Heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna hlaut Magnús Kjartansson. Magnús er einn afkastamesti tónlistarmaður landsins og hefur komið að nær öllum hliðum listarinnar í gegnum sinn feril. Hann stofnaði hljómsveitina Júdas með Finnboga bróður sínum og gekk síðar í Trúbrot árið 1970. Meðal hljómsveita sem Magnús hefur einnig starfað með má nefna Brunaliðið, Hauka, Brimkló, Hljómsveit Björgvins Halldórssonar, Hljómsveit Magnúsar Kjartanssonar, Sléttuúlfana og Axel O og Co.

Magnús hefur verið einn afkastamesti hljóðvers tónlistarmaður landsins, stjórnað upptökum og útsett og samið tónlist fyrir eigin hljómsveitir og aðra flytjendur. Hann hefur starfrækt eigið hljóðver, stjórnað kórum, samið þekkt lög, auglýsingastef og tónlist fyrir sjónvarpsþætti og kvikmyndir. Magnús hefur komið að vinnslu fjölmargra hljómplatna, þar á meðal eru sólóplötur Vilhjálms Vilhjálmssonar og margra annarra.