæðasöng kórsins í réttu ljósi – söng sem einkennist af einstaklega fallegri tónmyndun og samhæfingu.

Tónlistarviðburður ársins

Évgeni Onegin – eftir Pyotr Ilyich Tschaikovsky í uppfærslu Íslensku Óperunnar

Íslenska óperan flutti Évgeni Onegin í annað sinn og verður sýningin að teljast stórviðburður í sögu Íslensku óperunnar. Flutningur söngvara, kórs og hljómsveitar í styrkri leik- og hljómsveitarstjórn var af hæstu gæðum og gerði sýninguna að einni af bestu uppfærslum ÍÓ í Hörpu.  Flutningurinn á frummálinu, rússnesku, ljáði tónmáli Tschaikovskys sannan lit. Sýningin einkenndist af fegurð og fágun bæði sjón- og hljóðrænt og var einstök upplifun.

Bjartasta vonin

Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands

Ungsveitina skipa fremstu hljóðfæranemar landsins og er þeim í aðdraganda tónleika gert kleift að vinna undir leiðsögn frábærra listamanna og kynnast vinnubrögðum eins og þau gerast hjá atvinnuhljómsveitum um allan heim.

Plata ársins – Opinn flokkur

Gyða Valtýsdóttir – Epicycle

Á plötunni Epicycle býður sellóleikarinn og fjöllistakonan Gyða Valtýsdóttir upp í kyngimagnaða og persónulega reisu um akra tónlistarsögunnar. Allt frá hinni forn-Grísku grafskrift Seikilosar og fram 20. öldina. Gyða er þó fararstjórinn í þessari ferð og setur sannarlega sinn stimpil á þau verk sem hún flytur á þessari mögnuðu plötu.

Plata ársins – Leikhús- og kvikmyndatónlist

Jóhann Jóhannson – Arrival      

Jóhann Jóhannsson hefur á undanförnum árum markað sér sess meðal fremstu tónsmiða kvikmyndatónlistar í heiminum í dag. Hér beitir Jóhann frumlegri nálgun á framandi viðfangsefni og notar mannsröddina sem eitt helsta hljóðfæri verksins. Einkar áhugaverður tónheimur þar sem mynd og tónmál renna saman í einstaka heild.

Tónlistarhátíð ársins

Eistnaflug

Aðstandendur Eistnaflugs hafa byggt upp alþjóðlega þungarokkshátíð austur á fjörðum af óvenju miklum myndarbrag. Gleði og samfélagsleg ábyrgð er leiðarstef og hátíðin er orðin þekkt – bæði hérlendis sem erlendis – fyrir góðan og gefandi anda sem svífur yfir vötnum alla hátíðisdagana. Við bætist að viðburðir eru í hæsta gæðaflokki!

Umslag ársins

Gyða Valtýsdóttir – Epicycle - Gyða Valtýsdóttir og Goddur

Sami listræni metnaðurinn einkennir plötuumslagið Epicycle og sjálfa plötuna. Glæsilegt í alla staði.

Rut Ingólfsdóttir

Rut var konsertmeistari Kammersveitar Reykjavíkur og Bachsveitarinnar í Skálholti. Hún starfaði ennfremur í Sinfóníuhljómsveit Íslands í áratugi. Hún hefur haldið fjölda einleikstónleika, gefið út sólóplötur og fjölda hljómdiska í samstarfi við aðra. Hún er einn af 12 stofnendum Kammersveitar Reykjavíkur og listrænn stjórnandi í 40 ár. Megintilgangur með stofnun Kammersveitar Reykjavíkur var að auðga íslenskt tónlistarlíf með því að gefa áheyrendum kost á að hlýða á fyrsta flokks tónlistarflutning frá ýmsum tímabilum tónlistarsögunnar, allt frá barokktímanum til nútímans og um leið að gefa hljóðfæraleikurunum tækifæri  að glíma við áhugaverð og fjölbreytt verkefni.