
Bríet Ísis Elfar, Haukur Gröndal, Hjaltalín og Ingibjörg Turchi voru meðal þess tónlistarfólks sem var hve sigursælast á Íslensku tónlistarverðlaununum sem veitt voru í Hörpu á laugardagskvöld. Verðlaunin dreifðust annars vítt yfir sviðið og endurspeglar hversu mikla breidd íslenska tónlistarflóran býr yfir.
Íslensku tónlistarverðlaunin voru afhent í Norðurljósum Hörpu í kvöld og var hátíðin í beinni útsendingu á RÚV. Brugðið var til þeirra ráða að boða allt tónlistarfólk í smærri hópum, skömmu fyrir útsendinguna allt til þess gert að virða þær reglur um fjöldatakmarkanir sem uppi eru. Mikið var um dýrðir í Hörpu þar sem veislustjórinn, Saga Garðarsdóttir, tók á móti gestum, fór að kostum að venju og bauð upp á lifandi tónlist þess á milli. Hljómsveitirnar HAM og GusGus stigu á stokk, sem og Ingibjörg Turchi, Bríet og Álfheiður Erla. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra afhenti loks heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna og var það hljómsveitin Sigur Rós sem er heiðursverðlaunahafi ársins.
BRÍET GAF FINGURINN
Söngkonan Bríet Ísis Elfar átti geysiöfluga innkomu á síðasta ári þegar hún í byrjun árs gaf út lagið Esjuna, sem naut mikilla vinsælda og mun eflaust gera um ókomna tíð, og á seinni hluta ársins kom út hljómplatan Kveðja, Bríet. Bríet var sigursælust listafólks þetta kvöld en hún hreppti hnossið í þremur flokkum; hún á poppplötu ársins, var valin textahöfundur ársins og einnig er hún söngkona ársins í flokki popptónlistar. Það vakti mikla eftirtekt í útsendingunni þegar Bríet tók við verðlaunum sínum sem textahöfundur ársins. Í þakkarræðu sinni beindi hún orðum sínum til allra þeirra sem hafa spurt hana í gegnum tíðina hver það eru sem semja alla textana fyrir hana. Öllu því fólki gaf hún fingurinn. Ingibjörg Turchi ásamt hljómsveit sinni vakti talsverða athygli á síðasta ári með plötu sinni Meliae, hún var m.a. valin plata ársins í Morgunblaðinu en Meliae er einnig plata ársins í flokki djasstónlistar auk þess sem Ingibjörg hlaut önnur verðlaun með sínu fólki fyrir upptökustjórn Meliae. Meðlimir Hjaltalín voru valin lagahöfundar ársins auk þess sem Högni Egilsson var valinn söngvari ársins. Haukur Gröndal var sigursæll á kvöldinu en hann, ásamt Frelsissveit Íslands endaði með þrenn verðlaun í farteskinu, fyrir tónverk ársins sem og tónlistarflutning einstaklinga og hópa.
Eins og áður segir var breiddin mikil á verðlaunahátíð ársins og mörg kunnugleg andlit og nöfn sem birtust á skjánum – í bland við vonarstjörnur íslensks tónlistarlífs. Meðal vinningshafa voru Bubbi Morthens sem er tónlistarflytjandi ársins, Álfheiður Erla Guðmundsdóttir var valin söngkona ársins en hún er ein helsta vonarstjarna okkar í klassískum söng og var Stuart Skelton valinn söngvari ársins í sígildri og samtímatónlist en Skelton er í fremstu röð tenórsöngvara í óperuheiminum. Þrátt fyrir almenna tónleikaþurrð á síðasta ári má þó sjá glöggt hversu listafólk náði að klífa ýmsar áskoranir í viðburðahaldi og ímyndunaraflið fékk að njóta sín. Helgi Björnsson var þar fremstur meðal jafningja en hann hlaut verðlaunin fyrir tónlistarviðburð ársins í flokki popptónlistar. Víkingur Heiðar Ólafsson var valinn tónlistarflytjandi ársins í sígildri tónlist, Jófríður Ákadóttir, JFDR, átti lag ársins í raftónlist og þjóðargersemin Daði Freyr Pétursson fer til Hollands með verðlaunagrip í farteskinu en hann átti popplag ársins.
BJARTAR VONIR Í ÍSLENSKRI FLÓRU
Fyrr í vikunni var tekin forskot á sæluna þegar fern verðlaun voru veitt utan hátíðarinnar í Hörpu. Björtustu vonunum þremur; í popp-, rokk-, rapp/hiphop- og raftónlist, djass- og blústónlist og loks sígildri og samtímatónlist var komið á óvart á ýmsan hátt í þættinum Menningunni á RÚV. Guðlaug Sóley Höskuldsdóttir sem kallar sig gugusar var sótt heim og henni afhent styttan og er hún bjartasta vonin í popp-, rokk-, rapp/hipp hopp- og raftónlist, Steiney Sigurðardóttir sellóleikari var elt á fund í Perlunni í Öskjuhlíð og henni afhent stytta þar og loks fékk Laufey Lín Jónsdóttir símtal til Boston og henni tilkynnt að hún væri bjartasta vonin í flokki djass- og blústónlistar. Þrjár virkilega spennandi hæfileikakonur sem vert er að fylgjast með í framtíðinni. Þá var einnig tilkynnt á vefmiðlinum Albumm.is hvert tónlistarmyndband ársins væri en það var valið í kosningu á netinu auk þess að dómnefnd, skipuð tónlistarfólki og kvikmyndaleikstjóra, hafði vægi á móti. Tónlistarmyndband ársins var valið myndband Frosta Jóns Runólfssonar við lag Jónsa, Sumarið sem aldrei kom. Sjón er sögu ríkari; https://www.youtube.com/watch?v=z04sE7L2DVw
HLJÓMSVEITIN SIGUR RÓS HEIÐRUÐ
Heiðursverðlaunahafar ársins er hljómsveitin Sigur Rós og tóku þeir við viðurkenningunni frá Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra. Sigur Rós var stofnuð 1994 í Mosfellsbæ, eftir hana liggja meðal annars sjö breiðskífur, kvikmyndir og önnur listaverk sem hafa gert það að verkum að Sigur Rós er ein þekktasta og dáðasta hljómsveit okkar þjóðar sem á milljónir áhangenda um alla veröld. Stofnmeðlimir hljómsveitarinnar, sem í fyrstu hét Victory Rose, þeir Georg Holm, Ágúst Ævar Gunnarsson og Jónsi veittu verðlaununum viðtöku. Jónsi var þó mættur í streymisformi þar sem hann er búsettur erlendis. Með þeim voru vitaskuld þeir Kjartan Sveinsson og Orri Páll Dýrason sem hafa verið meðlimir Sigur Rósar um langa hríð. Þeim er hér þakkað fyrir sitt drjúga framlag til íslenskrar tónlistar og menningar.
Boðið var upp á tónlistaratriði á heimsmælikvarða í beinni útsendingu þegar nýkrýnd söngkona ársins, Álfheiður Erla Guðmundsdóttir flutti útgáfu sína af hinu þekkta þjóðlagi, Móðir mín í kví kví. Ingibjörg Elsa Turchi sem hlaut tvenn verðlaun kom fram ásamt hljómsveit sinni og flutti verk sitt Elefþería af hinni frábæri hljómplötu Meliae. Rokkgreifarnir í HAM heiðruðu samkomuna með flutningi á rokklagi ársins, Haf trú af plötu sinni Chromo Sapiens sem þeir unnu í tengslum við verk Hrafnhildar Shoplifter Arnardóttur. Bríet sem hlaut þrenn verðlaun á hátíðinni bauð upp á magnþrungið atriði þegar hún flutti lagið Djúp sár gróa hægt og hóf sig til flugs í lokin. Það var svo GusGus sem sló botn í dagskrá kvöldsins þegar þau fluttu lagið Higher ásamt mögnuðum danshópi, diskókúlum og konfettísprengjum.
Hér fyrir neðan má sjá upplýsingar um verðlaunahafa ársins í öllum flokkum. Við óskum verðlaunahöfum sem og öllum þeim sem voru tilnefnd – innilega til hamingju!
VERÐLAUNAHAFAR ÍSLENSKU TÓNLISTARVERÐLAUNANNA 2021
POPP-, ROKK-, RAPP & HIPP HOPP- OG RAFTÓNLIST
POPP – PLATA ÁRSINS
Kveðja, Bríet – BRÍET
ROKK – PLATA ÁRSINS
Endless Twilight of Codependent Love – Sólstafir
RAPP&HIPPHOPP – PLATA ÁRSINS
VACATION – CYBER
RAFTÓNLIST – PLATA ÁRSINS
Visions of Ultraflex – Ultraflex
POPP – LAG ÁRSINS
Think About Things – Daði Freyr
ROKK – LAG ÁRSINS
Haf trú – HAM
RAPP&HIPPHOPP – LAG ÁRSINS
Geimvera – JóiPé x Króli
RAFTÓNLIST – LAG ÁRSINS
Think Too Fast – JFDR
TÓNLISTARVIÐBURÐUR ÁRSINS
Heima með Helga
TEXTAHÖFUNDUR ÁRSINS
Bríet Ísis Elfar
LAGAHÖFUNDUR ÁRSINS
Hjaltalín
SÖNGVARI ÁRSINS
Högni Egilsson
SÖNGKONA ÁRSINS
Bríet Ísis Elfar
TÓNLISTARFLYTJANDI ÁRSINS
Bubbi Morthens
TÓNLISTARMYNDBAND ÁRSINS Í SAMSTARFI VIÐ ALBUMM.IS
Sumarið sem aldrei kom – Jónsi. Leikstjórn: Frosti Jón Runólfsson
https://www.youtube.com/watch?v=z04sE7L2DVw
BJARTASTA VONIN Í SAMSTARFI VIÐ RÁS 2
Gugusar
SÍGILD OG SAMTÍMATÓNLIST
PLATA ÁRSINS
John Speight, Solo Piano Works – Peter Máté
TÓNVERK ÁRSINS
Accordion Concerto – Finnur Karlsson
TÓNLISTARVIÐBURÐUR ÁRSINS – HÁTÍÐIR
Sönghátíð í Hafnarborg
TÓNLISTARVIÐBURÐUR ÁRSINS – TÓNLEIKAR
Brák og Bach
SÖNGKONA ÁRSINS
Álfheiður Erla Guðmundsdóttir
SÖNGVARI ÁRSINS
Stuart Skelton
TÓNLISTARFLYTJANDI ÁRSINS – EINSTAKLINGAR
Víkingur Heiðar Ólafsson
TÓNLISTARFLYTJANDI ÁRSINS – HÓPAR
Sinfóníuhljómsveit Íslands
BJARTASTA VONIN Í SÍGILDRI OG SAMTÍMATÓNLIST
Steiney Sigurðardóttir sellóleikari
DJASS- OG BLÚSTÓNLIST
PLATA ÁRSINS
Meliae – Ingibjörg Turchi
TÓNVERK ÁRSINS
Four Elements – Haukur Gröndal
LAGAHÖFUNDUR ÁRSINS
Sigurður Flosason
TÓNLISTARFLYTJANDI ÁRSINS – EINSTAKLINGAR
Haukur Gröndal
TÓNLISTARFLYTJANDI ÁRSINS – HÓPAR
Frelsissveit Íslands
TÓNLISTARVIÐBURÐUR ÁRSINS – TÓNLEIKAR
Jazzhátíð Reykjavíkur
BJARTASTA VONIN Í DJASS- OG BLÚSTÓNLIST
Laufey Lín Jónsdóttir
ÖNNUR TÓNLIST: OPINN FLOKKUR, ÞJÓÐLAGA- OG HEIMSTÓNLIST, KVIKMYNDA- OG LEIKHÚSTÓNLIST
PLATA ÁRSINS – KVIKMYNDA- OG LEIKHÚSTÓNLIST
Defending Jacob – Atli Örvarsson og Ólafur Arnalds
PLATA ÁRSINS – ÞJÓÐLAGA- OG HEIMSTÓNLIST
Shelters one – Jelena Ciric
PLATA ÁRSINS – OPINN FLOKKUR
EPICYCLE II – Gyða Valtýsdóttir
LAG/TÓNVERK ÁRSINS – OPINN FLOKKUR
Astronaut – Red Barnett
PLÖTUUMSLAG ÁRSINS
PLASTPRINSESSAN – K.óla:
Kata Jóhanness, Katrín Helga Ólafsdóttir, Ása Bríet Brattaberg, Arína Vala Þórðardóttir, Ída Arínudóttir, Elvar S. Júlíusson
UPPTÖKUSTJÓRN ÁRSINS
Meliae – Ingibjörg Turchi:
Upptökustjórn: Birgir Jón Birgisson, hljóðblöndun og hljómjöfnun: Ívar Ragnarsson
SIGUR RÓS HLÝTUR HEIÐURSVERÐLAUN ÍSLENSKU TÓNLISTARVERÐLAUNANNA 2021
Árið 1994 fæddist í Mosfellsbæ hljómsveitin Sigur Rós, sem fékk nafn sitt frá systur söngvara og gítarleikara sveitarinnar – Jóns Þórs Birgissonar, en stúlkan sú var nýfædd þegar hljómsveitin fékk nafn sitt. Upphaflega var hljómsveitin kölluð Victory Rose.
Meðlimir Victory Rose voru ásamt Jóni Þór eða Jónsa, þeir Georg Holm og Ágúst Ævar Gunnarsson og byrjuðu þeir á að apa eftir uppáhalds hljómsveitunum sínum, en hófu svo fljótlega að skapa sinn eigin stíl. Tónlistin var draumkennd og dramatísk, rödd Jónsa notuð meira eins og eitt af hljóðfærunum frekar en hefðbundin söngrödd og spilaði Jónsi á litríkan rafmagnsgítar sinn gjarnan með fiðluboga og hafði hátt, en stundum lágt. Hljóðheimurinn
var þarna kominn – fullskapaður á fyrstu plötunni, Von sem kom út árið 1997 undir merkjum Sigur Rósar og því Victory Rose nafnið lagt til hliðar. Einkennandi hljóðheimur sveitarinnar var svo innsiglaður rækilega til framtíðar á meistaraverkinu Ágætis byrjun 1999, en sú plata náði sannarlega eyrum tónlistarunnenda um allan heim. Þarna hafði hljómborðsleikarinn Kjartan Sveinsson bæst við sem fastur liðsmaður Sigur Rósar.
Á svigaplötunni 2002 bjuggu þeir til sitt eigið tungumál – Vonlensku – hopelandic, enn stækkaði aðdáendahópurinn um víða veröld og við tóku tónleikaferðalög umhverfis veröldina gjörvalla. Ágúst trommari hafði lagt kjuðana á hilluna og í hans stað kominn Orri Dýrason. Platan var tekin upp í nýju hljóðveri sem hljómsveitin kom sér upp í gamalli sundlaug í Álafosskvosinni í Mosfellsbæ og er enn starfandi undir Sundlaugar nafninu.
Sigur Rós sýndu fylgjendum sínum þakklæti og sögðu Takk á næstu plötu sem kom út árið 2005. Þar er t.d. lagið Hoppípolla sem BBC notaði mikið til að auglýsa einstaka náttúrulífsþætti sína um tíma. Árið 2008 leit fimmta platan dagsins ljós, Með suð í eyrum við spilum endalaust og má þar finna þeirra helstu smelli sem ennþá heyrast reglulega í útvarpi um allan heim. Fjórum árum ssíðar kemur út platan Valtari – og nýjasta platan, en vonandi ekki sú síðasta, Kveikur, kom svo árið 2013.
Sigur Rós hefur undanfarinn aldarfjórðung með einstakri tónlist sinni heillað milljónir manna um allan heim, kveikt áhuga fólks á heimalandi þeirra, því stórbrotna landi elds og ísa sem býr til fólk sem skapar tónlist eins og Sigur Rós gerir. Og það sem meira er – tónlist Sigur Rósar, þegar hún er ekki á Von-lensku, er sungin á Íslensku. Sigur Rós hefur sýnt það og sannað að það er hægt að sá í gegn alþjóðavísu með því að syngja á Íslensku og það er öllum ljóst að þetta hefur skapað Sigur Rós en meiri sérstöðu en ella. Sigur Rós hefur unnið til fjölda verðlauna, og fengið enn fleiri tilnefningar til verðlauna í gegnum tíðina bæði fyrir tónlist sína og kynngimögnuð myndbönd. Lögin þeirra hafa líka heyrst í gríðarlegum fjölda kvikmynda og sjónvarpsþátta um allan heim.
Sigur Rós hefur gefið okkur 7 breiðskífur sem allar eru einstakar. Þeir hafa gert kvikmyndir, ferðast um Ísland og allan heim aftur og aftur og allstaðar eiga þeir aðdáendur sem hafa ýmist hlegið eða grátið á tónleikum hjá þeim, og oft bæði í einu. Sigur Rós kom síðast fram hér heima á Norður og niður listahátíðinni sem hljómsveitin stóð fyrir í Hörpu milli jóla og nýárs 2017 og fáum við vonandi að sjá Sigur Rós á sviði aftur sem allra fyrst. Við eigum Sigur Rós mikið að þakka – þeir hafa gert svo margt gott fyrir íslenska tónlist, íslenska menningu og okkur öll um langa hríð. Þeim er hér færðar þakkir fyrir þeirra framlag.
Hljómsveitin Sigur Rós er heiðursverðlaunahafi Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2021.