
ÍSLENSKU TÓNLISTARVERÐLAUNIN AFHENT Í HÖRPU
Vök, Auður, Hildur Guðnadóttir, Kristín Anna, Grísalappalísa, Páll Ragnar Pálsson, Ásta og Ingi Bjarni Skúlason voru meðal vinningshafa á uppskeruhátíð Íslensku tónlistarverðlaunanna í Hörpu í kvöld. Veitt voru 38 verðlaun auk heiðursverðlauna á annars fjölbreyttri verðlaunaafhendingu þar sem verðlaun dreifðust á margar hendur. Hin ástsæla sópransöngkona Sigrún Hjálmtýsdóttir hlaut heiðursverðlaun Samtóns og lokatónar kvöldsins voru slegnir Ragga Bjarna til heiðurs.
Margrét Rán Magnúsdóttir ásamt félögum sínum í Vök og Auður unnu til flestra verðlauna á Íslensku tónlistarverðlaununum eða þrenn hvor. Auður var valinn söngvari ársins og flytjandi auk þess sem lagið hans Enginn eins og þú hlaut verðlaun sem popplag ársins. Vök átti poppplötu ársins, In the Dark og Margrét Rán var valin lagahöfundur ársins en hún var einnig valin söngkona ársins. Það kom eflaust fáum á óvart að sigurganga Hildar Guðnadóttur héldi áfram á Íslensku tónlistarverðlaununum í kvöld en tónlist hennar við Chernobyl hampaði tvennum verðlaunum.
Að öðru leiti er ekki hægt að segja annað en að verðlaun hafi dreifst víða, hafi endurspeglað breiddina sem við búum við og að hinn sanni sigurvegari kvöldsins hafi verið íslensk tónlist og fjölbreytileikinn en þetta á við alla fjóra flokka Íslensku tónlistarverðlaunanna.
Eins og áður segir voru hljómsveitin Vök með Margréti Rán Magnúsdóttir í fararbroddi og Auður áberandi í flokki popp, rokk, raf, rapp og hiphopptónlistar. Það var einnig Grísalappalísa sem átti opnunaratriði hátíðarinnar og hlaut tvenn verðlaun. Plata sveitarinnar og jafnframt svanasöngur hennar Týnda Rásin var kosin rokkplata ársins en tveim dögum áður höfðu söngvarar og textasmiðir Grísalappalísu, Gunnar Ragnarsson og Baldur Baldursson, fengið Íslensku tónlistarverðlaunin afhent sem textahöfundar ársins í þættinum Menningunni á RÚV. Rokklag ársins kemur frá Álftanesi en það var Fyrsta ástin frá spútniksveitinni Hipsumhaps sem hlaut verðlaunin en lagið er uppfullt af tilfinningu og er afar grípandi svo ekki sé meira sagt.
Plata Bjarka, Happy Earthday, var valin raftónlistarplata ársins en skífan þykir heilsteypt og vandað verk þar sem hinum ýmsu stefnum er att saman. Lag ársins í raftónlist átti hins vegar hin orkuríka sveit Sykur með lag sitt Svefneyjar enda ansi grípandi danssmellur sem engan svíkur. Plata ársins í rapp og hipp-hopptónlist var plata Cell7, Is anybody listening? sem dómnefnd sagði fjölbreytta og kraftmikla um leið og lagasmíðarnar einkenndust af framúrskarandi og óaðfinnanlegri túlkun Cell7 á efninu. Lag ársins í rapp og hipp hoppi var hins var lag Flona, Falskar ástir en það þykir óvenju fallegt popplag þar sem autotune-tæknin er nýtt á skemmtilegan hátt til þess að draga fram sálarangist ljóðmælanda. Vel samið lag hjá upprennandi og leitandi tónlistarmanni.
Ekki er hægt að hugsa um tónlistarárið 2019 án þess að leiða hugann að þátttöku Hatara í Söngvakeppninni en Hatari í Eurovision var valinn tónlistarviðburður ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum. Skal engan undra enda verður þessi viðburður lengi í minnum hafður. Hárbeitt ádeila sveitarinnar skilaði sér í stórgóðum flutningi lagsins Hatrið mun sigra og vakti athygli um heim allan. Hatari hlaut einnig önnur verðlaun áður en kvöldið var úti en tónlistarmyndband ársins sem kosið var af dómnefnd og lesendum Albumm.is var Hatrið mun sigra í leikstjórn Baldvins Vernharðssonar og Klemens Hannigan.
Djass og blústónlist er í mikilli uppsveiflu um þessar mundir og fjöldi innsendinga hefur aldrei verið meiri. Djassinn dunar og það er gott en í ár var það enginn annar en Tómas Ragnar Einarsson sem stóð uppi sem sigurvegari þegar lesið var upp hvaða plata fengi Íslensku tónlistarverðlaunin sem djass og blúsplata ársins. Plata Tómasar, Gangandi Bassi, þykir fanga afslappað andrúmsloft Kúbu þar sem tónmál sveiflunnar og latíntónlistar ganga hönd í hönd..
Tónverk ársins í djass og blúsflokki var Avi eftir djassgítarleikarann Andrés Þór. Avi er angurvær ballaða með fallegum stíganda þar sem gítarinn fær að njóta sín, nýr íslenskur djassstandard. Hljómsveitin ADHD hlaut verðlaun sem tónlistarflytjandi ársins í flokki hópa enda er sveitin ávallt iðin við kolann og gríðarvinsæl bæði hér heima og erlendis. Tónlistarflytjandi ársins úr flokki einstaklinga er Sunna Gunnlaugsdóttir. Sunna er sérlega ötull og afkastamikill djasspíanisti, tónskáld og tónleikahaldari og þar er síðasta ár engin undantekning þar sem hún lék fjölda tónleika erlendis sem og hér á landi. Lagahöfundur ársins var valinn Einar Scheving, en plata Einars Mi Casa, Su Casa einkennist af lágstemmdum en áhrifamiklum verkum sem mynda sterka heildarmynd. Tónsmiðarnar eru ljóðrænar og ljúfar og kalla fram ljúfsár hughrif sem senda hlustandann í ferðalag og koma honum aftur heim. Tónleikaröð Stórsveitar Reykjavíkur hlaut svo Íslensku tónlistarverðlaunin sem tónlistarviðburður ársins en þótti hún einkar glæsileg, umfangsmikil og vel útfærð. Sveitin lék á fjölda tónleika og tókst á við mjög ólík og krefjandi verkefni þar sem fengist er við vítt svið djasstónlistar af öllum gerðum – innlenda og erlenda, framsækna og létta.
Í sígildri og samtímatónlist var Concurrence með Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Daníels Bjarnasonar valin plata ársins. Þetta vandaða hljóðrit heillaði dómnefndina sem og aðra unnendur góðrar tónlistar. Concurrence þykir sýna margbreytileika íslenskrar samtímatónlistar í sinni bestu mynd. Flutningur Sinfóníuhljómsveitar Íslands undir stjórn Daníels er fyrsta flokks og sérstaka athygli vekur upptökustjórnin sem er framsækin og metnaðarfull.
Crevace, konsert fyrir flautu og fagott eftir Páll Ragnar Pálsson var valið tónverk ársins. Hér fléttar Páll Ragnar tveimur djörfum einleikspörtum saman við framsækin og hugvitssöm hljómsveitarskrif. Tónmálið er hvort tveggja, persónulegt og myndrænt og í verkinu nær hann að tengja saman tóna og þann kraft sem ólgar í iðrum jarðar.
Tónlistarviðburður ársins var valin Hljóðön – Sýning tónlistar sem flutt var í Hafnarborg en sýningin þótti spennandi og frumleg með afar áhrifaríkum upphafstónleikum þar sem vel var unnið með samspil tónlistar og rýmis. Það voru Myrkir músíkdagar sem hrepptu hnossið sem tónlistarhátíð ársins úr flokki hátíða en nýju lífi hefur verið blásið í Myrka músíkdaga sem þóttu sérlega glæsilegir í fyrra og sýndi hátíðin vel fjölbreytni nýsköpunar í íslenskri tónlist.
Tónlistarflytjandi ársins úr röðum einstaklinga var valinn Bjarni Frímann Bjarnason en hann er afar fjölhæfur listamaður og kraftar hans nýtast vel íslensku tónlistarlífi. Bjarni Frímann þótti sýna einstaka hæfni sem listrænn stjórnandi í störfum sínum fyrir Íslensku óperuna og Sinfóníuhljómsveit Íslands á liðnu ári og er vel að verðlaununum kominn. Elektra Ensemble hlaut verðlaunin sem tónlistarflytjandi ársins úr flokki tónlistarhópa en Elektra Ensamble hefur í áratug verið eitt af flaggskipum íslenskrar samtímatónlistar. Hópinn skipa fimm framúrskarandi tónlistarkonur sem eru ófeimnar við tilraunir og í fyrra var haldið upp á tíu ára afmælið með útgáfu nýrrar plötu og glæsilegum útgáfutónleikum.
Söngkona ársins er Dísella Lárusdóttir en hún vakti sérstaka athygli á árinu fyrir afburða frammistöðu á sviði Metropolitan óperunnar í New York þar sem hún fór með hlutverk Tye drottningar í óperunni Akhnaten eftir Philip Glass. Söngvari ársins var svo Benedikt Kristjánsson, en flutningur hans og samverkamanna hans á Jóhannesarpassíu Bachs vakti mikla athygli og hrifningu erlendis á árinu. Benedikt gaf einnig út einsöngsplötu þar sem fléttað er saman íslenskum þjóðlögum og sönglögum eftir Schubert svo hvort tveggja birtist í nýju ljósi
Í flokknum Önnur tónlist komu verðlaunahafar úr röðum höfunda kvikmynda- og leikhústónlistar sem og blómlegum garði þjóðlaga- og heimstónlistar. Það kom eflaust fáum á óvart að það skyldi vera Hildur Guðnadóttir sem fékk verðlaun í flokki kvikmyndatónlistar en þar var það tónlist hennar við sjónvarpsþættina Chernobyl sem bar sigur úr býtum. Meðferð Hildar á hljóðheimi þáttanna brýst út fyrir hefðbundið hlutverk tónlistar í kvikmyndagerð á djarfan hátt og mörkin milli hljóðvinnslu og tónlistar þykja óræð en alltaf skín vel í gegn persónulegur stíll tónskáldsins. Chernobyl hlaut þar að auki önnur verðlaun en Hildur Guðnadóttir og Sam Slater fengu verðlaun fyrir upptökustjórn ársins fyrir hljóðmynd þáttanna en útfærsla hennar þótti ekkert minna en afrek sem á fáa sína líka í tónlistarsögunni í umsögn dómnefndar.
Kristín Anna Valtýsdóttir vann einnig til tveggja verðlauna í Opna flokknum en platan hennar
I must be the devil var valin plata ársins, þar sem henni var lýst sem hreinasta galdri í umsögn auk þess sem umslagshönnun sömu plötu heillaði líka og var valið plötuumslag ársins. Umslagið felur í sér vísanir í rokksöguna en stendur einnig sem fallegt gjörningalistaverk sem þeir Ragnar Helgi Ólafsson og Ari Magg önnuðust. Fyrsta plata Ástu, Sykurbað, lét ekki fara mikið fyrir sér á síðasta ári en einlægni Ástu, vangaveltur hennar og hugleiðingar þóttu einstakar og heillandi sem skiluðu Ástu verðlaunum fyrir plötu ársins í þjóðlaga- og heimstónlist fyrir þessa frumraun sína. Loks hlaut Lára Rúnarsdóttir Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir lag ársins í sama flokki fyrir Altari en í þessu fallega lagi opnar Lára hjarta sitt og syngur af einlægni og afslöppun. Lagið flutti Lára einnig á hátíðinni ásamt hljómsveit sinni.
Björtustu vonirnar
Veitt voru þrenn verðlaun á hátíðinni fyrir bjartar vonir framtíðarinnar. Í djass og blús var það píanóleikarinn Ingi Bjarni Skúlason sem hlaut nafnbótina bjartasta vonin í ár. Ingi Bjarni lagði stund á djasspíanónám í Tónlistarskóla FÍH áður en leið hans lá í Konunglega Tónlistarháskólann í Den Haag vorið 2016 þar sem hann lauk sérhæfðu mastersnámi í tónlist. Ingi Bjarni þekkir vel inn á litróf djassins, er flinkur píanóleikari, leitandi tónsmiður og afar skapandi allri í nálgun sinni sem flytjandi. Á plötunni Tenging sem kom út í fyrra leiðir hann kvintett og sýnir þar afdráttarlaust hve mikið vald hann hefur á forminu og að sjóndeildarhringur hans er víður.
Í flokki sígildrar og samtímatónlistar var það Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir sem var valin bjartasta vonin. Ingibjörg Ýr er eitt efnilegasta tónskáld landsins og hefur notið vaxandi athygli á undanförnum misserum. Í verkum hennar ber mikið á samspili texta og leikrænu við tónlist þar sem útkoman verður oft óvenjuleg. Meðal þeirra sem frumfluttu verk eftir hana á árinu eru Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammersveit Reykjavíkur og Strokkvartettinn Siggi, og verkið O var tilnefnt á Alþjóðlega tónskáldaþingið. Ingibjörg Ýr er einnig hluti listahópsins Hlakkar sem staðið hefur fyrir viðburðum á sviði tilraunatónlistar.
Bjartasta vonin í poppi, rokki, rappi og raftónlist er tilnefnd af starfsfólki Rásar 2 eins og undanfarin ár. Kosning fór fram á vef RÚV en í ár er það spútniksveitin Hipsumhaps frá Álftanesi sem hreppir hnossið. Hipsumhaps kom eins og stormsveipur inn í íslenskt tónlistarlíf í fyrra og náði miklum vinsældum á örskammri stundu fyrir vel samin lög sín og frábæra texta. Lögin Lífið sem mig langar í og Fyrsta ásin voru meðal mest leiknu laga í útvarpi á liðnu ári enda smellir af bestu sort. Það verður spennandi að fylgjast með þessari hæfileikaríku hljómsveit í framtíðinni, og sjá og heyra það sem fylgir í kjölfarið.
Heiðursverðlaun Samtóns og Íslensku tónlistarverðlaunanna
Það er Sigrún Hjálmtýsdóttir, Diddú, sem er heiðursverðlaunahafi Samtóns á Íslensku tónlistarverðlaununum í ár.
Sigrún Hjálmtýsdóttir, sópransöngkona ólst upp í Vesturbæ Reykjavíkur, á heimili þar sem tónlist var allt umlykjandi. Hún hóf feril sinn snemma, lék og söng í leikritum í Melaskólanum, kom fram í sjónvarpi og söng inn á plötu árið 1969. Sigrún var valin í hlutverk ungfrú Gúðmúnsen í sjónvarpsgerð Brekkukotsannáls eftir Nóbelsskáldið Halldór Kiljan Laxness árið 1972, rataði í leiklistarnám skömmu síðar og hefur upp frá því leikið á sviði, í sjónvarpi og vinsælum kvikmyndum þar á meðal Silfurtungið (1978), Bíódagar (1994) og Karlakórinn Hekla (1992). Á áttunda áratugnum starfaði Diddú með allra vinsælustu popphljómsveit landsins, Spilverki þjóðanna og gaf út með Spilverkinu fjölda platna. Hún hefur ljáð ótal verkefnum rödd sína, sungið vísnalög, djassópusa, ljóðasöngva, einsöngslög og óperuaríur á sviði og inn á fjölda hljómplatna.
Sigrún stundaði nám í Guildhall School of Music and Drama í Lundúnum 1979 til 1984 og lauk þaðan Post Graduate námi 1985. Eftir nám hefur hún einbeitt sér að óperusöng og sótt sér reglulega leiðsögn í söng og túlkun hjá kennurum á Ítalíu.
Á óperusviðinu þreytti Sigrún frumraun sína í hlutverki Olympiu í Ævintýri Hoffmanns eftir Offenbach árið 1988, hjá Íslensku óperunni og Þjóðleikhúsinu. Síðan hefur hún sungið fjölmörg óperuhlutverk hjá Íslensku óperunni, hjá Óperunni í Þrándheimi og í Gautaborg og er án efa ástsælasta og þekktasta óperusöngkona landsins.
Sigrún hefur starfað um árabil með píanóleikurunum Jónasi Ingimundarsyni og Önnu Guðnýju Guðmundsdóttir, auk þess að hafa komið víða fram sem Diddú og Drengirnir. Sigrún hefur sungið með Sinfóníuhljómsveit Íslands, ásamt ýmsum öðrum hljómsveitum, söngvörum og kórum víða um heim, meðal annars með tenórunum José Carreras, Placido Domingo og Hugh Smith. Sigrún hefur hlotið margskonar viðurkenningar fyrir söng sinn, var m.a. valin Söngkona ársins 1977, 1978 og 1979. Hún var sæmd Riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt á sviði sönglistarinnar 1995, varð Stórmeistari af finnsku ljónsorðunni 1997 og hefur verið bæjarlistamaður Mosfellsbæjar.
Fram komu
Bergur Ebbi fór á kostum sem kynnir kvöldsins og náði vel til áhorfenda. Skemmtiatriðin voru fjölbreytt og samkvæmt venju áttu það öll sameiginlegt að vera tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir utan eitt en þar var Ragga Bjarna minnst á hugljúfan hátt þegar Katla Vigdís og Arnar Guðjónsson fluttu lagið Barn og Oddur Arnþór og Salka Sól fluttu í kjölfarið Vertu ekki að horfa svona alltaf á mig við undirleik Kjartans Valdemarssonar, Þorgríms Jónssonar og Magnús Trygvasonar Eliassen. Úr hópi tilnefndra komu fram Grísalappalísa, Lára Rúnarsdóttir ásamt hljómsveit og strengjaleikurum, Hatari ásamt GDRN og kór, Siggi String Quartet, tríó Inga Bjarna Skúlasonar og Between Mountains.
Alls voru veitt 39 verðlaun á Íslensku tónlistarverðlaununum 2020 fyrir tónlistarárið 2019. Það er Samtónn sem stendur að baki Íslensku tónlistarverðlaununum en að baki Samtóni standa FÍH, FHF, STEF, SFS, FTT og Tónskáldafélag Íslands. Markmið Samtóns er að vinna að sameiginlegum hagsmunum íslenskra tónlistarmanna og fagaðila, styrkja stöðu höfunda, flytjenda, framleiðenda og annarra rétthafa. Samtónn kemur fram sameiginlega fyrir hönd íslenskra rétthafa og tónlistarfólks.
Stjórn Íslensku tónlistarverðlaunanna skipa Margrét Eir Hönnudóttir, Kristján Freyr Halldórsson og Jóhann Ágúst Jóhannsson.
Sérstakar þakkir frá Íslensku tónlistarverðlaunum fá
Concept Events, RÚV, Harpa, Lúxor, Instamyndir, Alda Music, Albumm, Tónlistarsjóður, Mekka wine & spirits, og allir þeir sem komu fram á hátíðinni og lögðu hönd á plóginn á einn eða annan hátt
Verðlaunahafar Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir árið 2019:
Önnur tónlist: Opinn Flokkur, þjóðlaga- og heimstónlist, kvikmynda- og leikhústónlist
Útgáfa ársins – Kvikmynda- og leikhústónlist
Hildur Guðnadóttir – Chernobyl
Plata ársins – Opinn flokkur
Kristín Anna – I must be the devil
Plata ársins – Þjóðlaga- og heimstónlist
Ásta – Sykurbað
Lag/tónverk ársins – Önnur tónlist
Lára Rúnars – Altari
Upptökustjórn ársins
Hildur Guðnadóttir og Sam Slater – Chernobyl
Plötuumslag ársins
Kristín Anna – I must be the devil
Ragnar Helgi Ólafsson – Hönnun og uppsettning
Ari Magg – Ljósmynd
Rokk, popp, raftónlist, rapp og hiphopp
Plata ársins – Popp
Vök – In the Dark
Plata ársins – Rokk
Grísalappalísa – Týnda rásin
Plata ársins – Raftónlist
Bjarki – Happy Earthday
Plata ársins – Rapp og hipp hopp
Cell7 – Is anybody listening?
Lag ársins – Popp
Auður – Enginn eins og þú
Lag ársins – Rokk
Hipsumhaps – Fyrsta ástin
Lag ársins – Raftónlist
Sykur – Svefneyjar
Lag ársins – Rapp og hipp hopp
Floni – Falskar ástir
Söngkona ársins
Margrét Rán Magnúsdóttir (Vök)
Söngvari ársins
Auðunn Lúthersson
Lagahöfundur ársins
Margrét Rán Magnúsdóttir (Vök)
Textahöfundur ársins
Gunnar Ragnarsson og Baldur Baldursson (Grísalappalísa)
Flytjandi ársins:
Auður
Tónlistarviðburður ársins
Hatari í Eurovision
Bjartasta von Rásar 2 og Íslensku tónlistarverðlaunanna
Hipsumhaps
Tónlistarmyndband ársins 2019 – Albumm.is og Íslensku tónlistarverðlaunin:
Hatari – Hatrið mun sigra
Leikstjóri: Baldvin Vernharðsson & Klemens Hannigan
Sígild og samtímatónlist
Plata ársins
Concurrence – Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Daníels Bjarnasonar
Tónverk ársins
Crevace, konsert fyrir flautu og fagott eftir Páll Ragnar Pálsson
Viðburður ársins – Einstakur viðburður
Hljóðön – Sýning tónlistar, Hafnarborg.
Viðburður ársins – Tónlistarhátíðir
Myrkir músíkdagar
Flytjandi ársins – Einstaklingar
Bjarni Frímann Bjarnason
Flytjandi ársins – Hópar
Elektra Ensemble
Söngvari ársins
Benedikt Kristjánsson
Söngkona ársins
Dísella Lárusdóttir
Bjartasta vonin – Sígild og samtímatónlist
Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir
Djass og blús
Plata ársins
Tómas Ragnar Einarsson – Gangandi bassi
Tónverk ársins
Avi
Tónskáld: Andrés Þór
Tónlistarflytjandi ársins – hópar
ADHD
Tónlistarflytjandi ársins – einstaklingar
Sunna Gunnlaugsdóttir
Tónlistarviðburður ársins
Tónleikaröð Stórsveitar Reykjavíkur
Lagahöfundur ársins
Einar Scheving
Bjartasta vonin
Ingi Bjarni Skúlason
Heiðursverðlaun Samtóns og Íslensku tónlistarverðlaunanna
Sigrún Hjálmtýsdóttir