Heiðursverðlaun 2019

Sigrún Hjálmtýsdóttir

Sigrún Hjálmtýsdóttir, sópransöngkona ólst upp í Vesturbæ Reykjavíkur, á heimili þar sem tónlist var allt umlykjandi. Hún var í aðalhlutverki í barnaleikriti í Melaskólanum 1967, kom fram í sjónvarp og söng inn á plötu 1969. Hún var valin í hlutverk ungfrú Gúðmúnsen í sjónvarpsgerð Brekkukotsannáls eftir Nóbelsskáldið Halldór Kiljan Laxness árið 1972. Hún stundaði leiklistarnám 1974 til 1975 og hefur leikið á sviði, í sjónvarpi og í kvikmyndunum Karlakórinn Hekla í leikstjórn Guðnýjar Halldórsdóttur og Bíódagar í leikstjórn Friðriks Þórs Friðrikssonar. Sigrún starfaði með Spilverki þjóðanna 1975 til 1978. Hún hefur sungið vísnalög, dægurtónlist, djassópusa, revíusöngva, ljóðasöngva, einsöngslög og óperuaríur á sviði og inn á fjölda hljómplatna.
Sigrún stundaði nám í Guildhall School of Music and Drama í Lundúnum 1979 til 1984, lauk Post Graduate námi frá sama skóla árið 1985. Hún sótti einkatíma í söng á Ítalíu á tímabilinu 1987 til 1988. Hún hefur einbeitt sér að óperusöng eftir það og sótt sér reglulega leiðsögn í söng og túlkun verka hjá kennurum á Ítalíu.
Sigrún þreytti frumraun sína á óperusviði í hlutverki Olympiu í Ævintýri Hoffmanns eftir Offenbach árið 1988, hjá Íslensku óperunni og Þjóðleikhúsinu. Síðan hefur hún sungið fjölmörg óperuhlutverk hjá Íslensku óperunni, hjá Óperunni í Þrándheimi og Óperunni í Gautaborg.
Sigrún hefur sungið með Sinfóníuhljómsveit Íslands og komið fram með sinfóníuhljómsveitum, kammersveitum, einleikurum og kórum á Norðurlöndunum, í Bretlandi, Bandaríkjunum, Kanada, Færeyjum, Frakklandi, Ítalíu, Rússlandi, Japan og Kína. Hún hefur meðal annars sungið með tenórunum José Carreras, Placido Domingo og Hugh Smith. Hún hefur víða komið fram með píanóleikurunum Jónasi Ingimundarsyni og Önnu Guðnýju Guðmundsdóttir, og Diddú og Drengirnir hafa haldið ófáa tónleika.
Sigrún hefur hlotið margskonar viðurkenningar fyrir söng sinn. Hún var m.a. valin Söngkona ársins 1977, 1978 og 1979. Hún var sæmd Riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt á sviði sönglistarinnar 1995, varð Stórmeistari af finnsku ljónsorðunni 1997 og hefur verið bæjarlistamaður Mosfellsbæjar.

Sigrún Hjálmtýsdóttir er heiðursverðlaunahafi Íslensku tónlistarverðlaunanna í ár.

Heiðursverðlaun 2018

Jón Ásgeirsson

Heiðursverðlaun 2017

Stuðmenn

Heiðursverðlaun 2016

Rut Ingólfsdóttir

Heiðursverðlaun 2015

Kristinn Sigmundsson

Heiðursverðlaun 2014

Sykurmolarnir