05. mar. 2025
Vinsælasta tónlist ársins
KJÓSAÍslensku tónlistarverðlaunin kynna til leiks ný verðlaun í samstarfi við RÚV og Rás 2 þar sem verðlaunað er fyrir vinsælustu tónlistina á síðasta ári og þar mun val fólksins ráða för.
Við samsetningu lista þeirra fimm flytjenda sem neðangreind eru var höfð hliðsjón af streymi, sölu platna, útvarpsspilun, tónleikaflutningi og athygli almennings sem og viðurkenninga hér og erlendis. Í þessu sambandi var sérstaklega horft til nýrra eða nýútkominna verka.
Þessi fimm eru tilnefnd til hinna nýju verðlauna fyrir Vinsælustu tónlistina árið 2024:
- Bubbi Morthens
- Iceguys
- Laufey Lín
- Nýdönsk
- GDRN
Kosning almennings
Hustendum gefst færi á að kjósa sína á milli fimm listamanna sem allir þóttu skara fram úr árið 2024. Kosningin fer fram á vef RÚV.
Hægt er að nálgast kosninguna í hlekk hér efst.
Bubbi Morteins
Bubba þarf vart að kynna. Hann er tilnefndur til íslensku tónlistarverðlaunanna í flokknum Vinsælasta tónlistin og ástæðan m.a. vinsælasta leiksýning sögunnar, 9 Líf, sem er byggð á ævi og tónlist Bubba. Sýningarnar, á stóra sviðinu í Borgarleikhúsinu, urðu 250 alls. Þeim lauk í júní í fyrra. Bubbi gaf út plötuna Dansaðu í fyrra og hefur hún notið mikilla vinsælda.
Iceguys
Iceguys, hafa verið altumlykjandi síðan þeir skutust fram á sjónarsviðið árið 2023. Sjónvarpsþættirnir um Iceguys nutu geysimikilla vinsælda en sveitina skipa Jón Jónsson, Friðrik Dór, Herra Hnetusmjör, Aron Can og Rúrik Gíslason. Drengirnir héldu stærstu tónleika ársins, í Laugardalshöll í fyrra, þar sem seldust um 25 þúsund miðar.
Laufey Lín
Laufey Lín Jónsdóttir hefur farið með himinskautum síðustu misseri og margverðlaunuð hér heima og ytra. Hún hlaut auðvitað Grammy-verðlaun í fyrra og er hún er með yfir 600 milljónir spilana á streymisveitum, hvorki meira né minna.
Nýdönsk
Hljómsveitina Nýdönsk þekkja sennilega flest. Allt frá 1987 hefur sveitin verið skipuð nánast sama mannskap og afrakstur þess samstarfs birtist meðal annars í á annan tug hljómplatna. Nýjasta platan, Raunheimar, leit dagsins ljós á dögunum en á síðasta ári átti Nýdönsk vinsælasta lagið bæði á Rás 2 og Bylgjunni, lagið Fullkomið farartæki. Hljómsveitin er því iðin við kolann, sýnir mikla elju í tónleikahaldi og gerir einstaklega vel við áhangendur sína þar með því að bjóða upp á bestu lögin sín í tónleikabúningi og verstu lögin líka, eins og þeir komast sjálfir að orði.
GDRN
Tónlistarkonan GDRN er tilnefnd fyrir glæstan árangur. GDRN, Guðrún Ýr Eyfjörð Jóhannesdóttir, er enn einn dugnaðarforkurinn í íslensku tónlistarlífi. Hún gaf út tvær plötur á síðasta ári, Frá mér til þín og jólaplötuna Nokkur jólaleg lög. Það má ætla að hún hafi eignast marga nýja aðdáendur á öllum aldri á síðasta ári. Auk þess lét Guðrún til sín taka í tónleikahaldi á síðasta og hélt meðal annars glæsilega tónleika í Eldborg í Hörpu.