All Posts By

Johann

Opið fyrir innsendingar

By | Fréttir, news | No Comments

Opnað hefur verið fyrir skráningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna á viðburðarríku og gjöfulu tónlistarári en hægt er að senda inn tilnefningar í fjórum flokkum til og með 15. janúar 2020.

Árið 2019 hefur verið afskaplega viðburðarríkt og gjöfult hjá íslensku tónlistarfólki þó ekki sé meira sagt. Jákvæðar fréttir af íslensku tónlistarfólki og árangri hér heima sem og erlendis heyrast nánast daglega og það er hugur í fólki.

Margt hefur gerst á árinu sem er að líða og sköpunarkrafturinn er mikill. Þegar litið er yfir útgáfu ársins og allt er talið til sem komið hefur út af músík; hvort sem um er að ræða stórar plötur eða stuttskífur á rafrænu formi, vínylplötur, kassettur og geisladiskar, þá telur útgáfan vel yfir 300 titla, sem er gríðarlega mikið. Tónlistarviðburðir sem haldnir hafa verið um land allt skipta hundruðum, á öllum sviðum tónlistarlífsins og það fer engin varhluta af því að tónlistarflutningur er í miklum blóma í öllum landshornum.

Öllu íslensku tónlistarfólki, öllum tónskáldum, útgefendum og öðrum hagsmunaaðilum sem gefið hafa út nýja íslenska tónlist, haldið tónleika eða sent frá sér ný lög, tónverk eða myndbönd árið 2019 er frjálst að senda inn tilnefningar í viðeigandi flokka.

Flokkarnir eru fjórir:
1. Sígild- og samtímatónlist.
2. Djass- og blústónlist.
3. Popp-, rokk-, hipphopp- og raftónlist
4. Önnur tónlist: Opinn flokkur, kvikmynda- og leikhústónlist, og þjóðlaga- og heimstónlist.

Verðlaunaflokkum hefur fjölgað síðastliðin ár. Bætt hefur verið við verðlaunum fyrir rapp og hipphopp, raftónlist, þjóðlagatónlist og kvikmynda- og leikhústónlist og hafa þessar breytingar bæði mælst og reynst afar vel. Verðlaunaflokkar eru þó háðir þeim afmörkunum að nægilega margar frambærilegar tilnefningar berist í tilgreinda flokka.

• Veitt eru verðlaun fyrir tímabilið 1. janúar til 31. desember 2019
• Skilafrestur á innsendingum rennur út á miðnætti 15. janúar 2020
• Tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna verða kynntar um miðjan febrúar 2020
• Veitt verða 38 verðlaun í 4 flokkum auk heiðursverðlauna
• Verðlaunahátíðin fer fram í Hörpu miðvikudaginn 11. mars 2020
• Íslensku tónlistarverðlaunin eru í beinni útsendingu á RÚV

Á heimasíðu Íslensku tónlistarverðlaunanna, www.iston.is, má finna allar helstu upplýsingar um verðlaunin, reglur, samstarfsaðila, sögu hátíðarinnar, lista yfir verðlaunahafa fyrri ára og einnig þá sem hlotið hafa tilnefningar. Það eru þeir Þormóður Dagsson, Kristinn Evertsson og Steve Anatai sem eiga veg og vanda að glæsilegu útliti og hönnun heimasíðunnar.

Til að skrá verk skal fylgja þessum hlekk en hér er um að ræða innsendingarsíðu Íslensku tónlistarverðlaunanna: https://istonumsokn.firebaseapp.com

Nánari upplýsingar um Íslensku tónlistarverðlaunin 2020

Senda má inn tilnefningar vegna verka sem gefin eru út og frumflutt á árinu. Tónlist má skila á rafrænu formi en jafnframt er mælst til þess að senda inn geisladiska eða plötur ef kostur er á slíku. Dómnefnd í sígildri og samtímatónlist fer fram á fá eintök af diskum eða hljómplötum í hendur hafi þau á annað borð verið gerð.

Tekið verður við eintökum á skrifstofu STEFs sem er á Laufásvegi 40. Tekið er við hljóðritum í viku eftir að lokað er fyrir skráningu umsókna. Eintökum er ekki skilað aftur til útgefenda.

Tilnefna má útgáfu í Plata ársins sem inniheldur annaðhvort: 4 ný lög eða fleiri, eða að lágmarki 16 mínútur af nýrri tónlist. Ekki skiptir máli hvort hljóðrit sé gefið út stafrænt eða á föstu formi en hljóðritið þarf að vera gefið út á árinu sem er að líða og vera aðgengilegt almenningi.

Verðlaun verða veitt á ný í ár fyrir Upptökustjórn ársins þar sem valin er besta hljóðmynd á hljómplötu sem nær þvert á alla flokka. Hljóðmynd samanstendur af listrænni framsetningu efnis, hljómi og skýru tónmáli sem hæfir efninu. Eftirfarandi aðilar sem koma að upptökum og gerð hljóðrits geta verið tilnefndir í innsendingu: Listamaður, listrænn stjórnandi (producer), hljóðtæknir sem sá um hljóðblöndun, hljóðtæknir sem sá um hljóðjöfnun og upptökustjóri. Við verðlaunum taka þeir sem tilnefndir eru í skráningu.

Í ár verða veitt 38 verðlaun í fjórum flokkum auk heiðursverðlaunum Íslensku tónlistarverðlaunanna.
Reglur og leiðbeiningar Íslensku tónlistarverðlaunanna er að finna á www.iston.is. Spurningum og fyrirspurnum varðandi gjaldgengi og fyrirkomulag skal beint til stjórnar í gegnum netfangið iston@iston.is.

Íslensku tónlistarverðlaunin verða veitt í Hörpu miðvikudaginn 11. mars 2020 en tilnefningar verða kynntar um miðjan febrúar.

Stjórn Ístón skipa Margrét Eir Hönnudóttir, Kristján Freyr Halldórsson og Jóhann Ágúst Jóhannsson.

Íslensku tónlistarverðlaunin eru haldin fyrir tilstuðlan hagsmunafélaga tónlistarinnar, FÍH, STEFs og SFH, undir merkjum Samtóns.

Fylgist með okkur á Facebook og Twitter.

Ef spurningar má senda póst á iston(@)iston.is.

Umbra – Sólhvörf

By | Verðlaunahafar 2018 | No Comments

Umbra – Sólhvörf (þjóðlagaplata ársins)

Sólhvörf var valin þjóðlagaplata ársins en þar tekur sveitin Umbra hlustandann í heillandi ferðalag þar sem tónlist tengd dimmum vetrardögum er í forgrunni. Virkilega vönduð plata þar sem lögin eiga það sameiginlegt að vera framúrskarandi útsett og flutt.

Karl Olgeirsson átti djassplötu ársins og var valinn lagahöfundur ársins

By | Verðlaunahafar 2018 | No Comments

Karl Olgeirsson – Djassplata ársins og lagahöfundur ársins í djass og blús

Í flokki djass og blús var það Karl Olgeirsson sem stóð uppi með tvenn verðlaun, fyrir djassplötu ársins og sem lagahöfundur ársins. Plata Karls, Mitt bláa hjarta þykir með afbrigðum góð en hún inniheldur fjórtán nýja djasssöngva. Bæði tónsmíðar og textar eru grípandi með hnyttnum skírskotunum í íslenskan veruleika en fjöldi söngvara og hljóðfæraleikara kemur fram á plötunni og er hún kærkomin viðbót í flóru íslenskra djasssöngva. Lagasmíðar plötunnar þykja sem fersk vindhviða inn í tónlistarlífið, fjölbreytt og aðgengileg án þess að gefa nokkurn afslátt af fagurfræði eða innihaldi.

GDRN og Auður

By | Verðlaunahafar 2018 | No Comments

GDRN og Auður

Tónlistarkonan GDRN, eða Guðrún Ýr Eyfjörð Jóhannesdóttir eins og hún heitir fullu nafni hlaut fern verðlaun á hátíðinni og má segja að þetta hafi verið kvöldið hennar. Plata GDRN, Hvað ef var valin poppplata ársins en hér er á ferðinni einstaklega frambærileg frumraun þar sem allt smellur saman, frábærar lagasmíðar og áhugaverðir textar. Lagið Lætur mig sem hún syngur með Flóna og samið með ra:tio var valið popplag ársins og Guðrún Ýr var kosin söngkona ársins í flokki popp, rokk, raf- og hiphopptónlistar. Að endingu fékk GDRN verðlaun fyrir myndband ársins við lagið Lætur mig en myndbandinu er leikstýrt af Ágústi Elí Ásgeirssyni. Frábær uppskera hjá vaxandi listakonu.

Auðunn Lúthersson (Auður) er búinn að stimpla sig rækilega inn og átti hreint út sagt frábært ár í fyrra og uppskar eftir því á verðlaunaafhendingu kvöldsins. Plata hans Afsakanir var valin plata ársins í raftónlist auk þess sem Auður var valinn lagahöfundur ársins 2018 en platan þykir afar heilsteypt verk sem einkennist af sterkum lagasmíðum og nær óaðfinnanlegri upptökustjórn og hljóðblöndun. Þess má geta að Auður hlaut flestar tilnefningar í ár eða alls átta talsins en hann hlaut jafnframt tvenn verðlaun á Íslensku tónlistarverðlaunum árið 2017.

Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir tónlistarárið 2018

By | awards, Fréttir, news | No Comments

GDRN, Víkingur Heiðar, Auður, Karl Olgeirsson, Valdimar, Jónas Sig og JóiPé og Króli fengu flest verðlaun þegar Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir tónlistarárið 2018 voru veitt í Hörpu í kvöld. Jón Ásgeirsson fékk sérstök heiðursverðlaun á athöfninni og boðið var upp á fjölbreytt skemmtiatriði úr ýmsum áttum.

Fjölbreytni og fagmennska var í fyrirrúmi á glæsilegri verðlaunahátíð tónlistargeirans þegar íslensku tónlistarverðlaunin voru afhent í Silfurbergi Hörpu í kvöld. Það má með sanni segja að bjartar vonir síðustu ára séu tilbúnar að stimpla sig inn og gott betur því á sviði stóð ný kynslóð verðlaunahafa á íslensku tónlistarverðlaununum sem átti stóran þátt í að setja sinn svip á kvöldið og gera það eftirminnilegt. Undanfarið hefur mikið verið rætt um að kynslóðarskipti séu að eiga sér stað í íslensku tónlistarlífi og ekki verður undan því hlaupið að leiða hugann að því þegar litið er til verðlaunahafa kvöldsins.

Tónlistarkonan GDRN, eða Guðrún Ýr Eyfjörð Jóhannesdóttir eins og hún heitir fullu nafni hlaut fern verðlaun á hátíðinni og má segja að þetta hafi verið kvöldið hennar. Plata GDRN, Hvað ef var valin poppplata ársins en hér er á ferðinni einstaklega frambærileg frumraun þar sem allt smellur saman, frábærar lagasmíðar og áhugaverðir textar. Lagið Lætur mig sem hún syngur með Flóna og samið með ra:tio var valið popplag ársins og Guðrún Ýr var kosin söngkona ársins í flokki popp, rokk, raf- og hiphopptónlistar. Að endingu fékk GDRN verðlaun fyrir myndband ársins við lagið Lætur mig en myndbandinu er leikstýrt af Ágústi Elí Ásgeirssyni. Frábær uppskera hjá vaxandi listakonu.

Auðunn Lúthersson (Auður) er búinn að stimpla sig rækilega inn og átti hreint út sagt frábært ár í fyrra og uppskar eftir því á verðlaunaafhendingu kvöldsins. Plata hans Afsakanir var valin plata ársins í raftónlist auk þess sem Auður var valinn lagahöfundur ársins 2018 en platan þykir afar heilsteypt verk sem einkennist af sterkum lagasmíðum og nær óaðfinnanlegri upptökustjórn og hljóðblöndun. Þess má geta að Auður hlaut flestar tilnefningar í ár eða alls átta talsins en hann hlaut jafnframt tvenn verðlaun á Íslensku tónlistarverðlaunum árið 2017.

Í heildina voru um 37 verðlaun afhent á verðlaunaafhendingunni en þess fyrir utan voru verðlaunin fyrir plötuumslag ársins afhent sérstaklega í þættinum Menningunni á RÚV kvöldið áður. Hér verður tæpt á öllu því helsta og neðar í tilkynningunni má finna heildarupptalningu allra verðlaunahafa.

Plata ársins 2018 í Rapp og hiphopp var að þessu sinni skífan Afsakið hlé með JóaPé & Króla. Þeir félagarnir áttu líka lag ársins í flokki rapptónlistar en þar var lagið Í átt að tunglinu sem bar af í ár að mati dómnefndar og ekki má betur sjá en að JóiPé & Króli eru komnir til að vera.

Í flokki sígildrar og samtímatónlistar var það Víkingur Heiðar Ólafsson sem fór heim með verðlaunagripinn fyrir plötu ársins fyrir hljóðritun á hljómborðstónlist eftir Johann Sebastian Bach. Óhætt er að fullyrða að Víkingur geri tónlist þessa mikla meistara barokksins frábær skil en Víkingur Heiðar var einnig valinn tónlistarflytjandi ársins úr röðum einstaklinga en á liðnu ári hélt hann frábæra útgáfutónleika til þess að fagna útgáfu plötu með tónlist Johann Sebastians Bach auk þess sem hann frumflutti nýjan píanókonsert Hauks Tómassonar.

Spectra eftir Önnu Þorvaldsdóttur var valið tónverk ársins í sígildri og samtímatónlist en hljóðheimur þess og línur eru hvort tveggja í senn seiðandi en jafnframt ögrandi tónvefur að mati dómnefndar.

Strokkvartettinn Siggi var valinn tónlistarflytjandi ársins úr röðum hópa en kvartettinn hefur frá upphafi verið í fremstu röð kammerhópa og unnið ötullega að nýsköpun í tónlistarlífi hér á land. Söngvari ársins var valinn Oddur Arnþór Jónsson fyrir burðarhlutverk  í óperunni Brothers eftir Daníel Bjarnason þar sem hann túlkaði hlutverk Michael stórkostlega í eftirminnilegri uppfærslu, bæði hvað varðar leik og söng. Söngkona ársins er Hallveig Rúnarsdóttir sem blómstraði í verkefnum sínum á liðnu ári og hefur einstakt lag á að snerta hjörtu áheyrenda. Hún heillaði áhorfendur meðal annars með söng sínum í Klassíkin okkar og skemmti ungum sem öldnum í titilhlutverkinu í frumflutningi á óperunni Gilitrutt eftir Hildigunni Rúnarsdóttur.

Óperan Brothers eftir Daníel Bjarnason í uppsetningu Íslensku Óperunnar hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin sem tónlistarviðburður ársins í sígildri og samtímatónlist. Þessi uppfærsla á magnþrunginni óperu þótti stórfengleg og vel skipuð frábærum listamönnum í hverju hlutverki, bæði innan sviðs og utan. Einsöngvarar ásamt og kór Íslensku óperunnar og Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn tónskáldsins Daníels Bjarnasonar sköpuðu eina eftirminnilegustu óperusýningu sem sett hefur verið upp hér á landi. Tónlistarviðburður ársins úr flokki hátíða eru Óperudagar í Reykjavík en með fádæma framtakssemi og sterkri listrænni sýn hafa stjórnendur Óperudaga sýnt fram á nýja möguleika og hinar fjölbreyttustu birtingarmyndir óperuformsins, auk þess að fara nýstárlegar leiðir í að ná til og heilla áhorfendur.

Verðlaun fyrir útgáfu ársins í flokki kvikmynda og leikhústónlistar voru veitt í þriðja sinn og komu í hlut Davíðs Þórs Jónssonar fyrir músíkina við kvikmyndina Kona fer í stríð. Í huga dómnefndar er tónlistin við mynd Benedikts Erlingssonar algerlega órofa hluti af myndmáli myndarinnar.

Í flokki popp og rokktónlistar réð fjölbreytnin ríkjum í ár en verðlaun skiptust á nokkrar hendur. Valdimar átti rokkplötu ársins, en platan Sitt sýnist hverjum þykir afar sterkt verk þar sem að textarnir spila stóra rullu og hljóðheimurinn er bæði stór og mikilfenglegur. Valdimar Guðmundsson var valinn söngvari ársins fyrir frábæra frammistöðu sína Sitt sýnist hverjum en Valdimar býr yfir einstaklega fallegri rödd með ótal blæbrigðum, flauelsmjúk og kraftmikil í senn. Verðlaunin fyrir rokklag ársins féllu í skaut Benny Crespo’s Gang fyrir lagið Another Little Storm en lagið þykir að mati dómnefndar gríðarlega vel samið, grípandi og vel flutt. Textahöfundur ársins var Svavar Pétur Eysteinsson sem á nýjustu plötu Prins Póló heldur áfram að syngja skemmtilega texta af barnslegri einlægni, í bland við alvarleika og þráðbeinan sannleik enda oftast gott kaffi þegar Svavar Pétur á í hlut.

Lagahöfundur ársins var eins og fyrr hefur komið fram Auðunn Lúthersson (Auður) og söngkona ársins var valin Guðrún Ýr Eyfjörð Jóhannesdóttir (GDRN).

GDRN og Auður

Hljómsveitin Hatari hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin sem tónlistarflytjandi ársins og kemur sú nafnbót eflaust engum á óvart enda er sveitin kraftmikið listrænt atriði sem fær alla sem á horfa til þess að staldra við og hlusta (og jafnvel dansa smá líka).

Aldrei fór ég suður var valinn tónlistarviðburður ársins 2018 en á síðustu 15 árum hefur hátíðin fest sig rækilega í sessi sem einn af stóru viðburðunum í íslensku tónlistarlífi. Á Aldrei fór ég suður eiga allar tegundir íslenskrar dægurtónlistar sér samastað og í fyrra var slegið aðsóknarmet en talið er að íbúafjöldi Ísafjarðarbæjar hafi tvöfaldast á meðan á hátíð stóð.

Sólhvörf var valin þjóðlagaplata ársins en þar tekur sveitin Umbra hlustandann í heillandi ferðalag þar sem tónlist tengd dimmum vetrardögum er í forgrunni. Virkilega vönduð plata þar sem lögin eiga það sameiginlegt að vera framúrskarandi útsett og flutt. Arnór Dan hlaut verðlaun fyrir lag ársins í opnum flokki, en í laginu Stone By Stone fetar Arnór Dan nýjar brautir þar sem fegurð og framúrstefna fá að njóta sín til fullnustu í firnagóðri tónsmíð.

Gyða Valtýsdóttir átti plötur ársins í opnum flokk en á Evolution þykir hún sýna gríðarlega sterk höfundareinkenni á sinni fyrstu sólóplötu með frumsömdu efni. Þversögn einkennir plötuna en hún er kraftmikil og sannfærandi, en um leið viðkvæmnisleg og blíð.

Veit voru verðlaun fyrir upptökustjórn og það var Ómar Guðjónsson sem hlaut þau fyrir heilsteypta hljóðmynd á plötu Jónas Sig, Milda hjartað. Hljóðheimur Milda hjartans, skírskotar að sumu leyti til flauelsmýktar söngvaskálda áttunda áratugarins en tekur líka til hráleika og kynngikrafts, eins og heyra má í smellinum „Dansaðu“. Heildarhljómurinn er lífrænn og umlykjandi og heldur hlustandanum föngnum allt til enda segir í umsögn dómnefndar.

Milda hjartað hlaut fleiri verðlaun en á þriðjudaginn var tekið smá forskot á sæluna en þá voru veitt verðlaun fyrir plötuumslag ársins í þættinum Menningunni á RÚV. Verðlaunin fyrir plötuumslag komu í hlut Ámunda Sigurðarsonar hönnuðar og Jónatans Grétarssonar ljósmyndara en það var umslagið fyrir plötu Jónasar Sig., Milda hjartað sem bar sigur úr bítum. Sterk ljósmynd af andliti höfundar undirstrikar titil plötunnar og efniviðinn vel. Jónas er í senn mildur í fasi og einbeittur, nákvæmlega eins og djúpir textarnir sem fjalla um styrk kærleikans í viðsjárverðum samtímanum.

Í flokki djass og blús var það Karl Olgeirsson sem stóð uppi með tvenn verðlaun, fyrir djassplötu ársins og sem lagahöfundur ársins. Plata Karls, Mitt bláa hjarta þykir með afbrigðum góð en hún inniheldur fjórtán nýja djasssöngva. Bæði tónsmíðar og textar eru grípandi með hnyttnum skírskotunum í íslenskan veruleika en fjöldi söngvara og hljóðfæraleikara kemur fram á plötunni og er hún kærkomin viðbót í flóru íslenskra djasssöngva. Lagasmíðar plötunnar þykja sem fersk vindhviða inn í tónlistarlífið, fjölbreytt og aðgengileg án þess að gefa nokkurn afslátt af fagurfræði eða innihaldi.

Bugða eftir Agnar Már Magnússon hlaut verðlaun sem tónverk ársins í djass og blús en þar hlykkjast raddir píanós og gítars hverjar um aðra í fallegu og áhugaverðu samtali sem unun er að hlýða á. Tónlistarflytjandi ársins úr hópi einstaklinga var Kjartan Valdemarsson, en Kjartan er einn virkasti og ástsælasti tónlistarmaður þjóðarinnar. Hann hefur leikið inn á fjöldann allan af hljómplötum, á tónleikum og unnið mikið í leikhúsi, útvarpi og sjónvarpi – ýmist sem tónskáld, útsetjari eða hljóðfæraleikari. Tónlistarflytjandi ársins úr flokki stærri sveita og hópa var Stórsveit Reykjavíkur en starfsemi hennar var með blómlegasta móti á síðasta ári. Hljómsveitin hélt marga fjölbreytta og metnaðarfulla tónleika þar sem lögð var áhersla á nýja tónlist, bæði innlenda sem erlenda.

 Tónleikaraðir Jazzklúbbsins Múlans var kosinn tónlistarviðburðir ársins 2018. Í fyrra var tuttugasta og fyrsta starfsár Múlans og var árið að vanda metnaðarfullt og sýndi gott þversnið af því sem er að gerast í íslensku djasssenunni. Fjöldi tónleika voru 43 og fram komu margir af fremstu tónlistarmönnum og -konum landsins ásamt nokkrum vel völdum erlendum gestum.

Björtustu vonirnar

Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, veitti þrenn verðlaun á hátíðinni sem komu í hlut bjartra vona í íslensku tónlistarlífi.
Í flokki sígildrar og samtímatónlistar er það Björk Níelsdóttir sem er bjartasta vonin. Björk hefur verið að skapa sér sess sem einn af áhugaverðustu tónlistarmönnum okkar. Hún starfar sem tónskáld, hljóðfæraleikari og einsöngvari og syngur jafnt þjóðlagatónlist, sígilda og samtímatónlist Hún starfar með kammerhópunum Duplum dúó og Stirni emsemble hér heima auk þess að taka þátt í erlendu samstarfi. Einstaklega fjölhæf og næm listakona sem verður afar spennandi að fylgjast með í framtíðinni.

Í flokki djass og blús er það Daníel Helgason gítarleikari sem hlýtur þessa nafnbót í ár.

Daníel Helgason er einstaklega fjölhæfur gítarleikari og kemur víða við í starfi sínu sem flytjandi lifandi tónlistar og í hljóðverum landsins. Hann er einn fárra íslenskra gítarleikara sem hefur tileinkað sér kúbanska tresgítarinn og kafað í stílbrögð tónlistar Suður Ameríku. Ásamt flytjandastarfinu er Daníel afkastamikið tónskáld og meðlimur tríósins DÓH sem sendi frá sér plötuna DÓH á árinu.

Bjartasta vonin í poppi, rokki, rappi og raftónlist var tilnefnd af starfsfólki Rásar 2 eins og undanfarin ár. Kosning fór fram á vef Rásar 2 en það er Bríet sem hlýtur nafnbótina í ár, bjartasta vonin 2019. Bríet gaf út sína fyrstu smáskífu árið 2018 og vakti strax mikla athygli enda setur eiðandi rödd Bríetar, næmni hennar og góð túlkun hana í fremstu röð söngkvenna. Það má búast við því að árið 2019 verði spennandi en von er á nýju efni auk þess sem hún er nú þegar farin að þreifa fyrir sér erlendis.

Heiðursverðlaun

Jón Ásgeirsson hlýtur heiðursverðlaun Samtóns í ár en það var mennta og menningarmálaráðherra Lilja Alfreðsdóttir sem afhenti Jóni verðlaunin og ekki annað sagt en að Jón Ásgeirsson sé verðskuldaður heiðursverðlaunahafi Íslensku tónlistarverðlaunanna.
Jón Ásgeirsson er fæddur á Ísafirði 1928 og varð því níræður á síðasta ári. Jón hefur á langri æfi verið afkastamikið tónskáld, kennari og höfundur kennslubóka í tónlist. Á meðal kammerverka hans má nefna strengjakvartetta, blásarakvintetta, oktett fyrir blásara og Sjöstrengjaljóð fyrir strengjasveit. Konsertarnir eru sex fyrir ýmis hljóðfæri; síðast var flautukonsert hans frumfluttur á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í janúar á þessu ári.


Jón Ásgeirsson er einna þekktastur fyrir söngtónlist sína; sönglög, kórverk og óperur. Þá samdi Jón ballettinn Blindisleik sem sýndur var í Þjóðleikhúsinu árið 1979. Einsöngslög Jóns eru um 90 talsins. Hæst ber lög hans við ljóð Halldórs Laxness: Maístjörnuna, Hjá lygnri móðu og Vor hinsti dagur, þá má nefna sönglagaflokkinn Svartálfadans við ljóð Stefáns Harðar Grímssonar og hvert mannsbarn á Íslandi þekkir kórlag hans við vísur Vatnsenda-Rósu: Augun mín og augun þín. Á meðal stærri kórverka Jóns eru Tíminn og vatnið við ljóð Steins Steinarrs og Á þessari rímlausu skeggöld við samnefnt kvæði Jóhannesar úr Kötlum.

Jón kenndi um árabil við Kennaraskóla Íslands, síðar Kennaraháskóla Íslands. Hann var skipaður prófessor við skólann árið 1996, fyrstur allra til þess að gegna slíkri stöðu í listgreinum á Íslandi. Tólf árum síðar, árið 2008, var honum veitt doktorsnafnbót í heiðursskyni fyrir framlag hans til tónlistaruppeldis í skólum landsins.

Fram komu

Saga Garðarsdóttir var kynnir kvöldsins í ár. Skemmtiatriði á Íslensku tónlistarverðlaununum í ár komu úr ýmsum áttum en áttu það öll sameiginlegt að vera tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna. Fram komu  á hátíðinni: Hórmónar, Víkingur Heiðar Ólafsson, GDRN, Auður, Karl Olgeirsson ásamt Ara Braga Kárasyni og Ragnheiði Gröndal, Ylja og að lokum var það hljómsveitin Valdimar sem stimplaði hátíðina út.

– – –

Alls voru veitt 38 verðlaun fyrir tónlistarárið 2018 en það er Samtónn sem stendur að baki Íslensku tónlistarverðlaununum. Að baki Samtón standa FÍH, FHF, STEF, SFS, FTT og Tónskáldafélag Íslands, Tilgangur Samtóns er að vinna að sameiginlegum hagsmunum og styrkja stöðu höfunda, flytjenda, framleiðenda og annarra rétthafa að tónlist. Samtónn kemur fram sameiginlega fyrir hönd íslenskra rétthafa og tónlistarfólks.

Stjórn Íslensku tónlistarverðlaunanna skipa Margrét Eir Hönnudóttir, Kristján Freyr Halldórsson og Jóhann Ágúst Jóhannsson.

– – –

Sérstakar þakkir frá Íslensku tónlistarverðlaunum fá:
Concept Events, RÚV, Harpa, Lúxor, Instamyndir, Alda Music, Albumm, Isavia, Tónlistarsjóður og allir þeir sem komu fram á hátíðinni og lögðu hönd á plóginn á einn eða annan hátt

– – –

Verðlaunahafar Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir árið 2018 eru

Opinn Flokkur / Þjóðlagatónlist / Kvikmynda- og leikhústónlist

Útgáfa ársins – Kvikmynda- og leikhústónlist
Davíð Þór Jónsson – Kona fer í stríð

Plata ársins – Opinn flokkur
Gyða Valtýsdóttir – Evolution

Plata ársins – Þjóðlagatónist
Umbra – Sólhvörf

Lag/tónverk ársins opinn flokkur / Þjóðlagatónlist / Kvikmynda- og leikhústónlist
Arnór Dan, Stone by stone

Plötuumslag ársins
Jónas Sig. – Milda hjartað
Hönnun: Ámundi Sigurðsson
Ljósmyndir: Jónatan Grétarsson

Upptökustjórn ársins:
Ómar Guðjónsson fyrir Milda hjartað – Jónas Sig


Rokk, popp, raftónlist, rapp og hiphopp

Plata ársins – Popp:
GDRN – Hvað ef

Plata ársins – Rokk:
Valdimar – Sitt sýnist hverjum

Plata ársins – Rapp/Hiphopp:
JóiPé & Króli – Afsakið hlé

Plata ársins – Raftónlist:
Auður – Afsakanir

Lag ársins – Popp:
GDRN – Lætur mig

Lag ársins – Rokk:
Benny Crespo’s Gang – Another Little Storm

Lag ársins – Rapp/Hiphopp:
JóiPé & Króli – Í átt að tunglinu

Lagahöfundur ársins
Auðnn Lúthersson (Auður)

Textahöfundur ársins
Svavar Pétur Eysteinsson (Prins Póló)

Söngkona ársins
Guðrún Ýr Eyfjörð Jóhannesdóttir (GDRN)

Söngvari ársins
Valdimar Guðmundsson

Tónlistarviðburður ársins
Aldrei fór ég suður

Tónlistarflytjandi ársins
Hatari

Bjartasta von Rásar 2 og Íslensku tónlistarverðlaunanna
Bríet

Tónlistarmyndband ársins 2018 – Albumm.is og Íslensku Tónlistarverðlaunin
GDRN – Lætur mig ft. Floni & ra:tio
Leikstjóri: Ágúst Elí


Sígild og samtímatónlist

Plata ársins – Sígild og samtímatónlist
Johann Sebastian Bach – Víkingur Heiðar Ólafsson

Tónverk ársins – Sígild og samtímatónlist
Spectra – Anna Þorvalds

Tónlistarflytjandi ársins – einstaklingar : Sígild og samtímatónlist
Víkingur Heiðar Ólafsson

Tónlistarflytjandi ársins – hópar : Sígild og samtímatónlist
Strokkvartettinn Siggi

Söngvari ársins – Sígild og samtímatónlist
Oddur Arnþór Jónsson

Söngkona ársins – Sígild og samtímatónlist
Hallveig Rúnarsdóttir

Tónlistarviðburður ársins – Tónleikar : Sígild og samtímatónlist
Brothers eftir Daníel Bjarnason – Íslenska Óperan, Sinfóníuhljómsveit Íslands ásamt einsöngvurum og kór Íslensku óperunnar

Tónlistarhátíð ársins – hátíðir : Sígild og samtímatónlist
Óperudagar í Reykjavík

Bjartasta Vonin – Sígild og samtímatónlist
Björk Níelsdóttir


Djass og blús

Plata ársins – Djass og blús
Karl Olgeirsson – Mitt bláa hjarta

Tónverk ársins – Djass og blús
Bugða – Agnar Már Magnússon

Lagahöfundur ársins – Djass og blús
Karl Olgeirsson

Tónlistarflytjandi ársins – Einstaklingar : Djass og blús
Kjartan Valdemarsson

Tónlistarflytjandi ársins – Hópar : Djass og blús
Stórsveit Reykjavíkur

Tónlistarviðburðir ársins – Djass og blús
Tónleikaraðir Jazzklúbbsins Múlans

Bjartasta vonin – Djass og blús
Daníel Helgason

 

Heiðursverðlaun Samtóns og Íslensku tónlistarverðlaunanna

Jón Ásgeirsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

LAUS STAÐA Í DÓMNEFND

By | Fréttir | No Comments

LAUS STAÐA Í DÓMNEFND ÍSLENSKU TÓNLISTARVERÐLAUNANNA

Stjórn SAMTÓNs sem er bakhjarl Íslensku tónlistarverðlaunanna ( ÍSTÓN ) hefur ákveðið að gefa félagsmönnum aðildarfélaga SAMTÓNs kost á að bjóða sig fram til starfa sem fulltrúar í dómnefnd í flokknum sígild- og samtímatónlist vegna tónlistarársins 2019.

Æskilegt er að þeir einstaklingar sem sitja í dómnefndum hafi umtalsverða þekkingu á viðkomandi sviði og þeir komi að hluta til úr röðum höfunda, flytjenda og/eða framleiðenda eða hafi fjallað um tónlist í fjölmiðlum.

Við skipun dómnefnda skal eins og unnt er taka tillit til aldursdreifingar og jafnrar stöðu karla og kvenna. Enginn einstaklingur í dómnefnd má vera viðriðinn útgáfu nokkurra þeirra hjóðrita sem tilnefnd verða fyrir árið 2019.

Stjórn SAMTÓNs mun fara yfir umsóknir og velja síðan 3 til 4 nýja fulltrúa í dómnefndina. Þeir sem hafa hug á því að senda inn umsókn er vinsamlega bent á að fara inn á slóð þá sem tilgreind er hér á eftir og að fylla út umsóknareyðublaðið og senda á

http://goo.gl/forms/U7qYCS4s9d

Umsóknarfrestur er til 1. apríl.

INGA ELÍN design gerir verðlaunagrip Íslensku tónlistarverðlaunanna.

Tilnefningar ásamt rökstuðningi dómnefnda

By | Fréttir | No Comments

Tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2018 voru kynntar 20. febrúar að viðstöddu fjölmenni á Bryggjunni brugghúsi.

 

Hér að neðan er að finna lista yfir tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2018 ásamt rökstuðningi dómnefnda úr öllum flokkum.

DJASS OG BLÚS – TILNEFNINGAR

PLATA ÁRSINS

Karl Olgeirsson – Mitt bláa hjarta
Mitt bláa hjarta inniheldur fjórtán nýja djasssöngva. Bæði tónsmíðar og textar eru grípandi með hnyttnum skírskotunum í íslenskan veruleika. Fjöldi söngvara og hljóðfæraleikara kemur fram á plötunni og er hún kærkomin viðbót í flóru íslenskra djasssöngva.

DÓH Tríó – DÓH
Hér er sköpunarkrafturinn við völd og DÓH tríói halda engin bönd á fyrstu plötu sinni.
Spilagleðin er taumlaus og víðáttan útgangspunktur í tónsmíðum hljómsveitarinnar.

Sunna Gunnlaugs – Ancestry
Platan Ancestry leiðir hlustandann inn í heim þar sem lag og ljóð rennur saman í eitt. Tríó Sunnu Gunnlaugs leikur ásamt finnska trompetleikaranum Verneri Pohjola en aðrir meðlimir tríósins eru þeir Þorgrímur Jónsson kontrabassaleikari og Scott McLemore trommari.

Agnar Már – Hending
Hugljúf plata þar sem tónsmíðarnar fá að njóta sín í einfaldleika dúettformsins. Hljóðfæraleikur þeirra Agnars og gítarleikarans Lage Lund er listilega vel samofinn þar sem fjölmörgum stílbrögðum er teflt saman.

Scott McLemore – The Multiverse
Diskurinn The Multiverse ber nafn sitt með rentu. Tónsmíðarnar streyma hver á eftir annarri þar sem hljóðfæraleikurinn einkennist af spilagleði og áreynslulausri för út í hið óþekkta.

TÓNVERK ÁRSINS

Mitt bláa hjarta
Tónskáld: Karl Olgeirsson
Textahöfundur: Karl Olgeirsson
Ballaða sem dansar á mörkum djass og hefðbundins sönglags. Kallast á við íslensk kórlög frá miðri síðustu öld og fjallar um þau óljósu mörk náttúru og mannlegra tilfinninga.

Norðurljós
Tónskáld: Sigmar Þór Matthíasson
Upphafs- og titillag heilsteyptrar og spennandi frumraunar Sigmars Þórs Matthíassonar. Verkið Norðurljós er eins og frumgerðin, bæði litríkt og á stöðugri hreyfingu.

Ancestry
Tónskáld: Sunna Gunnlaugs
Verkið dregur innblástur frá norrænum hefðum með sínum fimmundum í bassa en laglínan kallar fram aðra hljóma sem um leið opnar fyrir frjálst hugarflug. Tónverkið byrjar mjög lágstemmt en nær hámarki í lokin.

To Catch a Glimpse
Tónskáld: Scott McLemore
Tónsmíðin er full af krafti en á sama tíma íhugul. Þannig mætast andstæður og fortíðarinnar er minnst á meðan horft er til framtíðar.

Bugða
Tónskáld: Agnar Már Magnússon
Hér hlykkjast raddir píanós og gítars hverjar um aðra í fallegu og áhugaverðu samtali sem unun er að hlýða á. Þægilegt lag í anda þeirra tónsmíða sem Agnar Már er þekktur fyrir.

 LAGAHÖFUNDUR ÁRSINS – DJASS OG BLÚS

Karl Olgeirsson
Karl Olgeirsson skilar af sér 14 nýjum djasssöngvum á hljóðriti og á nótum á árinu 2018. Verkin eru fjölbreytt og aðgengileg án þess að gefa nokkurn afslátt af fagurfræði eða innihaldi. Fersk vindhviða inn í tónlistarlífið.

 Sunna Gunnlaugs
Sunna Gunnlaugsdóttir er þjóðinni þekkt sem einstaklega ötull og áhugaverður djasshöfundur. Af plötunni Ancestry ber hæst að nefna samnefnt lag en aukinheldur hefur Sunna samið bæði fyrir kvikmynd og sjónvarp.

Scott McLemore
Auk þess að senda frá sér eina af betri djassplötum ársins, The Multiverse, á Scott McLemore tvö firnasterk lög á plötu Sunnu Gunnlaugsdóttur, Ancestry, sem einnig kom út á árinu.

Agnar Már Magnússon
Á haustmánuðum kom út platan Hending sem Agnar Már Magnússon vann í samstarfi við norska gítarleikarann Lage Lund. Á henni sýnir Agnar enn á ný hversu næmur og hæfileikaríkur lagahöfundur hann er.

 Sigmar Þór Matthíasson
Sigmar Þór Matthíasson sýnir á sinni fyrstu sólóplötu ákaflega fjölbreytta og skemmtilega takta sem gefa bæði fögur fyrirheit og staðsetja hann jafnframt í fremstu röð djasstónskálda.

TÓNLISTARFLYTJANDI ÁRSINS – EINSTAKLINGUR

Kjartan Valdimarsson
Kjartan Valdemarsson er einn virkasti og ástsælasti tónlistarmaður þjóðarinnar og hefur verið um árabil. Hann hefur leikið inn á fjöldann allan af hljómplötum, á tónleikum og unnið mikið í leikhúsi, útvarpi og sjónvarpi – ýmist sem tónskáld, útsetjari eða hljóðfæraleikari.

Sunna Gunnlaugs
Sunna er þekkt sem sérlega ötull og afkastamikill djasspíanóleikari og tónlistarkona. Síðasta ár er þar ekki undanskilið. Auk þess að senda frá sér eina af betri djassplötum síðasta árs Ancestry, hefur hún komið fram á fjölda tónleika bæði innanlands sem utan.

Magnús Trygvason Eliassen
Magnús Trygvason Eliassen er að öðrum ólöstuðum, einn eftirsóttasti trommuleikari Íslands. Meðal hljómsveita sem Magnús leikur með má nefna, adhd, Moses Hightower, amiinu og Snorra Helgasyni ásamt mörgum öðrum hljómsveitum í íslenskum djassi, tilraunatónlist og poppi.

Jóel Pálsson
Jóel Pálsson hefur verið atkvæðamikill í íslensku djasslífi undanfarin 25 ár. Jóel gaf út sína sjöundu hljómplötu með frumsömdu efni, Dagar koma, á árinu 2018. Hann er meðlimur í Stórsveit Reykjavíkur, hljómsveitinni Annes, Arnold Ludvig sextet og SJS BigBand. Þess utan leikur Jóel reglulega með ýmsum listamönnum, má þar nefna á hljómplötum Karls Olgeirssonar og Sigmars Þórs sem komu út 2018.

Daníel Helgason
Daníel Helgason er einstaklega fjölhæfur gítarleikari og kemur víða við starfi sínu sem flytjandi lifandi tónlistar og í hljóðverum landsins. Hann er einn fárra íslenskra gítarleikara sem hefur tileinkað sér kúbanska tresgítarinn og kafað í stílbrögð tónlistar Suður-Ameríku. Ásamt flytjandastarfinu er Daníel afkastamikið tónskáld og meðlimur tríósins DÓH.

 TÓNLISTARFLYTJANDI ÁRSINS – HÓPAR

 Stórsveit Reykjavíkur
Starfsemi Stórsveitar Reykjavíkur var með blómlegasta móti á síðasta ári. Hljómsveitin hélt marga fjölbreytta og metnaðarfulla tónleika þar sem lögð var áhersla á nýja tónlist, bæði innlenda sem erlenda. Stórsveitin stóð að nýárssveiflutónleikum í Eldborg ásamt gestasöngvurum, jólatónleikum fyrir fjölskylduna með Góa auk þess að tengjast skólastórsveitum og stórsveitum áhugamanna á stórsveitadaginn. Allir tónleikarnir fóru fram í tónlistarhúsinu Hörpu og voru vel sóttir.

DÓH – Tríó
DÓH-tríó eru Daníel Helgason (gítar og rafbassi), Óskar Kjartansson (trommur) og Helgi Rúnar Heiðarsson (saxafónn). DÓH-tríóið var stofnað árið 2013 og hafa þeir félagar leikið víða, m.a. á Jazzhátíð Reykjavíkur. Tríóið leikur frumsamda tónlist.

Ingi Bjarni Trio
Tríó Inga Bjarna inniheldur þrjá virka tónlistarmenn frá Íslandi og Færeyjum, þá Inga Bjarna Skúlason á píanó og Magnús Trygvason Eliassen trommara (ADHD, amiina) frá Íslandi og Bárð Reinert Poulsen (The Fjords, Espen Berg Trio) frá Færeyjum á bassa. Tríóið hefur spilað á tónlistarhátíðum eins og Young Nordic Jazz Comets, Copenhagen Jazz Festival, Reykjavík Jazz Festival, Iceland Airwaves og fleiri.

TÓNLISTARVIÐBURÐUR ÁRSINS

Blúshátíð í Reykjavík
Blúshátíð í Reykjavík 2018 var sett með blússkrúðgöngu frá Leifsstyttu og niður Skólavörðustíginn, laugardaginn 24. mars. Á Blúshátíð í Reykjavík 2018 voru þrennir stórtónleikar á Hilton Reykjavík Nordica í dymbilviku.

Tónleikaraðir Jazzklúbbsins Múlans
Tuttugasta og fyrsta starfsár Múlans árið 2018 var að vanda metnaðarfullt og sýndi gott þversnið af því sem er að gerast í íslensku djasssenunni. Fjöldi tónleika voru 43 og fram komu margir af fremstu tónlistarmönnum og -konum landsins ásamt nokkrum vel völdum erlendum gestum.

Tónleikaröð Stórsveitar Reykjavíkur
Fjölbreytt og metnaðarfull tónleikaröð í tónlistarhúsinu Hörpu þar sem lögð var áhersla á nýja tónlist, bæði innlenda og erlenda, sögulega mikilvæga tónlist frá ýmsum tímum og tónlist fyrir börn, auk tengingar við skólastórsveitir og stórsveitir áhugamanna.

Jazzhátíð Reykjavíkur
Jazzhátíð 2018 fór fram dagana 5.-9. september 2018. Á hátíðinni kom fram fjöldi innlendra og erlendra listamanna á samtals 20 viðburðum. Það er í takt við virka jafnréttisstefnu Jazzhátíðar Reykjavíkur að konur komu að mörgum þessara 20 viðburða og voru 7 viðburðir leiddir af konum en það hlutfall hefur farið vaxandi undanfarin ár. Samstarf innlendra og erlendra listamanna var í brennidepli í ár sem og útgáfa á nýju efni.

Freyjujazz
Tónleikaröðin Freyjujazz fór fram í Listasafni Íslands með tónleikum annars vegar í júlí og ágúst og hins vegar í október og nóvember, auk einna stakra tónleika í desember. Alls 13 tónleikar á árinu. Markmið Freyjujazz er að gera konur sýnilegri í djassi auk þess að skapa vettvang fyrir djasskonur að koma fram og þannig ýta undir aukin samstarfs kynjanna.

 

SÍGILD- OG SAMTÍMATÓNLIST – TILNEFNINGAR

PLATA ÁRSINS

Anna Þorvaldsdóttir – AEQUA
Afar vönduð útgáfa. Gefur heildstæða mynd af kammerverkum Önnu Þorvaldsdóttur og afburða hljóðfæraleikur sendir áheyrandann í ferðalag um hinn einstaka hljóðheim Önnu. Verkin hafa hvert og eitt sína dáleiðandi útgeislun en saman á plötu virka þau eins og heilt sólkerfi! Unun á að hlýða.

Jóhann Jóhannsson – Englabörn & Variations
Tónlist Jóhanns Jóhannssonar við leikritið Englabörn eftir Hávar Sigurjónsson hefur fyrir löngu unnið sér mikilvægan sess. Á nýútgefinni plötu, Englabörn & Variations, votta vinir og samstarfsmenn Jóhanni virðingu sína með því að fullgera verkið Englabörn & Variations, en Jóhann vann að endurútgáfu verksins þegar að hann féll sviplega frá á liðnu ári. Útkoman er sérlega fallegur diskur þar sem frábærum tónsmíðum Jóhanns eru gerð skil af sjaldgæfu innsæi og næmni. Fágætur diskur og verðmætur.

 Þráinn Hjálmarsson – Influence of buildings on musical tone
Hér gefur að heyra fimm kammerverk eftir Þráin Hjálmarsson tónskáld sem samin eru fyrir flytjendur í fremstu röð: CAPUT, Ensemble Adapter, Íslenska flautukórinn, Nordic Affect og Kristínu Þóru Haraldsdóttur. Ótrúlega heildstæð og mögnuð plata sem vex við hverja hlustun.

Víkingur Heiðar Ólafsson – Johann Sebastian Bach
Hljómborðstónlist eftir Johann Sebastian Bach er viðfangsefnið á nýjustu plötu Víkings Heiðars Ólafssonar. Óhætt er að fullyrða að Víkingur geri tónlist þessa mikla meistara barokksins hreint frábær skil og viðtökur á heimsvísu eftir því. Stórkostleg plata í alla staði.

Erla Dóra Vogler og Eva Þyri Hilmarsdóttir – Jórunn Viðar – Söngvar
Erla Dóra Vogler og Eva Þyri Hilmarsdóttir færa hlustendum höfundarverk Jórunnar Viðar á einkar fallegum diski sem inniheldur, auk þess fjársjóðar sönglaga sem þekktur er, tónsmíðar eftir Jórunni sem heyrast nú í fyrsta sinn. Samspil þeirra er einstakt og túlkunin innblásin.

Nordic Affect – He(a)r
Platan He(a)r er enn ein rósin í hnappagat tónlistarhópsins Nordic Affect en platan hefur að geyma sjö splunkuný verk eftir Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur, Önnu Þorvaldsdóttur, Mirjam Tally, Hildi Guðnadóttur og Höllu Steinunni Stefánsdóttur. Verkin eru öll samin sérstaklega fyrir tilstilli Nordic Affect og eru flutt af einstakri innlifun og næmi. Frábær plata.

TÓNVERK ÁRSINS

Farvegur – Þuríður Jónsdóttir
Farvegur var frumfluttur á tónlistarhátíð Rásar 1 í nóvember 2018 en verkið var pantað af Rás 1. Í verkinu fléttast saman fiðlu- og náttúruhljóð; fiðluleikurinn var í höndum Unu Sveinbjarnardóttur sem gerði verkinu einstök skil. Djúp og ágeng náttúruhljóð voru frábærlega útfærð – flutningur verksins og upplifun af því afar eftirminnileg.

From My Green Karlstad – Finnur Karlsson
Sérlega eftirtektarvert og innblásið tónverk. Finnur Karlsson er án nokkurs vafa eitt af eftirtekarverðari tónskáldum yngri kynslóðarinnar.

Loom – María Huld Markan Sigfúsdóttir
Loom býr yfir dáleiðandi og tímalausri fegurð. Hljóðheimurinn forn og nýr í bland, undiraldan þung og heillandi. Loom hljómaði í fyrsta sinn á Reykjavík Festival í Los Angeles í apríl árið 2017 en hérlendis hljómaði það í fyrsta sinn á á Myrkum músíkdögum í upphafi ársins 2018. Verkið er frábærlega túlkað af Nordic Affect á nýjustu plötu hópsins.

METACOSMOS – Anna Þorvaldsdóttir
Margslungið verk og mikilvæg varða á ferli eins af okkar helstu tónskálda. Ævintýralega magnað og dáleiðandi ferðalag inn í andstæður ógnar, átaka og fegurðar.

Silfurfljót – Áskell Másson
Í Silfurfjlóti, konsert fyrir klarínettu og hljómsveit, fer fram ljóðrænt samtal milli einleikara og hljómsveitar sem einkennist af birtu og tærleika. Framvinda verksins færir hlustendum seiðandi laglínur jafnt sem stórbrotnar myndir í tónmáli hljómsveitarinnar.

Spectra – Anna Þorvaldsdóttir
Flæðandi tónmál – hljóðheimur og línur sem ásækja mann löngu eftir að hlustun er lokið. Seiðandi en jafnframt ögrandi tónvefur.

Split thee, Soul, to Splendid Bits (attn.: no eternal life/light this time around) – Bára Gísladóttir
Sterk rödd höfundar skín í gegnum verk Báru, hvort heldur sem um er að ræða umfangsmikil verk eða smærri. Í Split thee, Soul, to Splendid Bits nýtir Bára sér hljóðheim barokks á nýstárlegan hátt í afar heillandi tónverki.

TÓNLISTARVIÐBURÐUR ÁRSINS – TÓNLEIKAR 

Budapest Festival Orchestra og Iván Fischer – Tónleikar í Eldborg, Hörpu
Það er sannkallaður stórviðburður þegar hingað til lands rekur á fjörur ein af allra bestu sinfóníuhljómsveitum heims. Því var eftirvæntingin mikil fyrir komu Budapest Festival Orchestra ásamt aðalstjórnanda þeirra Iván Fisher. Hljómsveitin ungverska stóð undir öllum þeim væntingum sem til hennar voru gerðar og gott betur því stórkostlegir tónleikar hennar munu seint líða úr minni þeirra sem á hlýddu.

#bergmálsklefinn
Með athyglisverðari óperusýningum seinni ára. Hrá en úthugsuð sýning sem á beint erindi við samtímann og brýtur blað í sýningargerð í óperuuppfærslum á Íslandi.

Brothers – Íslenska óperan
Stórfengleg uppfærsla á magnþrunginni óperu, skipuð frábærum listamönnum í hverju hlutverki, bæði innan sviðs og utan. Einsöngvarar ásamt og kór Íslensku óperunnar og Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn tónskáldsins Daníels Bjarnasonar sköpuðu eina eftirminnilegustu óperusýningu sem sett hefur verið upp hér á landi.

Víkingur Heiðar Ólafsson – útgáfutónleikar, Bach
Til að fagna útgáfu nýjustu plötu sinnar, fyrir hið virta útgáfufyrirtæki Deutsche Grammophon, blés Víkingur Heiðar til tónleika í Eldborgarsal Hörpu. Víkingur bauð upp á Bach og Beethoven og túlkaði og kynnti tónlistina af slíku listfengi að lengi verður í minnum haft. Frábærir tónleikar.

Barokkbandið Brák – Spíralar Versala
Barokkhópurinn Brák bauð upp í dans á tónleikum sínum, Spíralar Versala, þar sem endurvakin var sú stemmning sem ríkti í höllum Sólkonungsins. Tónlist, dans, glaumur og gleði myndaði órofa heild sem einkenndi barokktónlist Frakka. Á þessum tónleikum Barokkbandsins Brákar sameinuðust fyrrnefndir þættir í sterkri listrænnni útkomu sem veitti unnendum barokktónlistar fágæta innsýn inn í þetta skemmtilega tímabil tónlistarsögunnar.

Edda II: Líf guðanna – 23. mars / Sinfóníuhljómsveit Íslands og Schola Cantorum
Hið tímabæra verkefni, Edda II: Líf guðanna, braut blað í tónleikasögu Íslands. Mögnuð frammistaða kórs, hljómsveitar einsöngvara birti hugarheim tónskáldsins Jóns Leifs og sýn hans á arfinn sem liggur í Eddukvæðunum á áhrifamikinn og stórbrotinn hátt.

Íslendingasögur – Sinfónísk sagnaskemmtun – hátíðarviðburður fullveldisafmælisins 1. desember
Íslendingasögur – sinfónísk sagnaskemmtun, fór ótroðnar slóðir í efnistökum jafnt sem fagurfræðilegri umgjörð. Óvænt, glettið og tilfinningaþrungið sjónarspil sem veitti yfirgripsmikla mynd af okkar sameiginlega menningararfi, hið stóra jafnt sem smáa, það nýja og hið fornkveðna. Með frásagnarlegum þræði sem teygði sig gegnum aldirnar til nútímans var birt krafa um skýra og bjarta framtíðarsýn til handa landi og þjóð.

TÓNLISTARFLYTJANDI ÁRSINS – EINSTAKLINGAR

Sæunn Þorsteinsdóttir
Sæunn Þorsteinsdóttir er einn fremsti hljóðfæraleikari landsins. Hún býr yfir framúrskarandi tækni og ýtir stöðugt á mörk hins mögulega. Árið 2018 kom hún m.a. fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands þegar hún frumflutti á Íslandi sellókonsertinn Quake eftir Pál Ragnar Pálsson og lék Bow to String eftir Daníel Bjarnason auk þess sem hún frumflutti sellókonsertinn Wanderlied eftir Betsy Jolan í Bandaríkjunum. Sæunn kom auk þess fram á fjölmörgum tónleikum, m.a. með strengjakvartettinum Decode, beggja vegna Atlantsála.

Una Sveinbjarnardóttir
Una Sveinbjarnardóttir er einstaklega næmur, fjölhæfur og metnaðarfullur listamaður, hvort sem er í starfi sínu í Sinfóníuhljómsveit Íslands, Strokkvartettnum Sigga eða margvíslegum einleiksverkefnum. Á árinu frumflutti hún m.a. ný tónverk eftir Þuríði Jónsdóttur, Veronique Vöku, Oliver Kentish og Hauk Þór Harðarson.

Víkingur Heiðar Ólafsson
Víkingur Heiðar hefur fyrir löngu skipað sér í sess meðal allra fremstu listamanna þjóðarinnar. Á liðnu ári hélt hann frábæra útgáfutónleika til þess að fagna útgáfu nýs geisladisks með tónlist Johann Sebastians Bach auk þess sem hann frumflutti nýjan píanókonsert Hauks Tómassonar.

TÓNLISTARFLYTJANDI ÁRSINS – HÓPAR

Barokkbandið Brák
Barokkbandið Brák hefur á undanförnum árum vakið verðskuldaða athygli fyrir frábæran flutning og frumlega nálgun á tónlist barokktímabilsins. Það er ávallt sterk upplifun að sjá og heyra þennan úrvals tónlistarhóp sem hefur á skömmum tíma skipað sér í flokk eftirtektarverðustu kammerhópa landsins.

Kammersveitin Elja
Kammersveitin Elja er skipuð ungum tónlistarmönnum í fremstu röð og hefur á sínum stutta starfsaldri vakið eftirtekt fyrir sérlega vönduð vinnubrögð og einstaklega ferskt og skemmtilegt verkefnaval þar sem blandað er saman gömlu og nýju, klassík og framúrstefnu á sannfærandi og næman hátt. Fyrsta flokks flutningur!

Schola Cantorum
Á árinu 2018 bar hæst þátttaka Schola Cantorum í Eddu II; Lífi guðanna eftir Jón Leifs ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands og einsöngvurum. Kórparturinn í því verki hefur löngum verið talinn á mörkum hins syngjanlega og vann kórinn sannkallað þrekvirki með söng sínum. Fjölbreytt verkefnaval var á hádegistónleikum og auk tónleika á allraheilagramessu má benda á lykilhlutverk kórsins í hátíðardagskrá í tilefni af aldarafmæli fullveldis Íslands.

Nordic Affect
Afar afkastamikið ár Nordic Affect einkenndist af fjölbreyttum verkefnum með frábæru samspili og einstaklega næmri listrænni stjórnun – allt með gæði og nýsköpun í fyrirrúmi. Hvert verkefni var afar vel afmarkað og bauð áheyrendum sífellt upp á ný sjónarhorn á starf hópsins og tónlistarflutning, ásamt því að beina kastljósinu að tónskáldunum sem hópurinn vinnur með.

Strokkvartettinn Siggi
Strokkvartettinn Siggi hefur frá upphafi verið í fremstu röð kammerhópa og unnið ötullega að nýsköpun í tónlistarlífi hér á landi. Tónleikar þeirra á Listahátíð í Reykjavík, þar sem verk eftir íslensk tónskáld voru leikin á hljóðfæri sem öll eru smíðuð af Jóni Marínó Jónssyni, voru afar eftirminnilegir og ekki síður tónleikar þeirra í Hörpu í október síðastliðnum. Fagmennska í hvívetna og heillandi samspil.

SÖNGVARI ÁRSINS 

Benedikt Kristjánsson tenór
Benedikt Kristjánsson söng hlutverk Guðspjallamannsins í Jólaóratoríu Bachs með Dómkórnum undir stjórn Kára Þormar af fádæma listfengi sem einkenndist af næmri túlkun á tónlæsi auk þess sem björt tenórrödd hans naut sín í aríum verksins svo unun var á að hlýða.

Eyjólfur Eyjólfsson
Tenórsöngvarinn Eyjólfur Eyjólfsson kom, sá og sigraði í hlutverki Loka Laufeyjarsonar í uppfærslu á Þrymskviðu sem haldin var í tilefni af níræðisafmæli tónskáldsins Jóns Ásgeirssonar.

Oddur Arnþór Jónsson
Það er ekki heiglum hent að taka að sér burðarhlutverk í nýrri óperu með afar skömmum fyrirvara. Slíkt gerði baritónsöngvarinn Oddur Arnþór Jónsson í óperunni Brothers eftir Daníel Bjarnason þar sem hann túlkaði hlutverk Michael stórkostlega í eftirminnilegri uppfærslu, bæði hvað varðar leik og söng.

SÖNGKONA ÁRSINS

Hallveig Rúnarsdóttir
Hallveig Rúnarsdóttir blómstraði í verkefnum sínum á liðnu ári. Hún á jafnt heima í barokktónlist, klassík, ljóðasöng og samtímatónlist og hefur einstakt lag á að snerta hjörtu áheyrenda. Hún heillaði áhorfendur meðal annars með söng sínum í Klassíkin okkar og skemmti ungum sem öldnum í titilhlutverkinu í frumflutningi á óperunni Gilitrutt eftir Hildigunni Rúnarsdóttur. Verulega gjöfult ár hjá heillandi listakonu.

Hanna Dóra Sturludóttir
Hanna Dóra fór afar fallega með hin ýmsu hlutverk sín í bæði tónleikauppfærslum og óperusýningum. Hún söng í jafn ólíkum verkum eins og Sálumessu eftir Duruflé og Jólaóratoríunni eftir J.S. Bach með Dómkórnum, Eddu II eftir Jón Leifs með Sinfóníuhljómsveit Íslands og í hlutverki móðurinnar í óperunni Brothers. Afar gott ár hjá einni af okkar bestu söngkonum!

Valgerður Guðnadóttir
Valgerður Guðnadóttir hefur á undanförnum árum fest sig í sessi sem ein fremsta söngkona okkar og eitt af aðalsmerkjum hennar er að þau verkefni sem hún tekst á við eru af fjölbreyttum toga. Á liðnu ári sýndi hún meðal annars stórkostlega frammistöðu í hlutverki Christine í Óperudraugnum, lét ljós sitt skína á jólatónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands sem og Vínartónleikum og tókst á við hlutverk Völvunnar í Völuspá eftir Þorvald Bjarna Þorvaldsson.

TÓNLISTARVIÐBURÐUR ÁRSINS – HÁTÍÐIR

Myrkir músíkdagar
Myrkir músíkdagar hafa einstaka sérstöðu meðal tónlistarhátíða á Íslandi og vægi út fyrir landsteinana. Þeir eru einstakur vettvangur nýsköpunar fyrir íslensk samtímatónskáld og opna hringsjá út í þróunina utan Íslands, með stórkostlegri breidd erlendra gesta meðal tónskálda og flytjenda. Frábær listræn stjórnun, fjölbreytt val tónleikastaða auk ýmis konar viðburða með ungum tónlistarmönnum og áheyrendum eykur mjög á framsækinn hátíðarblæ Myrkra músíkdaga.

Óperudagar í Reykjavík
Með fádæma framtakssemi og sterkri listrænni sýn hafa stjórnendur Óperudaga sýnt fram á nýja möguleika og hinar fjölbreyttustu birtingarmyndir óperuformsins. Bæði með því að færa það til nútímans og hylla hið hefbundna, auk þess að fara nýstárlegar leiðir í að ná til og heilla áhorfendur.

Reykholtshátíð
Metnaðarfull tónlistarhátíð á sögufrægum slóðum og fögrum stað með sterkan listrænan fókus. Þar mætast fyrirtaks tónlistarflutningur og jafnvægi milli erlendra sígildra verka og íslenskra tónverka sem sjaldan hafa verið flutt hér á landi. Heildstætt faglegt yfirbragð á hátíð sem vaxið hefur ásmegin með ári hverju að undanförnu.

OPINN FLOKKUR / ÞJÓÐLAGATÓNLIST / LEIKHÚS- OG KVIKMYNDATÓNLIST

 PLATA ÁRSINS – ÞJÓÐLAGATÓNLIST

Ylja – Dætur
Gömlu íslensku þjóðlögin lifna við í nýjum útsetningum þeirra Gígju, Bjarteyjar og Guðmundar Óskars. Tónlistarflutningur allur, umgjörð og hljóðvinnsla er til fyrirmyndar.

Ásgeir Ásgeirsson – Travelling Through Cultures
Gítarleikarinn Ásgeir Ásgeirsson sendir hér frá sér aðra plötu hvar hann sameinar tvo ólíka menningarheima. Íslensku þjóðlögin fá hér enn ævintýralegri blæ þar sem hljómur Austurlanda litar lögin sínum einkennandi litum. Sigríður Thorlacius gefur tónlistinni svo aukinn slagkraft og útkoman verður bæði frumleg, vönduð og skemmtileg.

Umbra – Sólhvörf
Á Sólhvörfum tekur Umbra hlustandann í heillandi ferðalag þar sem tónlist tengd dimmum vetrardögum er í forgrunni. Lögin eru sum hver vel þekkt en önnur minna, en eiga það sameiginlegt að vera framúrskarandi útsett og flutt af þessum frábæra hópi tónlistarkvenna. Virkilega vönduð plata.

Umbra – Úr myrkrinu
Dularfullur og seiðandi hljóðheimur íslensks og miðevrópsks tónlistararfs miðalda. Út úr myrkrinu og inn í ljós birtist okkur hinn heillandi heimur fjölröddunar fyrri alda í fegurð og frumleika sem á erindi við nútímann.

Teitur Magnússon – Orna
Frumleg og ögrandi plata og alls ekki hefðbundin þjóðlagaplata. Fer þvert á mörk og mæri, heldur þeim skrýtileika sem var að finna á 27 en er á yfirborðinu áhlýðileg, þjóðlagakennd poppplata þar sem allt er smávegis á skakk og skjön.

 

ÚTGÁFA ÁRSINS – LEIKHÚS OG KVIKMYNDATÓNLIST

Atli Örvarsson – Lói, þú flýgur aldrei einn
Lói – þú flýgur aldrei einn er afar vel heppnað tónverk við söguna um Lóa litla sem er að læra að bjarga sér úti í hinum harða heimi. Tónlistin er lituð af tilfinningum Lóa litla og er allur skalinn túlkaður af mikilli næmni og fagmennsku Atla Örvarssonar.

Davíð Þór Jónsson – Kona fer í stríð
Tónlistin við mynd Benedikts Erlingssonar, Kona fer í stríð, gegnir óvanalega ríku hlutverki því hún er algerlega órofa hluti af myndmáli hennar. Tríóið sem hana flytur, með höfundinn Davíð Þór Jónsson í fararbroddi, er nokkurs konar framlenging á sjálfri aðalsögupersónu kvikmyndarinnar. Tónlistin og kvikmyndin mynda því órofa heild.

Gyða Valtýsdóttir – Mihkel
Um er að ræða fyrstu kvikmyndatónlistina í fullri lengd sem Gyða Valtýsdóttir vinnur, en Mihkel/Undir halastjörnu er kvikmynd eftir Ara Alexander Ergis Magnússon. Flæðið er dularfullt, ljóðrænt og seiðandi og ber höfundinum fagurt vitni.

Veigar Margeirsson – Efi, dæmisaga
Áhrifamikil tónlist Veigars í leikverkinu Efa, dæmisögu, skipar stóran sess í sýningunni en þetta er fyrsta verkefni Veigars fyrir Þjóðleikhúsið. Ljóðræn og falleg tónlist, í senn látlaus og tregafull.

Jóhann Jóhannsson – Mandy
Síðasta höfundarverk Jóhanns Jóhannssonar. Stórbrotið tónverk þar sem teknótragískar melódíur togast á við hið ljóðræna.

 

PLATA ÁRSINS – OPINN FLOKKUR

 Sunna Friðjóns – Enclose
Afar frambærilegt verk frá þessari lítt þekktu tónlistarkonu. Dreymin popplög og knýjandi kammerstykki mynda görótta blöndu sakleysis og einhvers óræðara og hættulegra. Sóley hin íslenska og Agnes Obel hin danska eru á meðal merkjanlegra áhrifavalda.

Maximús Músíkús og Sinfóníuhljómsveit Íslands – Maximús fer á fjöll
Maxímús Músíkús Hallfríðar Ólafsdóttur heldur áfram að heilla heimsbyggðina. Að þessu sinni fer Maxímús á fjöll og hrifning hans á íslenskri náttúru skilar sér í tónum og takti. Glaðlegt og leikandi tónverk sem hrífur alla, jafnt unga sem aldna.

Gyða Valtýsdóttir – Evolution
Gyða Valtýsdóttir sýnir gríðarlega sterk höfundareinkenni á fyrstu sólóplötu sinni með frumsömdu efni. Strengir læðast um og rafhljóð sindra og humma undir og yfir. Þversögn einkennir plötuna, hún er kraftmikil og sannfærandi, en um leið viðkvæmnisleg og blíð. Söngrödd Gyðu er notuð á áhrifaríka vegu og sellóleikur hennar, í senn skapandi og persónulegur, setur mark sitt á alla framvindu.

Hekla – Á
Þeramínið hefur lengi verið dularfullur förunautur dægurtónlistarinnar, gægist óforvarandis inn í tónlist poppara eins og The Beach Boys eða rokkara eins og Pixies. Hekla (Magnúsdóttir) hefur nýtt þetta hljóðfæri í tónsköpun sinni sem er í fullum blóma á þessari þriðju plötu hennar. Tónlistin er seiðandi, surgandi og naumhyggjuleg og ógn leynist við hverja þúfu. Melankólía og viss helgi rennur fallega um plötuna og það algerlega áreynslulaust.

Kjass – Rætur
Nærgætin og umlykjandi tónlistin er í djassbúning en íslensk þjóðlög til grundvallar, sem Fanney Kristjáns Snjólaugardóttir syngur á sama hátt. Þagnir eru notaðar á áhrifaríkan hátt, gítarstrokurnar koma eftir tveggja sekúndna bið, píanósláttur varlegur og mjúkur og upptaka innileg, þar sem maður heyrir skrjáfið þegar tónlistarmennirnir færa sig til í sætunum.

 

LAG ÁRSINS/TÓNVERK ÁRSINS Í OPNUM FLOKKI

Snorri Hallgrímsson – I Know You´ll Follow
Hægstreym og falleg smíð af fyrstu plötu Snorra, hinni stórgóðu Orbit. Strengir og þekkileg rafhljóð bítast á en yfir tónar tær falsetturödd Snorra og kórónar þannig verkið.

Arnór Dan – Stone By Stone
Falsettufurstinn Arnór Dan fetar nýjar brautir. Sjaldan hefur fegurð og framúrstefna fengið sín betur notið en í þessari firnagóðu smíð.

Gyða Valtýsdóttir – Moonchild
Einstakt rökkurpopp úr ranni Gyðu Valtýsdóttur, hvar ómstríðir strengir og söngrödd Gyðu – sem virðist spretta fram úr óræðum handanheimi – byggja undir stemningu sem er ekkert minna en himnesk.

Veigar Margeirsson – Efi
Hugljúf tónsmíð leidd áfram af tregaþrunginni spennu. Undurfalleg laglínan, studd af mystískum hljómum og hljóðheimi strengjahljóðfæra, dregur upp tregablandnar myndir í hugskotssjónum þess er á hlýðir.

JFDR – Gravity
Jófríður Ákadóttir heldur áfram að heilla tónlistarunnendur hér sem erlendis með vel til fundnu tilraunapoppi sínu. Gravity, sem var gefið út á súkkulaðistöng, kitlar bragðlauka tónvísra svo um munar.

 

PLÖTUUMSLAG ÁRSINS – ÞVERT Á FLOKKA

The Vintage Caravan – Gateways
Ljósmyndun/ljósmyndavinnsla/listræn stjórn – Julian Haas
Umbrot og hönnun – Jón Ingi Stefánsson
Umslag er bæði súrt og sækadelískt, með sterkum og hrópandi litum. Tónar fullkomlega við innihaldið, sem er rokk undir sterkum áhrifum frá áttunda áratugnum.

Jóel Pálsson – Dagar koma
Hönnuður – Alli Metall
Nostursamlegt umslag; grátóna og skarpt, sem vinnur á fallegan hátt með íslenska náttúru án þess að detta ofan í klisjur. Gróf áferð umslagsins, með saumuðum köntum, gefa því heimilislegan blæ. Gulrauður, áberandi punktur setur svo „punktinn“, glæsilega yfir i-ið.

Jónas Sig – Milda hjartað
Ljósmyndun – Bernhard Kristinn
Hönnun – Ámundi Sigurðsson
Sterk ljósmynd af andliti höfundar undirstrikar titil plötunnar og efniviðinn vel. Jónas er í senn mildur í fasi og einbeittur, nákvæmlega eins og djúpir textarnir sem fjalla um styrk kærleikans í viðsjárverðum samtímanum.

Skálmöld – Sorgir
Hönnun – Kristjan Lyngmo
Sorgir er plata sem fjallar um ódæðisverk, drauga og forynjur. Einfalt en kraftmikið umslagið hnykkir smekklega á þeim hildarleikjum sem berast um tónrásirnar.

Umbra – Sólhvörf
Ljósmyndun – Lilja Birgisdóttir
Hönnun – Inga Birgisdóttir
Stílhreint umslag sem kallast fallega á við heiti plötunnar, Sólhvörf. Ljósbrot, skuggi og litir eru í fullu samræmi við sjálfa plötuna.

 

UPPTÖKUSTJÓRN ÁRSINS – ÞVERT Á FLOKKA

Jónas Sig. – Milda hjartað
Upptökustjórn: Ómar Guðjónsson
Hljóðmynd Milda hjartans, skírskotar að sumu leyti til flauelsmýktar söngvaskálda áttunda áratugarins en tekur líka til hráleika og kynngikrafts, eins og heyra má í smellinum „Dansaðu“. Heildarhljómurinn er lífrænn og umlykjandi og heldur hlustandanum þægilega föngnum allt til enda.

Ylja – Dætur
Upptökustjórn: Guðmundur Óskar Guðmundsson
Heildaráferð plötunnar Dætur er skýr, útsetningar hreinar og beinar og söngraddir Gígju og Bjarteyjar njóta sín afar vel. Hér má vel greina nýjan hljóm hjá Ylju og þarf engan að undra, enda töframaðurinn Guðmundur Óskar sem stýrir hönnun hljóðmyndarinnar.

Víkingur Heiðar Ólafsson – Johann Sebastian Bach
Upptökustjórn: Christopher Tarnow
Fyrir mörgum er hið einkennandi gula merki Deutsche Grammophon merki um gæði og það á sannarlega við nýjustu plötu Víkings Heiðars. Framúrskarandi flutningi Víkings Heiðars eru gerð frábær skil í frábærri upptöku, þar sem píanóleikur Víkings Heiðars nýtur sín til fulls.

Auður – Afsakanir
Upptökustjórn: Auðunn Lúthersson, Addi 800, Glenn Schick.
Afsakanir er afar vel unnin plata. Heillandi og seiðandi hljóðheimur sem grípur hlustandann við fyrsta tón. Afar heildrænt verk þar sem er vel hlúð að smáatriðum og stóru myndinni.

John Grant – Love Is Magic
Upptökustjórn: Ben Edwards
Hljóðheimur John Grant á Love Is Magic fer með okkur í heilhring frá síðustu plötu. Gamalt diskó. Danstónlist og fönk ofan á seiðandi laglínur og texta John Grant blandast einkar vel og platan hljómar eins og flytjandinn hafi lengi gengið með hljóðheiminn í maganum.

Valdimar – Sitt sýnist hverjum
Upptökustjórn: Pétur Ben (upptökustjóri) Magnús Öder (hljóðblöndun) Alan Douches (hljómjöfnun)
Lífrænt, krafmikið og fallegt er það sem kemur upp í huga þegar hlustað er á plötuna Sitt sýnist hverjum með hljómsveitinni Valdimar. Útsetningar og hljóðblöndun eru eins og best verður á kosið og er spilamennskan svo fumlaus að það er líkt platan sé tekin upp lifandi. Þó heyrir maður aukahljóð sem eru svo lystilega blönduð saman við hljóðheiminn. Afar heilsteypt og fersk plata.

ROKK, POPP, RAF, RAPP OG HIP HOP

PLATA ÁRSINS – POPP

Prins Póló – Þriðja kryddið
Þriðja kryddið er ólíkt öllu því sem Svavar Pétur Eysteinsson, Prins Póló, hefur gert áður. Hljóðheimurinn er kunnuglegur en það er þó allt annað upp á teningnum hér. Tónlistin á plötunni er alla jafna strípuð, einfaldir tölvutaktar, búlduleitir og kassalaga hljóðgervilshljómar í bland við frábærar melódíur en ávallt óvæntar sveigjur og beygjur. Frumlegheit í bland við aðgengi. Stuð og angurværð og það er aldrei of seint að fá sér kaffi.

John Grant – Love Is Magic
Eftir þriggja ára bið sendir John Grant loksins frá sér sína fjórðu breiðskífu, Love is Magic. Hér kveður við dálítið nýjan tón eða hvað? Hljómplatan er ekki alveg eins og fólk hefði mátt búast við og við gætum orðað það á þann hátt: Þetta er erfiðasta þrautin sem Grant hefur lagt fyrir sína aðdáendur til þessa. Verkið gengur fullkomlega upp í heildina, hvort sem er í ballöðum eða bullandi raftónlistarhljóðheim sem við erum farin að þekkja svo vel frá „rosalegasta manndjöfli“ sem við eigum nokkurn tíma eftir að hitta.

 Jónas Sig – Milda Hjartað
Milda hjartað er sterkt! Maður gengur að gæðunum vísum hjá Jónasi. Aldrei lognmolla hjá þessum öfluga tónlistarmanni. Milda hjartað stígur frá fyrri plötum Jónasar á nokkuð afgerandi hátt. Þetta er falleg plata, vær og einlæg. Siglir rólega áfram og er ekki snöggmelt verk. Skyndibiti er þetta ekki, nei, þetta er hægeldað.

Svavar Knútur – Ahoy! Side A
Svavar Knútur hefur á undanförnum árum áunnið sér miklar vinsældir fyrir einlægni og ástríðu í sinni tónlist. Á síðasta ári mátti greina áhugaverða ogspennandi þróun í hans hljóðheimi á plötunni Ahoy! Side A. Þar segir Svavar skemmtilega frá þessu eilífa ferðalagi sem lífið er og gerir það listavel.

GDRN- Hvað ef
Alvöru metnaðarfullt popp með stóru „pjéi” og dassi af „erri og béi“. Hér er á ferðinni einstaklega frambærileg frumraun þar sem allt smellur saman, frábærar lagasmíðar og áhugaverðir textar. Heilsteyptur hljóðheimur ljær plötunni einkennandi blæ  þar sem GDRN leggur upp með spennandi dýpt og dulúð.

PLATA ÁRSINS – ROKK

Valdimar – Sitt sýnist hverjum
Með margverðlaunaðan söngvara í framlínunni og valinn mann í hverju rúmi í hljómsveitinni Valdimar kemur kannski ekki á óvart að hljómplatan þeirra Sitt sýnist hverjum sé hlaðin gæðum. Þá er bætt í jöfnuna samstarfi þeirra við upptökustjórann Pétur Ben og útkoman verður jafnvel enn meira spennandi og pínu hættulegri. Sterkt verk og heilt í gegn, þar sem að textarnir spila stóra rullu. Hljóðheimurinn bæði stór og mikilfenglegur.

Benny Crespo’s Gang – Minor Mistakes
Ofboðslega flott og kröftug plata frá gæðasveitinni Benny Crespo’s Gang, sú fyrsta síðan árið 2007. Minor Mistakes er full af sniðugum smáatriðum sem vert er að höggva eftir. Þrátt fyrir að lögin séu flókin og beri merki þess að meðlimir sveitarinnar kunni sitt fag, þá eru þau samt grípandi og afskaplega útvarpsvæn.

The Vintage Caravan – Gateways
Spilagleði og vinnusemi hefur gert hljómsveitina Vintage Caravan að einni bestu rokksveit landsins. Á Gateways blandast snilldarvel klassísku rokkáhrifin og svo áhrif frá nýrra rokki. Vintage Caravan hefur fundið sinn hljóm og er það vel.

Dr. Spock – Leður
Hljómsveitin Dr. Spock er náttúruafl. Það myndast ósjálfráður fiðringur og spenna þegar að sveitin lætur á sér kræla jafnvel þó að maður viti ekkert hvað standi til. Leður er frábær tjáning frá upphafi til enda.

Hórmónar – Nananabúbú
Hórmónar sigruðu Músiktilraunir árið 2016 og hafa þau æ síðan vaxið ásmegin í spilamennsku og lagasmíðum. Hljómsveitin liggur ekki á skoðunum sínum og tæpa þau í lögum sínum á málefnum sem að margir þora ekki að snerta á. Gríðarlega öflugt tónleikaband sem tónar vel við öflugan boðskapinn.

 

PLATA ÁRSINS – RAPP OG HIP HOP

JóiPé & Króli – Afsakið hlé
Á annarri plötu sinni sýna þeir JóiPé & Króli að þeir eru komnir til að vera í íslensku tónlistarlífi. Vel smíðaðir taktar, grípandi laglínur og leiftrandi söngur og rímur eru aðalsmerki plötunnar ásamt frábærri upptökustjórn og hljóðblöndun.

Elli Grill – Pottþétt Elli Grill
Elli Grill hljómar ekki eins og neinn annar íslenskur rappari. Hljóðheimur hans er myrkur og taugastrekktur og minnir á tónlist úr dystópískri brúðumynd. Elli Grill sjálfur er hvæsandi köttur, litli bróðir Satans, einhver sem gæti breytt sér í þúsund maura. Draugaleg hæðni Ella heillar, enda hefur hann fullkomið vald á sviðspersónu sinni, en það eru taktarnir, viðfangsefnið og framsetningin sem gera Pottþétt Elli Grill að því heilsteypta og heillandi verki sem hún er.

Birnir – Matador
Frábær og persónuleg frumraun frá Birni, sem þrátt fyrir ungan aldur hefur stimplað sig inn bæði sem lagahöfundur og flytjandi. Með stórskotalið íslenskra flytjanda í gestahlutverkum nær Birnir að skapa eitt sterkasta verk íslenskrar rappsögu. Heiðarleg og lýsandi fyrir tíðarandann.

Herra Hnetusmjör – KBE kynnir: Hetjan úr hverfinu
Herra Hnetusmjör sýnir sig og sannar með afgerandi hætti á plötu sinni Hetjan úr hverfinu. Hún er uppfull af spikfeitum töktum og þéttum rímum og myndi henta vel á fóninn áður en kíkt er út á lífið með strákunum á góðu laugardagskvöldi, það er einfaldlega erfitt að sitja kyrr á meðan maður hlustar. Attitjúdið drýpur af hverju strái, góð pródúsering og skýrmæltar rímur Hnetusmjörsins einkenna þessa plötu sem á mikið lof skilið.

Cyber – Bizness
Rappsveitin Cyber hefur verið iðin við tónleikahald og útgáfu undanfarin ár. Plata þeirra Bizness ber þess glöggt merki. Hljómur sveitarinnar er mjög þéttur og samstarfið þeirra fullkomlega straumlínulagað. Bizness er engu að síður mjög tilraunakennd og allt að því leikræn plata. Lögin eru vel samin og grípandi, klippur og almenn hljóðsmölun er notuð á skemmtilegan og oft kómískan hátt. Hljóðheimur og heildarsvipur plötunnar er til fyrirmyndar.

 

PLATA ÁRSINS – RAFTÓNLIST

Auður – Afsakanir
Önnur plata tónlistarmannsins Auðuns Lútherssonar er gríðarlega heilsteypt verk og inniheldur tíu lög sem haldast í hendur og saman segja einlæga sögu. Platan einkennist af sterkum lagasmíðum og nær óaðfinnanlegri upptökustjórn og hljóðblöndun. Þar hefur augljóslega verið nostrað við smáatriðin og hljóðheimurinn er skemmtilega lífrænn en einstaklega vandaður.

aYia-aYia
Á þessari sjálftitluðu frumraun tekst hinu dularfulla raftríói aYia að mynda fallega, kraftmikla og jafnframt brotakennda stemmingu sem er alltumlykjandi á öllum níu lögum plötunnar. Ein sterkasta frumraun rafsveitar um árabil.

Kælan Mikla – Nótt eftir nótt
Með Nótt eftir Nótt hefur Kælan Mikla fest sig í sessi sem ein af mest spennandi sveitum landsins. Drungalegur og rafskotinn glundroði sem smýgur inn að beini

Andi – Allt í Einu
Melódískt rafpopp undir sterkum áhrifum frá ítaló-diskói níunda áratugarins. Galsafullar lagasmíðar sem renna vel saman í taktfastri hrynjandi og skapa heild sem tekur hlustandann í “andlegar” víddir dansgólfsins.

Hermigervill – II
Hermigervill hefur lengi átt sér stóran aðdáendahóp og er þekktur fyrir bísna líflegan flutning á tónleikum og sínar rauðu, síðu fléttur. Á nýjustu plötu hans fær stíllinn og hljóðheimurinn sem við þekkjum frá Hermigervli að njóta sín, í bland við ögn frábrugðnari, á köflum tilraunakenndari og draumkenndari lög. Saman verður úr þessi líka frábæra plata.

 

SÖNGKONA ÁRSINS – VERÐLAUN ÞVERT Á FLOKKA

GDRN (Guðrún Ýr Eyfjörð Jóhannesdóttir)
Guðrún Ýr hefur átt frábært ár með útgáfu plötunnar Hvað ef. Frábær söngkona, laga- og textahöfundur svo eftir er tekið. Hljómurinn í röddinni áreynslulaus og sannfærandi.

Margrét Rán
Hljómsveitin Vök hefur verið á hraðri siglingu uppá við og er enn. Það er ekki síður að þakka söngkonunni Margréti sem ljáir henni rödd sína fyrir utan sterkar lagasmíðarnar. Öryggið uppmálað og hljómurinn heilsteyptur.

JFDR (Jófríður Ákadóttir)
Rödd Jófríðar hrífur ávallt alla með sér í spennandi ferðalag. Tónlist hennar er ævintýraleg og tilraunakennd og röddin notuð sem hljóðfæri sem gengur fullkomlega upp.

Brynhildur Karlsdóttir
Ung og efnileg söngkona hljómsveitarinnar Hórmónar. Kraftmikil rödd hennar og framkoma var eftirtektarverð á árinu.

Bríet
Bríet kom sterk inn á þessu ári og sannar sig sem bæði söngkona og lagahöfundur. Seiðandi rödd hennar, næmni og góð túlkun setur hana í fremstu röð söngkvenna á nýliðnu ári.

 

SÖNGVARI ÁRSINS – VERÐLAUN ÞVERT Á FLOKKA

Auður
Það hefur verið gaman að fylgjast með ferðalagi Auðuns Lútherssonar á árinu. Flottur söngvari sem á fullt inni. Syngur af innlifun textana sína sem eru fullir af tilfinningum.

Valdimar Guðmundsson
Frábær frammistaða hans á nýju plötunni Sitt sýnist hverjum vakti athygli dómnefndar. Ótrúlega flott rödd með ótal blæbrigðum. Getur verið flauelsmjúk og kraftmikil í senn.

John Grant
Frábær túlkandi og röddin seiðandi sem fer yfir allan tilfinningaskalann. Nístir inn að beini með túlkun sinni og raddbeitingu.

Króli (Kristinn Óli Haraldsson)
Króli kom fram á sjónarsviðið fyrir rúmu ári og hefur verið áberandi í íslensku rappsenunni. Á síðustu plötu JóaPé&Króla tefldi hann fram vaxandi hæfileikum sínum sem sálarsöngvari með frábærum árangri, rödd hans er líkt og hann sjálfur, orkumikil og full af lífi.

Svavar Knútur
Svavar hefur verið lengi að og er einn af þeim duglegustu í bransanum að spila út um allt. Á þessu ári kveður við nýjan tón og frábært að sjá og heyra hann halda áfram að þroskast og þróast.

 

LAG ÁRSINS – ROKK

Benny Crespo’s Gang – Another Little Storm
Benny Crespo’s Gang tekur sér alltaf góðan tíma í hlutina. Það er líka alltaf biðarinnar virði. Gríðarlega vel samið og vel flutt rokklag.

Valdimar – Stimpla mig út
Samstarf hljómsveitarinnar Valdimar og Péturs Ben á plötunni Sitt sýnist hverjum hefur verið afar gjöfult. Stimpla mig út er eitt sterkasta lag plötunnar þar sem að textinn spilar gríðarstóra rullu.

Une Misere – Wounds
Une Misére eru að stimpla sig inn sem ein allra frambærilegasta rokksveit landsins. Hljómsveit sem að heillar þá sem sjá og heyra, jafnvel þó að fólk sé ekki fyrir rokk í þyngri kantinum. Wounds er gríðarlega kraftmikið lag og varla annað hægt en að lufttromma með.

Hórmónar – Kynsvelt
Hórmónar hafa vakið verðskuldaða athygli síðan að sveitin sigraði Músiktilraunir árið 2016. Af mörgum talin ein besta tónleikasveit landsins þar sem að kraftur og boðskapur fer saman. Hluta boðskaparins má t.d. heyra í laginu Kynsvelt.

Hatari – Spillingardans
Lagið Spillingardans frá Hatara sameinar sterka ádeilu, góða lagasmíð og óaðfinnanlegan flutning að vanda. Hárbeitt svikamylla sem svíkur engan.

 

LAG ÁRSINS – POPP

Auður – Heimskur og breyskur
Lagið Heimskur og breyskur opnar plötuna Afsakanir sem kom út í nóvember 2018. Lagið hefur að geyma dramatískan og fallegan hljóðheim þar sem fljótandi hljóðgervlar, þéttur hiphop/R&B taktur ásamt einlægum og fallegum texta og söng Auðuns kemur saman á unaðslegan hátt. Útsetningin er full af skrauti og smáatriðum sem er raðað saman af mikilli gaumgæfni þannig að úr verður þessi fallega og einlæga útkoma.

Prins Póló – Líf ertu að grínast
„Líf ertu að grínast“ kom út vorið 2018 og varð fljótt eitt mest spilaða lagið á útvarpsstöðvunum af auðskiljanlegri ástæðu. Þetta er sjóðandi sumarsmellur með stáltrommum og öllu tilheyrandi, eins og prinsinum einum er lagið. Einfaldar en snillilega samdar og eftirminnilegar laglínur, hnyttinn texti og hið frábæra, einkennandi Prins Póló „sánd“. Eintóm gleði og stuð!

Vök – Autopilot
Vök hefur vaxið mikið undanfarin ár og þróað sinn hljóm áfram yfir í töluvert poppaðri átt. Sveitin hefur þar að auki aldrei verið jafn þétt „live“ og þar fer Margrét Rán fremst í flokki sem gríðarlega flottur framherji. Lagið Autopilot er snillilega vel samið popplag sem situr eftir í heilanum við fyrstu hlustun. Þéttur og sannfærandi hljóðheimurinn og töff rödd Margrétar fara gríðarlega vel saman og skapa þarna eitthvað einstakt og eftirminnilegt.

GDRN ft. Floni & ra:tio – Lætur mig
Mýktin í bassanum og fljótandi synthunum skapa andstæðu á móti skörpum taktinum í þessu frábæra lagi með GDRN. Seiðandi mjúk og sexí rödd Guðrúnar og autotune-að, ryþmískt og tilfinningaríkt rappið hjá Flona fara einstaklega vel saman. Dramatískt og fallegt en á sama tíma dimmt og ótrúlega töff lag þar sem GDRN, Floni og ra:tio sameina krafta sína og skapa þetta meistaraverk.

Bríet – In Too Deep
Hefur allt sem að gott popplag þarf að hafa. Flott melodía, góð pródúsering og geggjaður flytjandi. Bríet heldur manni algjörlega og maður vill hreyfa sig með. Hljóðheimurinn er skemmtilegur og gítarriffið sem er í gegnum lagið er grípandi.

 

LAG ÁRSINS – RAPP OG HIP HOP

JóiPé & Króli – Í átt að tunglinu
„Í átt að tunglinu“ sló rækilega í gegn sumarið 2018 og ekki að ástæðulausu. Ótrúlega þétt og flott píanógrúvið með ólíkum röddum þeirra JóaPé og Króla yfir er syndsamlega ávanabindandi og grípandi.

Logi Pedro – Dúfan mín
Gríðarlega vandaður og þéttur hljóðheimurinn og falleg sönglínan í „Dúfan mín“ var m.a. það sem heillaði fólk upp úr skónum þegar lagið kom út í byrjun árs 2018. Það er í senn sterkt og grípandi, einlægt og fallegt.

Birnir – Út í geim
Birnir fangar áskoranir hversdagsins og ástarinnar í tregafullri og sterkri lagasmíð. Einlægur og á persónulegu nótunum, studdur af stórum hljóðheim.

Herra Hnetusmjör & Ingi Bauer – Upp til hópa
Grípandi poppmelódía frá Herra Hnetusmjör og Inga Bauer. Lag sem stimplar sig rækilega inn í alla hópa. Það er örðugt að hrista þennan vel heppnaða slagara úr hausnum.

Cyber – Hold
Hiphop-sveitin Cyber sýnir hér að þær eru í hópi frambærilegasta tónlistarfólks þjóðarinnar. Tilvistarlegar vangaveltur úr hversdagsleikanum er viðfangsefni lagsins Hold og er listavel flutt af sveitinni. Takturinn er seiðandi og dularfullur og skapar viðeigandi umgjörð fyrir þann ískalda veruleika sem Cyber tekst á við í laginu.

 

LAGAHÖFUNDUR ÁRSINS – VEITT ÞVERT Á FLOKKA

Auður – Auðunn Lúthersson
Lögin á plötunni Afsakanir eru hvert öðru betra, allt frábærlega smíðuð og uppbyggð popplög með grípandi laglínum sem fá mann til að söngla með þó maður sé einn úti að labba og eigi í hættu á að líta út eins og asni ef maður mætir einhverjum. Útsetningarnar eru virkilega flottar og vandaðar og hljóðheimurinn sömuleiðis. Hvort sem það eru tilfinningarík og melankólísk lög eða hressari grúv sem fylgir von, þá færir Auðunn okkur þau á silfurfati.

GDRN (Guðrún Ýr Eyfjörð Jóhannesdóttir)
Taktsmíði og meðfylgjandi hljóðmottur eru í fullkomnu jafnvægi við framfærsluna, nýmóðins og svalar. Drífandi og tilfinningaþrungin smíð en í senn grípandi popp sem hæfir vel þessari vaxandi stjörnu.

Svavar Pétur Eysteinsson
Á plötu Prins Póló, Þriðja kryddið má heyra einn skemmtilegasta kokkteil margra tónlistartegunda sem heyrst hefur undanfarin ár. Alveg sama hvort Prinsinn ætlar með okkur á dansgólfið eða á koddann, þá virðist það ganga upp hjá honum. Umfram allt afskaplega skemmtilegur lagahöfundur.

Jónas Sig
Stuð. Tregi. Angurværð. Ánægja. Losti. Öll þessi orð geta bundið tónlist Jónasar Sig saman. Á Milda hjartað fangar hann öll stig skynjunar og úr verður góður hrærigrautur tilfinninga.

Valdimar
Hljómsveitin Valdimar nær enn á ný að senda frá sér lög sem hitta rækilega í mark. Taktfast rokkið með hæfilegum grodda byggir undir angurværan söng og laglínur sem ná alltaf að dáleiða áheyrandann.

 

TEXTAHÖFUNDUR ÁRSINS – VEITT ÞVERT Á FLOKKA

Auður – (Auðunn Lúthersson)
Auðunn skrifar í fyrsta skipti á íslensku og liggur það ekki síður vel fyrir honum en að skrifa á ensku. Auðunn berskjaldar sig algjörlega og semur texta sína beint frá hjartanu enda eru þeir hreinskilnir, einlægir og tilfinningaríkir og auðvelt fyrir flesta að tengja við þá á einhvern hátt.

Jónas Sig
Jónas Sig er fyrir löngu búinn að sanna sig sem einn sterkasti textasmiður þjóðarinnar. Á plötunni Milda hjartað er Jónas flugbeittur. En um leið sannur og oft á tíðum ljúfur. Hann hefur þann einstaka hæfileika, að þegar hann talar. Þá hlustar fólk.

GDRN (Guðrún Ýr Eyfjörð Jóhannesdóttir)
Einkar heillandi popptextar með mikla dýpt og dulúð og í senn grípandi og öðruvísi. GDRN mætir hér til leiks með sterka, ferska og sannfærandi rödd og segir skemmtilega frá.

Svavar Pétur
Á nýjustu plötu Prins Póló heldur Svavar Pétur áfram að syngja okkur skemmtilega texta. Hin barnslega einlægni, í bland við alvarleika og þráðbeinann sannleik oft á tíðum, heldur Svavar manni við hlustir til enda hvers lags, í hvert skipti. Það er yfirleitt of seint að fá sér kaffi þegar manni finnst kominn tími til þess.

Valdimar
Textar Valdimars á Sitt sýnist hverjum bera merki um þroska og þor. Bæði í listinni sem og lífinu sjálfu. Fallega ort um lífið og tilveruna og baráttu hvers manns um að gera sjálfan sig og umhverfi sitt betra.

 

TÓNLISTARFLYTJANDI ÁRSINS

Hatari
Eins og segir í innsendingartexta listamanns. “Fyrir að afhjúpa linnulausu svikamyllu hversdagsleikans árið 2018.” Eiginlega ekki hægt að skýra þetta betur. Kraftmikið listrænt atriði sem fær alla sem á horfa til þess að staldra við og hlusta til enda.

Auður – (Auðunn Lúthersson)
Auðunn er öruggur á sviði vel studdur af gospel-skotnum bakröddum, þéttum bassaleik og hljómborði og stekkur stundum sjálfur á gítarinn. Það hefur verið einkar ánægjulegt að fylgjast með hversu vel honum hefur farið fram á síðustu misserum.

Vintage Caravan
Vintage Caravan er ein öflugasta tónleikasveit landsins. Þéttleiki, góður hljóðfæraleikur og spilagleði nær að hrífa áhorfandann með í þessu rótskotna rokki sem lætur engan ósnortinn.

Hórmónar
Með Brynhildi Karlsdóttir söngkonu Hórmóna fremsta í flokki tekur bandið áhorfendur á sitt vald frá fyrsta tóni með mögnuðum persónutöfrum og stórbrotni sviðsframkomu. Þéttasta pönksveit landsins og þótt víðar væri leitað.

JóiPé & Króli
Fáir listamenn koma jafn oft fram opinberlega og JóiPé & Króli. Sviðsframkoma þeirra er alltaf hlaðin skemmtanagildi og þeir hafa einstakt lag á að koma sínum áhorfendum í stuð. Alveg sama á hvaða aldri þeir eru. Þeir sannarlega eru sterk tenging milli ungs fólks og þeirra sem eldri eru.

 

TÓNLISTARVIÐBURÐIR ÁRSINS

Aldrei fór ég suður
Á undanförnum 15 árum hefur tónlistarhátíðin AFÉS fest sig all rækilega í sessi sem einn af stóru viðburðunum í íslensku tónlistarlífi. Árið 2018 sló þessi hátíð aðsóknarmet og er talið að íbúafjöldi Ísafjarðarbæjar hafi tvöfaldast um páskahelgina. Á hátíðinni hafa alltaf allar tegundir íslenskrar dægurtónlistar átt sér samastað og hafa aðstandendur hlúð jafn vel að grasrótinni sem og þeim sem reynsluna hafa.

Fiskidagstónleikarnir á Dalvík.
Fiskidagstónleikarnir hafa verið haldnir frá árinu 2013 við hafnarsvæðið á Dalvík í tengslum við bæjarhátíðina Fiskidaginn Mikla þar í bæ. Á tónleikunum er íslenskri dægurtónlist haldið afar hátt á lofti og sér í lagi íslenskri poppsögu í gegnum árin. Flytjendur koma þar fram og flytja sína stærstu slagara í bland við þjóðargersemar. Allir syngja með. Eitthvað sem er ríkt í okkar eðli.

Háskar
Raftónlistarhátíðin Háskar var haldin í fyrsta sinn á síðasta ári í Iðnó. Grundvöllur fyrir slíka hátíð í Reykjavík er greinilegur og er hún komin til að vera. Á heilum degi í Iðnó kom fjöldinn allur af tónlistarfólki úr geiranum og flutti verk sín og tónlist.

Valdimar – Útgáfutónleikar
Hljómsveitin Valdimar hefur undanfarin ár verið ein allrabesta tónleikasveit landsins. Á útgáfutónleikunum sýndi sveitin mátt sinn og megin og troðfyllti Háskólabíó og flutti lög af plötu sinni Sitt sýnist hverjum í bland við sín eldri lög. Sveitin er afar vel spilandi og nái að fanga athygli áhorfandans af mikilli næmni.

John Grant – Love is Magic
Útgáfutónleikar John Grant fyrir plötuna Love is Magic sem haldnir voru í Hörpu á haustdögum eru enn ofarlega í huga þeirra sem þá sóttu. John Grant og sveit hans hafa undanfarin ár ferðast vítt og breitt um víða veröld til tónleikahalds og er því konfekt fyrir augu og eyru að upplifa viðburð af þessu tagi. Sveitin sýnir afar heillandi sviðsframkomu og John hefur fyrir margt löngu fangað hjörtu landsmanna.

 

BJARTASTA VON RÁSAR 2

Une Misére
Hljómsveitin Une Misére er ein af kraftmestu og mest spennandi rokksveitum landsins um þessar mundir. Hún hefur vakið athygli fyrir fítonskraft í tónlist sinni og orkumikla sviðsframkomu. Nýverið samdi hljómsveitin við þýsku útgáfuna Nuclear Blast og hreif hún fjölmarga gesti með sér á nýafstaðinni Eurosonic-hátíð í Hollandi.

Matthildur
Matthildur kom fram á sjónarsviðið árið 2018 með hvelli, en á árinu gaf hún út lögin Heartbeat og Wonder sem öll eru samin af henni. Í tónlist hennar má greina áhrif frá söngkonunum og lagasmiðunum  Jill Scott, Ellu Mai og Kehlani. Matthildur tók þátt í að búa til plötuna Afsakanir með Auði sem var ein af plötum ársins og var hún einn umtalaðasti listamaðurinn á Iceland Airwaves.

ClubDub
Þrátt fyrir ungan starfsaldur gerði ClubDub allt vitlaust á árinu með laginu Clubbed Up sem fór yfir milljón spilanir á Spotify. Sama ár gaf sveitin út plötuna Juice Menu, Vol 1 sem naut mikilla vinsælda. Nýverið kom að auki út heimildarmynd um hljómsveitina svo hitinn er mikill í kringum hana.

Bríet
Bríet gaf út sína fyrstu smáskífu árið 2018. Hún vakti strax mikla athygli og þrátt fyrir ungan aldur og hárfína rödd er mikil vigt í tónlist hennar. Seiðandi rödd Bríetar, næmni og góð túlkun setur hana í fremstu röð söngkvenna. Það má búast við því að árið 2019 verði enn stærra hjá henni, en hún er nú þegar farin að funda í Bandaríkjunum og flytja tónlist sína þar.

Bagdad Brothers
Hljómsveitin Bagdad Brothers kom sem ferskur og hressilegur indírokk-andvari á árinu. Þeir byggðu hægt en örugglega upp orðspor með tónleikum og þröngskífum en sprungu svo út á síðustu Iceland Airwaves hátíð, og nú síðast með plötunni Sorry. Tónlistin einkennist af letilegum en útpældum gítarhljómum, söngurinn er kynflöktandi falsetta sem er í senn áreynslulaus og kraftmikil, og textarnir eru súrrealísk samsuða sem malar í kassanum.

 

ALBUMM.IS OG ÍSLENSKU TÓNLISTARVERÐLAUNIN

Auður – Afsakanir
Leikstjóri: Erlendur Sveinsson
https://www.youtube.com/watch?v=dskXLtVxLdY
Myndbandið/myndin heltekur áhorfandann frá fyrstu töku en verkið er bæði skemmtilegt og hlaðið ólýsanlegri orku. Auður er mikill snillingur og listamaður fram í fingurgóma. Heilsteypt verk sem fær á köflum hárin til að rísa á hnakkanum!

Between mountains – Into the Dark
Leikstjóri: Haukur Björgvinsson
https://www.youtube.com/watch?v=Tp4AHG8OkRg
Ótrúlega vel skotið, klippt og lýst myndband og svo er sagan einstaklega frábær. Hér er allt hugsað til hins ýtrasta og nostrað er við hvert smáatriði.

GDRN – Lætur mig ft. Floni & ra:tio
Leikstjóri: Ágúst Elí
https://www.youtube.com/watch?time_continue=1&v=Av0p2g9Hm9Q
Myndbandið er eins og draumur og maður sogast inn í sýndarheim sem erfitt er að segja skilið við. Svart vatn, þrumur og eldingar! Töff myndband með „dimmum” pælingum en samt eitthvað svo fallegt.

Herra Hnetusmjör – Fóbó
Leikstjóri: Eiður Birgisson
https://www.youtube.com/watch?v=fW2V_vZw77M
Frábært myndband og virkilega vel hugsað og skotið. Maður fær það á tilfinninguna að maður sé að horfa á erlenda spennumynd. Skemmtileg saga með trylltum “slow motion” senum!

 Hugar – Saga
Leikstjóri: Máni Sigfússon
https://www.youtube.com/watch?v=_59PUqHkLsY
Virkilega vel skotið og klippt myndband en einnig er lýsingin alveg til fyrirmyndar. Stemningin í myndbandinu er margþrungin og smellpassar laginu. Tilfinningaríkt og þétt!

Ólafur Arnalds – re:member
Leikstjóri: Thora Hilmar
https://www.youtube.com/watch?v=oAhO5eegMfY
Virkilega töff myndband sem kannski passar ekkert endilega við lagið. Sem er ótrúlega skemmtilegt og fær myndbandið samt til að virka á einhvern ótrúlegan flottan hátt. Skemmtilegar tökur og gott andrúmsloft.

Special-K – Date Me I’m Bored
Leikstjóri: Kristín Helga Ríkharðsdóttir
https://www.youtube.com/watch?v=YPdWAA48LJU&t=21s&fbclid=IwAR3VCp6oPZs3qopjumPwyLIHz3wmLfMVm8mv2btndPmYuwkz2GM-0rEopm8
Special-K er lundi, allavega í þessu myndbandi. Hér fá litir að njóta sín afar vel og öll umgjörð myndbandsins er til fyrirmyndar, sem og allar pælingar. Búningar, förðun og lýsing gerir myndbandið frekar furðulegt en samt svo mjög skemmtilegt.

Teitur Magnússon ásamt Mr. Silla – Orna
Leikstjóri: Logi Hilmarsson
https://www.youtube.com/watch?v=nHG9XkSO-ZY
Teitur er einkar lunkinn við að semja hressar melódíur sem festast við hausinn á manni. Myndbandið við Orna er einkar skemmtilegt og smellpassar andrúmslofti lagsins. Teitur er auðvitað galdrakall þannig að myndbandið er ekkert svo langt frá persónuleika hans. Mjög skemmtilegt.

 

 

Íslensku tónlistarverðlaunin verða veitt þann 13. mars í Hörpu. Hægt verður að fylgjast með hátíðinni í beinni útsendingu hjá RÚV.

 

 

 

Tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna

By | Fréttir | No Comments

 

Tilkynnt hefur verið hverjir það eru sem hljóta tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir árið 2018.

Flestar tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna hljóta Auður, Valdimar, GDRN, Jónas Sig, Víkingur Heiðar, Sunna Gunnlaugs, Umbra, Anna Þorvaldsdóttir, JóiPé & Króli, Herra Hnetusmjör og Gyða Valtýsdóttir.

Íslensk tónlist blómstrar sem aldrei fyrr og ljóst er að tónlistarárið í fyrra var bæði glæsilegt, spennandi og fjölbreytt. Af innsendingum og tilnefningum má dæma að margar góðar plötur litu dagsins ljós, gnægt var af glæsilegum tónleikum og viðburðum af ýmsum toga auk þess sem stöðugri nýliðun gætir í íslensku tónlistarlífi. Íslensk tónlist stendur því traustum fótum og greinilegt er að íslenskt tónlistarfólk er metnaðarfullt, skapandi og leitandi í list sinni, enda voru innsendingar sem bárust Íslensku tónlistarverðlaununum gríðarlega margar og fjölbreyttar í öllum flokkum og báru þess merki að tónlistarárið 2018 hafi verið æði fjölskrúðugt.

Flestar tilnefningar í ár hlýtur Auður, alls átta tilnefningar en platan hans Afsakanir sló heldur betur í gegn á nýliðnu ári. Hljómsveitin Valdimar átti gríðargóðu gengi að fagna í fyrra og hlýtur sjö tilnefningar í flokki rokktónlistar. Fast á hæla Valdimars kemur tónlistarkonan Guðrún Ýr eða GDRN með sex tilnefningar, fyrir plötu ársins í popptónlist, sem söngkona ársins og texta- og lagahöfundur svo fátt eitt sé nefnt en innkoma hennar var sem ferskur andvari á nýliðnu ári. Jónas Sig hlýtur fimm tilnefningar í flokki popptónlistar fyrir plötu sína Milda hjartað. Jónas er þar á persónulegri nótum en áður og er m.a. tilnefndur sem bæði laga- og textahöfundur ársins. Að auki fær Milda hjartað tilnefningu fyrir hljóðheiminn þar sem félagi Jónasar, Ómar Guðjónsson er ábyrgur fyrir Upptökustjórn en það er verðlaunaflokkur sem er endurvakinn nú í ár. Í hiphoppinu eru það svo JóiPé & Króli ásamt Herra Hnetusmjör sem eru atkvæðamestir með þrjár tilnefningar.

Í opnum flokki hlýtur hljómsveitin Umbra þrjár tilnefningar en það gerir einnig Gyða Valtýsdóttir sem á m.a. plötur bæði í opnum flokki og í kvikmyndatónlist. Í flokki djass og blústónlistar er Sunna Gunnlaugs atkvæðamest með fjórar tilnefningar en svo eiga þeir Scott McLemoreKarl Olgeirsson og Agnar Már Magnússon þrjár hver. Árið í sígildri og samtímatónlist var geysisterkt og fjölbreytt að mati dómnefndar. Hvað varðar fjölda tilnefninga þá er það Víkingur Heiðar Ólafsson sem hlýtur í ár fjórar tilnefningar fyrir útgáfu sína og flutning á verkum Johann Sebastian Bach. Anna Þorvaldsdóttir fylgir þar á eftir og er með þrjár tilnefningar í flokki sígildrar og samtímatónlistar, fyrir plötu sína AEQUA og tónverkin METACOSMOS og Spectra.

Í ár verða veitt 37 verðlaun auk Heiðursverðlauna Íslensku tónlistarverðlaunanna. Veitt verða verðlaun í flokki popp-, rokk-, hiphop- og raftónlistar, djass- og blústónlistar, sígildrar- og samtímatónlistar og í opnum flokki. Í þeim síðasta eru veitt verðlaun fyrir plötu ársins í opnum flokki, fyrir leikhús- og kvikmyndatónlist auk loks þjóðlagatónlist.

Líkt og áður skera nokkur verðlaun sig úr. Bjartasta vonin í sígildri og samtímatónlist og í djass og blústónlist er útnefnd af dómnefnd og tilkynnt á verðlaunahátíðinni sjálfri hver það er sem hlýtur þá nafnbót en Bjartasta vonin í flokki popp-, rokk-, hiphop- og raftónlistar verður tilnefnd af starfsfólki Rásar 2 og fer kosning fram á vefnum Ruvmenning.is. Þegar kemur að vali á Tónlistarmyndbandi ársins þá er það dómnefnd á vegum Albumm.is sem tilnefnir og fer kosning fram á heimasíðu Albumm, þar sem einnig er hægt að horfa á myndböndin átta sem þóttu skara fram úr.

Íslensku tónlistarverðlaunin verða veitt í Hörpu miðvikudaginn 13. mars og verður verðlaunahátíðin í beinni útsendingu á RÚV. Kynnir kvöldsins er Saga Garðarsdóttir.

Það er Samtónn sem stendur að baki Íslensku tónlistarverðlaununum en aðilar að Samtóni eru STEF – Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar, Tónskáldafélag Íslands, Félag tónskálda og textahöfunda, SFH-Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda auk aðildarfélaga.Tilgangur Samtóns er að vinna að sameiginlegum hagsmunum og styrkja stöðu höfunda, flytjenda, framleiðenda og annarra rétthafa að tónlist. Samtónn kemur fram sameiginlega fyrir hönd íslenskra rétthafa og tónlistarfólks.

Það var Ylja sem lék fyrir gesti á Bryggjunni í dag þegar tilnefningar voru kynntar.

Eftirtaldir hljóta tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2018.

Rokk, popp, raftónlist, rapp og hip hop – Tilnefningar 2018

Plata ársins – Rapp og hip hop

JóiPé & Króli – Afsakið hlé
Elli Grill – Pottþétt Elli Grill
Birnir – Matador
Herra Hnetusmjör – KBE kynnir: Hetjan úr hverfinu
Cyber – Bizness

Plata ársins – Rokk

Valdimar – Sitt sýnist hverjum
Benny Crespo’s gang – Minor Mistakes
The Vintage Caravan – Gateways
Dr. Spock – Leður
Hórmónar – Nananabúbú

Plata ársins – Popp

Prins Póló – Þriðja kryddið
John Grant – Love Is Magic
Jónas Sig – Milda Hjartað
Svavar Knútur – Ahoy! Side A
GDRN- Hvað ef

Plata ársins – Raftónlist

Auður – Afsakanir
aYia-aYia
Kælan Mikla – Nótt eftir nótt
Andi – Allt í Einu
Hermigervill – II

Söngvari ársins

Auður
Valdimar Guðmundsson
John Grant
Króli (Kristinn Óli Haraldsson)
Svavar Knútur

Söngkona ársins

GDRN (Guðrún Ýr Eyfjörð Jóhannesdóttir)
Margrét Rán
JFDR (Jófríður Ákadóttir)
Brynhildur Karlsdóttir
Bríet

Lag ársins – Rokk

Benny Crespo’s Gang – Another Little Storm
Valdimar – Stimpla mig út
Une Misere – Wounds
Hórmónar – Kynsvelt
Hatari – Spillingardans

Lag ársins – Popp

Auður – Heimskur og breyskur
Prins Póló – Líf ertu að grínast
Vök – Autopilot
GDRN ft. Floni & ra:tio – Lætur mig
Bríet – In Too Deep

Lag ársins – Rapp og hip hop

JóiPé & Króli – Í átt að tunglinu
Logi Pedro – Dúfan mín
Birnir – Út í geim
Herra Hnetusmjör & Ingi Bauer – Upp til hópa
Cyber – Hold

Textahöfundur ársins

Auður – (Auðunn Lúthersson)
Jónas Sig
GDRN (Guðrún Ýr Eyfjörð Jóhannesdóttir)
Svavar Pétur – Prins Póló
Valdimar

Lagahöfundur ársins

Auður – Auðunn Lúthersson
GDRN (Guðrún Ýr Eyfjörð Jóhannesdóttir)
Svavar Pétur Eysteinsson
Jónas Sig
Valdimar

Tónlistarviðburður ársins

Aldrei fór ég suður
Fiskidagstónleikarnir á Dalvík.
Háskar
Valdimar – Útgáfutónleikar
John Grant – Love is Magic

Tónlistarflytjandi ársins

Hatari
Auður – (Auðunn Lúthersson)
The Vintage Caravan
Hórmónar
JóiPé & Króli

Bjartasta vonin – Verðlaun veitt í samstarfi við Rás 2

Bagdad Brothers
Bríet
ClubDub
Matthildur
Une Misère

Tónlistarmyndband ársins – Verðlaun veitt í samstarfi við Albumm.is

Albumm.is og Íslensku Tónlistarverðlaunin
Auður – Afsakanir – Leikstjóri: Erlendur Sveinsson
Between mountains – into the Dark – Leikstjóri: Haukur Björgvinsson
GDRN – Lætur mig ft. Floni & ra:tio – Leikstjóri: Ágúst Elí
Herra hnetusmjör – Fóbó – Leikstjóri: Eiður Birgisson
Hugar – Saga – Leikstjóri: Máni Sigfússon
Ólafur Arnalds – re:member – Leikstjóri: Thora Hilmar
Special-K – Date Me I’m Boerd – Leikstjóri: Kristín Helga Ríkharðsdóttir
Teitur Magnússon ásamt Mr. Silla – Orna – Leikstjóri: Logi Hilmarsson


Tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2018 – Opinn flokkur

Plata ársins – Þjóðlagatónlist

Ylja – Dætur
Ásgeir Ásgeirsson – Travelling through cultures
Umbra – Sólhvörf
Umbra – Úr myrkrinu
Teitur Magnússon – Orna

Plata ársins – Opinn flokkur

Sunna Friðjóns – Enclose
Maximús Músíkús og Sinfóníuhljómsveit Íslands – Maximús fer á fjöll
Gyða Valtýsdóttir – Evolution
Hekla – Á
Kjass – Rætur

Útgáfa ársins – Leikhús- og kvikmyndatónlist

Atli Örvarsson – Lói þú flýgur aldrei einn
Davíð Þór Jónsson – Kona fer í stríð
Gyða Valtýsdóttir – Mihkel
Veigar Margeirsson – Efi, dæmisaga
Jóhann Jóhannsson – Mandy

Lag ársins/Tónverk ársins í Opnum flokki

Snorri Hallgrímsson – I know you´ll follow
Arnór Dan – Stone by stone
Gyða Valtýsdóttir – Moonchild
Veigar Margeirsson – Efi
JFDR – Gravity

Plötuumslag ársins

The Vintage Caravan – Gateways
Jóel Pálsson – Dagar koma
Jónas Sig – Milda hjartað
Skálmöld – Sorgir
Umbra – Sólhvörf

Upptökustjórn ársins

Jónas Sig. – Milda hjartað – Ómar Guðjónsson
Ylja – Dætur – Guðmundur Óskar Guðmundsson
Víkingur Heiðar Ólafsson – Johann Sebastian Bach – Christopher Tarnow
Auður – Afsakanir – Auðunn Lúthersson, Addi 800, Glenn Schick
John Grant – Love Is Magic – : Ben Edwards
Valdimar – Sitt sýnist hverjum – Pétur Ben (upptökustjóri) Magnús Öder (hljóðblöndun) Alan Douches (hljómjöfnun)

 

Sígild- og samtímatónlist – Tilnefningar  2018

Plata ársins

Anna Þorvaldsdóttir – AEQUA
Jóhann Jóhannsson – Englabörn & Variations
Þráinn Hjálmarsson – Influence of buildings on musical tone
Víkingur Heiðar Ólafsson – Johann Sebastian Bach
Erla Dóra Vogler og Eva Þyri Hilmarsdóttir – Jórunn Viðar – Söngvar
Nordic Affect – He(a)r

Tónverk ársins

Farvegur – Þuríður Jónsdóttir
From My Green Karlstad – Finnur Karlsson
Loom – María Huld Markan Sigfúsdóttir
METACOSMOS – Anna Þorvalds
Silfurfljót – Áskell Másson
Spectra – Anna Þorvalds
Split thee, Soul, to Splendid Bits (attn.: no eternal life/light this time around) – Bára Gísladóttir

Söngvari ársins

Benedikt Kristjánsson
Eyjólfur Eyjólfsson
Oddur Arnþór Jónsson

Söngkona ársins

Hallveig Rúnarsdóttir
Hanna Dóra Sturludóttir
Valgerður Guðnadóttir

Tónlistarflytjandi ársins – Einstaklingar

Sæunn Þorsteinsdóttir
Una Sveinbjarnardóttir
Víkingur Heiðar Ólafsson

Tónlistarflytjandi ársins – Hópar

Barokkbandið Brák
Kammersveitin Elja
Schola Cantorum
Nordic Affect
Strokkvartettinn Siggi

Tónlistarviðburður ársins

Budapest Festival Orchestra og Iván Fischer – Tónleikar í Eldborg, Hörpu
#bergmálsklefinn
Brothers – Íslenska óperan
Víkingur Heiðar Ólafsson – útgáfutónleikar, Bach
Barokkbandið Brák – Spíralar Versala
Edda II: Líf guðanna – 23. mars / Sinfóníuhljómsveit Íslands og Schola Cantorum
Íslendingasögur – Sinfónísk sagnaskemmtun – hátíðarviðburður fullveldisafmælisins 1. desember 

Tónlistarviðburðir ársins

Myrkir músíkdagar
Óperudagar í Reykjavík
Reykholtshátíð

Bjartasta von í sígildri og samtímatónlist verður kynnt 13. mars þegar tónlistarverðlaunin verða afhent.

  

Djass og blús – Tilnefningar 2018

Plata ársins

Karl Olgeirsson – Mitt bláa hjarta
DÓH Tríó – DÓH
Sunna Gunnlaugs – Ancestry
Agnar Már – Hending
Scott McLemore – The Multiverse

Tónverk ársins

Mitt bláa hjarta – Tónskáld: Karl Olgeirsson  / Textahöfundur: Karl Olgeirsson
Norðurljós – Tónskáld: Sigmar Þór Matthíasson
Ancestry – Tónskáld: Sunna Gunnlaugs
To catch a glimpse – Tónskáld: Scott McLemore
Bugða – Tónskáld: Agnar Már Magnússon

Lagahöfundur ársins

Karl Olgeirsson
Sunna Gunnlaugs
Scott McLemore
Agnar Már Magnússon
Sigmar Þór Matthíasson

Tónlistarflytjandi ársins – Einstaklingur

Kjartan Valdimarsson
Sunna Gunnlaugs
Magnús Trygvason Eliassen
Jóel Pálsson
Daníel Helgason 

Tónlistarflytjandi ársins – Hópar

Stórsveit Reykjavíkur
DÓH – Tríó
Ingi Bjarni Trio

Tónlistarviðburður ársins

Blúshátíð í Reykjavík
Tónleikaraðir Jazzklúbbsins Múlans
Tónleikaröð Stórsveitar Reykjavíkur
Jazzhátíð Reykjavíkur
Freyjujazz

Bjartasta von í djass og blús verður kynnt á hátíðinni þann 13. mars næstkomandi.

Opnað fyrir skráningu

By | Fréttir, news | No Comments

Opnað fyrir skráningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2018

Framkvæmdastjórn Íslensku tónlistarverðlaunanna vill vekja athygli á því að opnað hefur verið fyrir umsóknir til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2018.

Öllu íslensku tónlistarfólki, öllum tónskáldum, útgefendum og öðrum hagsmunaaðilum sem gefið hafa út nýja íslenska tónlist, haldið tónleika eða sent frá sér ný lög, tónverk eða myndbönd árið 2018 er frjálst að senda inn tilnefningar í viðeigandi flokka. Flokkarnir eru þrír:

1. Klassík og samtímatónlist.
2. Djass og blús.
3. Popp, rokk, rapp, raftónlist, kvikmynda- og leikhústónlist og önnur tónlist.

Verðlaunaflokkum hefur fjölgað síðastliðin tvö ár en bætt hefur verið við rappi og hip-hop, raftónlist, þjóðlagatónlist og kvikmynda- og leikhústónlist. Breytingarnar hafa fallið í góðan jarðveg og gefist vel. Þessir verðlaunaflokkar eru þó háðir þeim afmörkunum að nægilega margar frambærilegar tilnefningar berist í þessa tilteknu flokka. Í ár má finna nokkrar einfaldar breytingar á flokkum auk þess sem ein verðlaun bætast við en veitt verða verðlaun fyrir upptökustjórn og listræna gerð hljóðmyndar á hljóðriti.

Opið verður fyrir tilnefningar til 15. janúar 2019.

  • Veitt eru verðlaun fyrir tímabilið 1. janúar til 31. desember 2018
  • Skilafrestur á innsendingum rennur út á miðnætti 15. janúar 2019
  • Tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna verða kynntar um miðjan febrúar 2019
  • Veitt verða 35 verðlaun í alls 3 flokkum
  • Verðlaunahátíðin fer fram í Hörpu miðvikudaginn 13. mars 2019 og verður í beinni útsendingu á RÚV

Á heimasíðu Íslensku tónlistarverðlaunanna, www.iston.is, má finna allar helstu upplýsingar um verðlaunin, reglur, samstarfsaðila, sögu hátíðarinnar, lista yfir verðlaunahafa fyrri ára og einnig þá sem hlotið hafa tilnefningar. Það eru þeir Þormóður Dagsson, Kristinn Evertsson og Steve Anatai sem eiga veg og vanda að glæsilegu útliti og hönnun heimasíðunnar.

Til að skrá verk skal fylgja þessum hlekk en hér er um að ræða innsendingarsíðu Íslensku tónlistarverðlaunanna: https://istonumsokn.firebaseapp.com

Nánari upplýsingar um Íslensku tónlistarverðlaunin 2018

Senda má inn tilnefningar vegna verka sem gefin eru út og frumflutt á árinu. Tónlist má skila á rafrænu formi en jafnframt er mælst til þess að senda inn geisladiska eða plötur ef kostur er á slíku. Dómnefnd í sígildri og samtímatónlist fer fram á fá eintök af diskum eða hljómplötum í hendur hafi þau á annað borð verið gerð.

Tekið verður við eintökum á skrifstofu STEFs sem er að Laufásvegi 40. Tekið er við hljóðritum í viku eftir að lokað er fyrir skráningu umsókna.

Tilnefna má hljómplötu í flokkinum Plata ársins sem inniheldur annaðhvort: 4 ný lög eða fleiri, eða að lágmarki 16 mínútur af nýrri tónlist. Ekki skiptir máli hvort hljóðrit sé gefið út stafrænt eða á föstu formi, en hljóðritið þarf að vera gefið út á árinu sem er að líða og vera aðgengilegt almenningi.

Verðlaun verða veitt í ár fyrir Upptökustjórn ársins þar sem valin er besta hljóðmynd á hljómplötu. Hljóðmynd samanstendur af listrænni framsetningu efnis, hljómi og skýru tónmáli sem hæfir efninu. Eftirfarandi aðilar sem koma að upptökum og gerð hljóðrits geta verið tilnefndir á innsendingu: Listamaður, listrænn stjórnandi (producer), hljóðtæknir sem sá um hljóðblöndun, hljóðtæknir sem sá um hljóðjöfnun og upptökustjóri. Við verðlaunum taka þeir sem tilnefndir eru á skráningu.

Í ár verða veitt 35 verðlaun í 3 flokkum að viðbættum Heiðursverðlaunum Íslensku tónlistarverðlaunanna. Reglur og leiðbeiningar Íslensku tónlistarverðlaunanna er að finna á www.iston.is.
Spurningum og fyrirspurnum varðandi gjaldgengi og fyrirkomulag skal beint til stjórnar í gegnum netfangið iston@iston.is.

Íslensku tónlistarverðlaunin verða veitt í Hörpu miðvikudaginn 13. mars 2019 en tilnefningar verða kynntar um miðjan febrúar.

Stjórn Ístón skipa Margrét Eir Hönnudóttir, Kristján Freyr Halldórsson og Jóhann Ágúst Jóhannsson.

Íslensku tónlistarverðlaunin eru haldin fyrir tilstuðlan hagsmunafélaga tónlistarinnar, FÍH, STEFs og SFH, undir merkjum Samtóns.

Fylgist með okkur á Facebook og Twitter.

Áfram íslensk tónlist!

 

Það vantar í dómnefnd

By | Fréttir | No Comments

SETA Í DÓMNEFND ÍSLENSKU TÓNLISTARVERÐLAUNANNA

Stjórn Íslensku tónlistarverðlaunanna ásamt SAMTÓN (sem er bakhjarl Íslensku tónlistarverðlaunanna) leita til félagsmanna aðildarfélaga SAMTÓNs og aðila sem tengdir eru íslensku tónlistarlífi með það í huga að gefa þeim kost á að bjóða sig fram til starfa sem fulltrúar í dómnefndum vegna tónlistarársins 2018.

Leit stendur yfir að opnum eyrum í dómnefnd sem fjallar um popp, rokk, raf og rapp/hiphop.

Æskilegt er að þeir einstaklingar sem sitja í dómnefndum hafi umtalsverða þekkingu á viðkomandi sviði og þeir komi að hluta til úr röðum höfunda, flytjenda og framleiðenda eða hafi fjallað um tónlist í fjölmiðlum. Sérstaklega er leitað eftir tónlistaráhugafólki á sviði rapps/hiphops og raftónlistar en öll víðtæk þekking á dægurtónlist er af hinu góða.

Við skipun dómnefnda er tekið tillit til aldursdreifingar og jafnrar stöðu karla og kvenna. Enginn einstaklingur í dómnefnd má vera viðriðinn útgáfu nokkurra þeirra hljóðrita sem tilnefnd verða fyrir tónlistarárið 2018. Dómarar eru skipaðir til tveggja ára í senn.
Stjórn Íslensku tónlistarverðlaunanna mun fara yfir umsóknir og velja fulltrúa í dómnefndir fyrir 1. október 2018. Þeir sem hafa hug á því að senda inn umsókn er vinsamlega bent á að fara inn á slóð þá sem tilgreind er hér á eftir og að fylla út umsóknareyðublaðið.

Skráningarform

Bestu kveðjur
Stjórn íslensku tónlistarverðlaunanna

www.iston.is
Facebook-síðan