Saga Ístón
Saga íslensku tónlistarverðlaunanna
Sögu íslenskra tónlistarverðlauna má rekja aftur til ársins 1960 þegar Svavar Gests hélt úti poppsíðu í vikublaðinu Ásinn og tveimur árum síðar hjá Vikunni. Íslensk tónlistarverðlaun hafa þó verið slitrótt og ekki dró til tíðanda aftur fyrr en árið 1967 þegar Vikan endurvakti verðlaunin í samstarfi við tískuvöruverslunina Karnabæ.
Árið 1969 var síðan ungur piltur úr Hafnarfirði, Björgvin Halldórsson, valin poppstjarna ársins og hljómsveit hans, Ævintýri, besta hljómsveitin. Eftir þessa sögulegu keppni í Laugardagshöll varð langt hlé þar til Dagblaðið stóð fyrir Stjörnumessunum í nokkur ár. Það var síðan árið 1993 að nokkrir félagar úr Rokkdeild FÍH með þá Stefán Hjörleifsson og Eið Arnarsson í fararbroddi endurvöktu Íslensku tónlistarverðlaunin í núverandi mynd. Það var meðvituð ákvörðun þeirra félaga að byrja smátt og öðrum þræði var litið á verðlaunahátíðina sem árshátíð tónlistarbransans.
Tilnefnt var í fjórtán flokkum og hlaut hljómsveitin Todmobile flest verðlaun. Fyrsta árið voru veitt verðlaun í flokki popp- og rokktónlistar, ári síðar bættist jazz við og árið 1995 voru fyrst veitt verðlaun í flokki sígildrar og samtímatónlistar. Með árunum hafa síðan íslensku tónlistarverðlaunin stækkað og dafnað og njóta nú virðingar meðal almennings og tónlistarfólks. Undanfarin ár hefur hátíðin verið öll hin glæsilegasta og meðal annars verið send út í Sjónvarpinu með mikið áhorf.
Anna Guðný Guðmundsdóttir tekur við heiðursverðlaunum Íslensku tónlistarverðlaunanna í mars 2022.
Afhending Íslensku tónlistarverðlaunanna 2005 var t.a.m. 8. vinsælasta sjónvarpsefnið í íslensku sjónvarpi í janúarmánuði 2006 samkvæmt skoðanakönnun Gallups. Síðan hefur útsending í sjónvarpi mælst með um eða yfir 50%. Árið 2002 tók Samtónn við stjórn verðlaunanna. Samtónn skipar þriggja manna stjórn verðlaunanna þmt framkvæmdastjóra. Framkvæmdastjóri Íslensku tónlistarverðlaunanna á árunum 2001- 2004 var Einar Bárðarsson og frá 2005 – 2006 Berglind María Tómasdóttir. Pétur Grétarsson var framkvæmdarstjóri verðlaunanna frá 2007 – 2010 og María Rut Reynisdóttir var framkvæmdastjóri árin 2011 og 2012 en snemma árs 2014 tók Eiður Arnarsson við stöðu framkvæmdastjóra samhliða María Rut. Aðrir í stjórn voru þá Róbert Þórhallsson og Helgi Björnsson.
Árið 2017 tók ný stjórn við Íslensku tónlistarverðlaununum: Mikael Lind fyrir hönd STEF, Margrét Eir fyrir FÍH og Jóhann Ágúst Jóhannsson fyrir hönd SHF. Mikael hætti í stjórninni að einu ári loknu og vorið 2019 tók Kristján Freyr Halldórsson sæti í stjórn verðlaunanna fyrir hönd STEF.