KYNGREINDIR FLOKKAR HEYRA SÖGUNNI TIL Á ÍSLENSKU TÓNLISTARVERÐLAUNUNUM


Aðstandendur Íslensku tónlistarverðlaunanna hafa tekið þá ákvörðun að fella út þá kyngreindu flokka sem eftir standa frá og með verðlaunahátíðinni 2022. Það verða því ekki sérverðlaun fyrir söngvara og/eða söngkonur. Flokkarnir verða sameinaðir og verðlaun veitt fyrir söng ársins, hvers kyns sem viðkomandi er.

Kristján Freyr, framkvæmdastjóri Íslensku tónlistarverðlaunanna, segir þetta tákn um nýja tíma og að einhugur aðildarfélaga tónlistarfólks hafi verið algjör um þessa ákvörðun. „Nýtt og betra samfélag kallar eftir álíka breytingum og sýnir að við erum ekki lengur svo pólaríseruð eða bara tvívíð. Við erum alls konar, sís, trans, intersex, kynsegin; konur, karlar og kvár. Kynin eru ekki bara í steríó.“

Það lítur því út fyrir að þeir söngvarar og söngkonur sem hlutu verðlaun í sínum flokkum í apríl síðastliðinn hafi verið þau síðustu að hljóta þá nafnbót. Það voru þau Högni Egilsson, Bríet Ísis Elfar, Álfheiður Erla Guðmundsdóttir (sem er hér á mynd að ofan) og Stuart Skelton sem voru söngvarar og söngkonur ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum 2021.

Íslensku tónlistarverðlaunin verða veitt í mars 2022 en tónlistarárið 2021 var gríðarlega gjöfult og með þeim betri til síðari ára. Opnað var fyrir innsendingar til verðlaunanna 1. janúar á Iston.is.