NOVA kynnt sem bakhjarl og skráningargjöld felld niður

Íslensku tónlistarverðlaunin og símafyrirtækið NOVA hafa hafið samstarf um tónlistarverðlaunin 2021 og í kjölfarið ákveðið að fella niður öll gjöld vegna innsendinga til verðlaunanna. Þrátt fyrir afar erfitt ár fyrir tónlistariðnaðinn, þar sem lítið hefur verið um tónleika- og annað viðburðahald, hefur þó gróskan verið gríðarleg og útgáfan sem betur fer afar auðug. Með þessu vilja ÍSTÓN og Nova leggja áherslu á að styðja við íslenskt tónlistarfólk og hvetja þau áfram til dáða.

Opnað var fyrir skráningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2021 í gær, 1. desember 2020, sem er jafnframt Dagur íslenskrar tónlistar. Allt tónlistarfólk er hvatt til þess að senda sín verk frá þessu viðburðarríka og eins og sumir segja „fordæmalausa” ári sem 2020 hefur sannarlega verið. En gjöfult hefur árið verið þegar kemur að íslenskri tónlist og útgáfan afar blómleg. Við gleðjumst yfir því. Hægt verður að tilnefna tónlist, hljómplötur, tónverk, rafræna viðburði og allt það sem tónlistarárið gaf af sér og eru verðlaunin byggð upp á fjórum meginflokkum. Hægt verður að skrá inn ný verk til og með 15. janúar 2021.

Hverjir geta sent inn og hvar?
Öllu íslensku tónlistarfólki, öllum tónskáldum, útgefendum og öðrum hagsmunaaðilum sem gefið hafa út nýja íslenska tónlist, haldið tónleika eða sent frá sér ný lög, tónverk eða myndbönd árið 2020 er frjálst að senda inn tilnefningar í viðeigandi flokka.

Flokkarnir fyrrgreindu eru:
1. Sígild og samtímatónlist.
2. Djass- og blústónlist.
3. Popp-, rokk-, hipphopp- og raftónlist
4. Önnur tónlist: Önnur tónlist er opinn flokkur, þar sem kvikmynda- og leikhústónlist, þjóðlaga- og heimstónlist eiga sér heimili.

• Veitt verða verðlaun fyrir tímabilið 1. janúar til 31. desember 2020
• Skilafrestur á innsendingum rennur út á miðnætti 15. janúar 2021
• Tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna verða kynntar um miðjan febrúar 2021
• Veitt verða 38 verðlaun í 4 flokkum auk heiðursverðlauna.
• Verðlaunahátíðin fer fram í Hörpu miðvikudaginn 10. mars 2021
• Íslensku tónlistarverðlaunin verða í beinni útsendingu á RÚV
• Skráningargjöld hafa verið felld niður í samvinnu við aðalbakhjarl verðlaunanna; NOVA.

Skráning á tilnefningum til Íslensku tónlistarverðlaunanna fer fram hér (https://istonumsokn.firebaseapp.com/)