Lítill fugl
Litla fuglinn árið 2021 hlaut tónlistarfræðingurinn, blaðamaðurinn og gagnrýnandinn Arnar Eggert Thoroddsen.
Arnar Eggert Thoroddsen er doktor í tónlistarfræðum frá Háskólanum í Edinborg, starfar nú meðal annars sem aðjúnkt og námsstjóri við fjölmiðla- og samskiptafræðadeild Háskóla Íslands þar sem hann sinnir kennslu einnig. Arnar hefur lifað og hrærst í heimi íslenskrar tónlistar frá unga aldri, allt frá því hann keppti sjálfur í Músiktilraunum en hóf fljótt upp úr því að vera öflugri hlustandi og ötull tónleikagestur. Sem blaðamaður Morgunblaðsins hefur Arnar fjallað um alla kima íslenskrar dægurtónlistar í árafjöld og greinarnar skipta hundruðum ef ekki þúsunda. Eftir Arnar Eggert liggja einnig nokkrar bækur útgefnar sem allar fjalla um íslenska tónlist, greinasafnið Tónlist er tónlist, 100 bestu plötur Íslandssögunnar og Icelandic Pop: It’s place and peculiarities sem kom út í Lundúnum á síðasta ári.
Síðustu fimm ár hafa vakið mikla eftirtekt tónlistargöngur Arnars um Reykjavík en hann stofnaði, stýrir og leiðsegir í Reykjavik Music Walk þar sem gönguhrólfar eru kynntir fyrir tónlistarsögunni sem markar djúp skref í fjölmörgum götum borgarinnar. Markmið tónlistargangnanna er að veita fróðlega kynningu á sögu íslenskrar dægurtónlistar.
Arnar Eggert hefur sökum reynslu sinnar notið mikilla vinsælda sem fyrirlesari og varla sem upp koma fréttir úr tónlistarheiminum án þess að leitað sé til Arnars um álit eða lærða skoðun á málum. Arnar skrifar enn sleitulaust um tónlist, og fáar sem engar stefnur né straumar sem skildar eru útundan í bókum Arnars. Arnar heldur úti sínu eigin vefsvæði með umfjöllunum sínum og síðasta rýni hans er ekki eldri en 3 daga gömul.
Arnari Eggert er hér þakkað af heilum hug fyrir óeigingjarnt starf í þágu íslenskrar tónlistar, vandaða umfjöllun og dagskrárgerð íslenskri tónlist til heilla.
Arnar Eggert Thoroddsen er heiðursverðlaunahafi Dags íslenskrar tónlistar 2021.
Fyrri heiðursverðlaunahafar á Degi íslenskrar tónlistar:
2020 Jónatan Garðarsson
2019 Gerður G. Bjarklind
2018 Pétur Grétarsson
2017 Jón Ólafsson
2016 Svanhildur Jakobsdóttir
2015 Tónlistarsafn Íslands
2014 Gunnlaugur Jónsson og Ásgeir Eyþórsson (Árið er á Rás 2)
2013 Tónlistardeild Rásar 1
2012 Ólafur Páll Gunnarsson (sem tónlistarstjóri Rásar 2)
2011 Þorgeir Ástvaldsson (sem fyrsti forstöðumaður Rásar 2)
2010 Upplýsingar ekki til staðar um það ár
2009 Vernharður Linnet
2008 Andrea Jónsdóttir
2007 Árni Matthíasson