Tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2020

Vök, Hatari, Hipsumhaps, Ingi Bjarni, Sykur og Sinfóníuhljómsveit Íslands með flestar tilnefningar 

 

Kunngert hefur verið hverjir hljóta tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2020 eftir magnað tónlistarár 2019. Verðlaunin verða veitt í Silfurbergi Hörpu miðvikudagskvöldið 11. mars.

Tónlistarárið 2019 verður lengi í minnum haft fyrir margar sakir. Sköpunarkraftur og áræðni íslensks tónlistarfólks fór ekki framhjá neinum, hvorki hér heima né erlendis en þar skal á engan halla þegar tekið er út framlag Hildar Guðnadóttur með tónlist sinni við sjónvarpsþættina Chernobyl og kvikmyndina Joker. Hægt væri að telja upp fjölda annarra skrautfjaðra íslensks tónlistarfólks á árinu en í sömu mund getum við einnig gleðst yfir gríðarlegri nýliðun og óvenju spennandi hlutum sem eru að gerjast innan þessarar greinar.

Innsendingar til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2020 gáfu góða mynd af afar blómlegu tónlistarstarfi ársins 2019 á öllum sviðum tónlistar en talsverð aukning varð á milli ára í öllum verðlaunaflokkum. Flestar tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir tónlistarárið 2019 hljóta: Vök, Sykur, Ingi Bjarni Skúlason, Hatari, Hipsumhaps, Grísalappalísa, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Íslenska Óperan, Myrkir Músíkdagar, ADHD og Einar Scheving.

Í flokki popp- og rokktónlistar mátti sjá mikla breidd í tilnefningum. Hljómsveitin Vök hlýtur flestar tilnefningar í ár eða alls átta talsins en plata sveitarinnar In the Dark hefur vakið verðskuldaða athygli hér heima sem og erlendis. Engan skal undra að gjörningahópurinn Hatari fái margar tilnefningar fyrir magnaða frammistöðu sína á síðasta ári en sveitin landar hvorki meira né minna en sjö tilnefningum. Sömuleiðis vekja nýliðarnir í Hipsumhaps athygli fyrir sínar sex tilnefningar í ár sem er afar glæsilegur árangur hjá nýliða. Stuðsveitin Sykur heillaði marga með plötu sinni JÁTAKK og fær hvorki meira né minna en fimm tilnefningar. Loks er það ljúfsárt að sjá að Grísalappalísa, sem hyggst leggja hljóðfæri sín á hilluna innan tíðar, fær fimm tilnefningar. Vonandi nógu margar til að snúa frá villu síns vegar. 

Í flokki sígildrar og samtímatónlistar var sömuleiðis mikið um dýrðir á nýliðnu ári. Verkefni Sinfóníuhljómsveitar Íslands bera þess glöggt merki, fær alls fimm tilnefningar í ár og Íslenska óperan landar þremur, m.a. fyrir frábæra útfærslu á La Traviata. Tónlistarhátíðin Myrkir músikdagar gerði meira en að festa sig rækilega í sessi sem einn af tónlistarviðburðum ársins en hún fær fjórar tilnefningar í þetta sinnið. Í flokki djass og blústónlistar er Ingi Bjarni Skúlason atkvæðamestur með fimm tilnefningar fyrir sínar margslungnu tónsmíðar á plötunni Tengingu en svo koma í humátt eftir Inga, ADHD, Sigurður Flosason og Einar Scheving með þrjár tilnefningar.

Í opnum flokki hlýtur fyrrnefnd Hildur Guðnadóttir þrjár tilnefningar, m.a. tvær í leikhús- og kvikmyndartónlist og síðan hljóta þær Kristín Anna Valtýsdóttir og Ásta Kristín Pjetursdóttir tvær tilnefningar, Kristín fyrir plötu sína I must be the devil og nýliðinn Ásta fyrir sína plötu Sykurbað en Ásta hefur vakið sérstaka athygli fyrir frumraun sína á árinu en hún lenti í þriðja sæti á Músiktilraunum Tónabæjar 2019. 

Íslensku tónlistarverðlaunin eru  byggð á fjórum meginflokkum; flokkur popp-, rokk-, hipphopp- og raftónlistar, flokkur djass- og blústónlistar, flokkur sígildrar og samtímatónlistar og að lokum flokkurinn önnur tónlist en þar eru veitt verðlaun fyrir tónlist í opnum flokki, kvikmynda- og leikhústónlist, og fyrir þjóðlaga- og heimstónlist. Veitt verða 38 verðlaun auk Heiðursverðlauna Íslensku tónlistarverðlaunanna.

Eins og undanfarin ár skera nokkur verðlaun sig úr. Þannig er Bjartasta vonin í sígildri og samtímatónlist og í djass og blústónlist útnefnd af dómnefnd og tilkynnt á verðlaunahátíðinni sjálfri. Bjartasta vonin í flokki popp-, rokk-, hipphopp- og raftónlistar er tilnefnd af starfsfólki Rásar 2 og er kosin á vefnum Ruvmenning.is. Loks fer sérstök dómnefnd á vegum Albumm.is með tilnefningar til Tónlistarmyndbands ársins en kosning fer fram á heimasíðu Albumm. Þar er hægt að horfa á myndböndin átta sem hlutu tilnefningu.

Íslensku tónlistarverðlaunin verða afhent í Hörpu miðvikudaginn 11. mars og verður verðlaunahátíðin í beinni útsendingu á RÚV. Kynnir kvöldsins er hinn lögfræðimenntaði uppistandari og rithöfundur Bergur Ebbi Benediktsson sem nýlega sló í gegn sem óvenju tæknisinnaður starfsmaður lögreglunnar í þáttunum Brot á RÚV.

Það er Samtónn sem stendur að baki Íslensku tónlistarverðlaununum en aðilar að Samtóni eru STEF – Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar, Tónskáldafélag Íslands, Félag tónskálda og textahöfunda, SFH-Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda auk aðildarfélaga.Tilgangur Samtóns er að vinna að sameiginlegum hagsmunum og styrkja stöðu höfunda, flytjenda, framleiðenda og annarra rétthafa að tónlist. Samtónn kemur fram sameiginlega fyrir hönd íslenskra rétthafa og tónlistarfólks.

Frekari upplýsingar um Íslensku tónlistarverðlaunin veitir stjórn Íslensku tónlistarverðlaunanna en hana skipa Margrét Eir, Kristján Freyr Halldórsson og Jóhann Ágúst Jóhannsson.

 


Eftirtaldir hljóta tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna.

 Rokk, popp, raftónlist, rapp og hip hop – Tilnefningar fyrir tónlistarárið 2019

Plata ársins – Rokk
Bubbi Morthens – Regnbogans stræti
Grísalappalísa – Týnda rásin
Of Monsters and Men – Fever Dream
Singapore Sling – Killer Classics
Une Misere – Sermon

Plata ársins – Popp
Between Mountains – Between Mountains
Hipsumhaps – Best gleymdu leyndarmálin
K. óla – Allt verður alltílæ
Sin Fang – Sad Party
Vök – In the Dark

Plata ársins – Raftónlist
Sykur – JÁTAKK
Sunna Margrét – Art of History
Dj Flugvél og geimskip – Our Atlantis
Bjarki – Happy Earthday
Janus Rasmussen – Vín

Plata ársins – Rapp og hip hop
Cell7 – Is anybody listening?
Countess Malaise – HYSTERÍA
Joey Christ – Joey 2

Söngvari ársins
Arnar Guðjónsson
Auður
Högni Egilsson
Júníus Meyvant
Klemens Hannigan

Söngkona ársins
Agnes Björt Andradóttir
Ásta Kristín Pjetursdóttir
Katla Vigdís Vernharðsdóttir
Margrét Rán Magnúsdóttir
Sigríður Thorlacius

Lag ársins – Popp
Auður – Enginn eins og þú
Ásgeir – Upp úr moldinni
Hipsumhaps – Lífið sem mig langar í
Hjaltalín – Baronesse
Vök – In the dark

Lag ársins – Rokk
Grísalappalísa – Þrjúhundruðsextíuogfimmdagablús (sjáðu hjónin)
Hatari – Hatrið mun sigra
Hipsumhaps – Fyrsta ástin
Of Monsters and Men – Aligator
Une Misere – Sermon

Lag ársins – Rapp og hipp hopp
Cell7 – Peachy
Flóni – Falskar ástir
Joey Christ – 100p

Lag ársins – Raftónist
Kraftgalli – Rússíbani
Sunna Margrét – Art of History
Sykur – Svefneyjar

Textahöfundur ársins
Bubbi Morthens
Fannar Ingi Friðþjófsson (Hipsumhaps)
Gunnar Ragnarsson og Baldur Baldursson (Grísalappalísa)
Hatari
Margrét Rán Magnúsdóttir (Vök)

Lagahöfundur ársins
Agnes Björt Andradóttir, Halldór Eldjárn, Kristján Eldjárn, Stefán Finnbogason (Sykur)
Arnar Guðjónsson og Hrafn Thoroddsen (Warmland)
Fannar Ingi Friðþjófsson, Jökull Breki Arnarson og Magnús Jóhann Ragnarsson (Hipsumhaps)
Hatari
Margrét Rán Magnúsdóttir (Vök)

Tónlistarviðburður ársins
Auður – “Afsakanir” – Útgáfutónleikar 29/03/2019
Bræðslan
Hatari í Eurovision
Hjaltalín í Eldborg
Iceland Airwaves

Tónlistarflytjandi ársins
Auður
Hatari
Sykur
Une Misere
Vök

Bjartasta vonin – Verðlaun veitt í samstarfi við Rás 2
Gróa
Hipsumhaps
K. Óla
Krassasig
Zöe

Tónlistarmyndband ársins – Verðlaun veitt í samstarfi við Albumm.is
Bjarki – ANa5 – Leikstjóri: Daníel Heimisson & Baldvin Vernharðsson
Doctor Victor feat. SVALA – Running Back / Leikstjóri: Anna Maggý
Hatari – Hatrið mun sigra / Leikstjóri: Baldvin Vernharðsson & Klemens Hannigan
Krummi – Stories To Tell / Leikstjóri: Frosti Jón Runólfsson
Of Monsters and Men – Wars / Leikstjóri: WeWereMonkeys
Oscar Leone – “Superstar” / Leikstjóri: Einar Egils
Vök – In the Dark / Leikstjóri: Elí.
Warmland – Blue Place / Leikstjóri: Bernhard Kristinn & Warmland

  

Sígild og samtímatónlist – Tilnefningar fyrir tónlistarárið  2019

Plata ársins
Benedikt Kristjánsson – Drang in die Ferne
Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Daníels Bjarnasonar – Concurrence
Strokkvartettinn Siggi – South of the Circle
Sæunn Þorsteinsdóttir – Vernacular
Þóranna Dögg Björnsdóttir og Federico Placidi – LUCID

Tónverk ársins
Enigma – Anna Þorvaldsdóttir
Music to accompany your sweet splatter dreams – Bára Gísladóttir
Mysterium op. 53 – Hafliði Hallgrímsson
Crevace, konsert fyrir flautu og fagott – Páll Ragnar Pálsson
Lendh – Veronique Vaka

Söngvari ársins
Benedikt Kristjánsson
Fjölnir Ólafsson
Oddur Arnþór Jónsson

Söngkona ársins
Dísella Lárusdóttir
Guja Sandholt
Herdís Anna Jónasdóttir

Tónlistarflytjandi ársins – Einstaklingar
Bjarni Frímann Bjarnason
Laufey Jensdóttir
Sæunn Þorsteinsdóttir
Sigurgeir Agnarsson
Víkingur Heiðar Ólafsson

Tónlistarflytjandi ársins – Hópar
Elektra Ensemble – Fagnaði 10 ára starfsafmæli með útgáfu á geisladiski með verkum samin fyrir hópinn
Kammersveit Reykjavíkur – Lokatónleikar Myrkra músikdaga. Kammersinfóníur Schönbergs og Adams
Sinfóníuhljómsveit Íslands – Hljóðritun og útgáfur, tónleikar og tónleikaferðir árið 2019

Tónlistarviðburður ársins ( Einstakir tónleikar)
Hafnarborg: Hljóðön – Sýning tónlistar. Opnunarhátíð Myrka Músíkdaga
Ljóðadagar Óperudaga í RVK – The Little Match Girl Passion/Death speaks
Nordic Affect – Rökkur með Nordic Affect og Maja S. K. Ratkje
Sinfóníuhljómsveit Íslands – Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Daníels Bjarnasonar á Myrkum músíkdögum
Strokkvartettinn Siggi – Tónlistarhátíð RÁSar 1

Tónlistarviðburðir ársins (Hátíðir, tónleikaraðir)
Listvinafélag Hallgrímskirkju :  Kirkjulistahátíð í Hallgrímskirkju
Myrkir músíkdagar :  Myrkir Músíkdagar 2019
Reykjavík midsummer music : Reykjavíki midsummer music 2019

Bjartasta von í sígildri og samtímatónlist verður kynnt 11. mars þegar tónlistarverðlaunin verða afhent í Hörpu.


Djass og blús – Tilnefningar fyrir tónlistarárið 2019

 Plata ársins
ADHD – ADHD 7
Einar Scheving – Mi Casa, Su Casa
hist og – Days of Tundra
Ingi Bjarni Skúlason – Tenging
Tómas Ragnar Einarsson – Gangandi bassi

Tónverk ársins
AVI –  Andrés Þór
Ballad for my fearless friend -Ingi Bjarni Skúlason
Counting Sheep – Sigurður Flosason
Hangir  – ADHD
Óravídd – Einar Scheving

Lagahöfundur ársins
Anna Gréta Sigurðardóttir
Einar Scheving
Ingi Bjarni Skúlason
Mikael Máni Ásmundsson
Tómas Ragnar Einarsson

Tónlistarflytjandi ársins – Einstaklingur
Andrés Þór
Anna Gréta Sigurðardóttir
Ingi Bjarni Skúlason
Sigurður Flosason
Sunna Gunnlaugsdóttir

Tónlistarflytjandi ársins – Hópar
ADHD
hist og
Ingi Bjarni Kvintett
Sigurður Flosason DeLux
Stórsveit Reykjavíkur

Tónlistarviðburður ársins
Tónleikaröð Stórsveitar Reykjavíkur
Tónleikadagskrá Jazzklúbbsins Múlans í Hörpu
Freyjujazz

Bjartasta von í djass og blús verður kynnt á sjálfri hátíðinni þann 11. mars næstkomandi.

Önnur tónlist: Opinn flokkur, kvikmynda- og leikhústónlist, þjóðlaga- og heimstónlist Tilnefningar fyrir tónlistarárið 2019

Plata ársins – Opinn flokkur
Hlökk – Hulduhljóð
Kristín Anna – I must be the devil
Kristofer Rodríguez Svönuson – Primo
Marína Ósk – Athvarf
Ólafur Björn Ólafsson og Jo Berger Myhre – Lanzarote

Plata ársins – Þjóðlagatónlist
Ásta – Sykurbað
Góss – Góssentíð
Lára Rúnars – Rótin
Ragnheiður Gröndal – Töfrabörn
Umbra – LLIBRE VERMELL

Plata ársins – Leikhús- og kvikmyndatónlist
Arnar Guðjónsson – France terres sauvages
Herdís Stefánsdóttir – The sun is also a star
Hildur Guðnadóttir – Chernobyl
Hildur Guðnadóttir – Joker
Tryggvi M. Baldvinsson og Einar Sv. Tryggvason – Flateyjargátan (The Flatey Enigma)

Lag ársins/Tónverk ársins í Opnum flokki
Ásta – Sykurbað
Hróðmar I. Sigurbjörnsson og Ragnheiður Erla Björnsdóttir – Konan og selshamurinn
Lára Rúnars – Altari
Marína Ósk – Rigning
Teitur Magnússon – Skriftagangur  

Plötuumslag ársins
Cell7 – Is anybody listening?
Countess Malaise – HYSTERÍA
Dj. Flugvél og geimskip – Our Atlantis
Grísalappalísa – Týnda rásin
Kristin Anna – I must be the devil 

Upptökustjórn ársins

Grísalappalísa – Týnda rásin
Albert Finnbogason: Upptökustjórn, upptökur og hljóðblöndun. Tumi Árnason: Annar stýrimaður, auka upptökur. Finnur Hákonarson: Hljómjöfnun

Hildur Guðnadóttir – Chernobyl
Hildur Guðnadóttir og Sam Slater: Upptökustjórn og gerð hljóðmyndar

hist og – Days of Tundra
Albert Finnbogason: Upptökustjórn, upptökur og hljóðböndun. Paul Corley: Hljómjöfnun

Sinfóníuhljómsveit Íslands – Concurrence
Daniel Shores: Upptökustjórn og gerð hljóðmyndar

Vök – In The Dark
James Earp, Margrét Rán Magnúsdóttir og Einar Hrafn Stefánsson: Upptökustjórn og gerð hljóðmyndar

Leave a Reply