ÖLL MET SLEGIN Í INNSENDINGUM TIL ÍSLENSKU TÓNLISTARVERÐLAUNANNA


Íslensku tónlistarverðlaunin 2021 verða haldin hátíðleg í Silfurbergi Hörpu, laugardagskvöldið 17. apríl. Uppskeru tónlistarársins 2020 verður þá fagnað en segja má að uppskera þess árs hafi verið með besta móti, þrátt fyrir fordæmalausa tíð. Veislustjóri verður engin önnur en Saga Garðarsdóttir grín- og leikkona.

Árið 2020 mun án efa seint gleymast öllum þeim sem upplifðu það og sömuleiðis þeim sem rýna munu í spjöld sögunnar í framtíðinni. Svo fordæmalaust var árið með öllum sínum heimsendapestum, náttúruhamförum og heimaskrifstofum. Allt það fólk sem stóð í framlínunni, heilbrigðisstarfsfólk, kennarar, fólk í þjónustustörfum og umönnun – unnu kraftaverk. Um það verður ekki deilt.

Eitt af því sem við megum einnig þakka fyrir hér heima er framlag tónlistarinnar. Hún skipaði stórt hlutverk í því að viðhalda gleðinni á erfiðum tímum. Íslenskt tónlistarfólk kom víða við, brást við aðstæðum á einstakan máta og allt þetta skilaði sér í aragrúa af frábærri tónlist. Árið 2020 var nefnilega þrátt fyrir allt býsna gjöfult ár þegar kemur að útgáfu. Húrra fyrir íslenskri tónlist!

Innsendingar til Íslensku tónlistarverðlaunanna hófu að berast á Degi íslenskrar tónlistar 1. desember síðastliðinn og rann frestur út 17. janúar í ár. Skemmst er frá því að segja að öll met voru slegin í innsendingum en um 1200 innsendingar bárust í formi platna, tónverka, viðburða, einstaklingsverðlauna, myndbanda og hönnunar.

Það hefur því ekki verið öfundsvert starf allra þeirra sem eiga sæti í dómnefndum að kynna sér allar þær metnaðarfullu innsendingar sem bárust. Dómnefndirnar eru fjórar talsins; ein í flokki popp-, rokk-, rapp/hipphopp- og raftónlistar, önnur í sígildri og samtímatónlist, sú þriðja í djass- og blústónlist og loks svokölluðum opnum flokki. Þar er tekin fyrir önnur tónlist, heims-, þjóðlaga-, kvikmynda- og leikhústónlist. Það eru hátt í þrjátíu manns sem koma að þessu starfi.

Tilkynnt verður um tilnefningar til verðlaunanna þann 24. mars en verðlaunin sjálf verða eins og áður segir afhent í Hörpu, 17. apríl en sjónvarpað verður frá verðlaunakvöldinu í beinni útsendingu á RÚV.